15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

30. mál, tilbúinn áburður

Magnús Jónsson:

Jeg held nú, að ekki veitti af að bera tilbúinn áburð á stólana hjer, ef vera mætti, að eitthvað af þingmönnum sprytti upp af þeim.

Hv. frsm. sagði af því, að jeg mintist á einokun, að við vildum setja gömlu einokunarverslunina upp eins og einhverja grýlu í þessu máli. Er það nú ekki von? Það hefir margt þjakað þetta land, ísalög, eldgos, drepsóttir, harðæri og hverskonar óáran, en jeg held, að öllum komi saman um það, að einokunin hafi gert meira tjón en alt þetta til samans. Nú vilja menn halda því fram, að til gömlu einokunarinnar hafi verið stofnað sem hverrar annarar blóðsugu gagnvart okkar þjóð og alls ekki með hag hennar fyrir augum. En því fer fjarri. Það var stofnað til hennar að minsta kosti meðfram sem þjóðþrifafyrirtækis, og þeir, sem að því stóðu, trúðu því, að hún mundi verða okkur til blessunar, alveg eins og forgöngumenn þessa máls nú. Það var búið um hana sem tryggilegast að þeirrar tíðar hætti, með konungsbrjefum og öðru slíku, og það voru færðar fram fyrir henni alveg hliðstæðar ástæður og nú. Því var haldið fram, að annars væru landsmenn ofurseldir eymdinni og hungrinu. Gamla einokunin var sett í góðum tilgangi, og það mun sannast, ef einokun verður sett nú, að dómur sögunnar verður á sínum tíma alveg sá sami.

Það er því engin grýla, sem hjer er verið að sýna, heldur hitt, að benda mönnum á að líta í spegil sögunnar og sjá þar þetta fyrirkomulag í sinni rjettu mynd. Það var heldur ekki svo þá fremur en nú, að landsmenn væru allir mótfallnir einokuninni eða vildu losna við hana. Nei, þeir þorðu það beinlínis ekki, því að þeir óttuðust, að þá mundu aðflutningar til landsins teppast og skortur verða í landinu. Til dæmis var það svo um síra Jón Steingrímsson, þann ágæta Skaftfelling og samsýslung hv. frsm., að hann talaði með hinni mestu vandlætingu um „fríhöndlun“ og aðra ósiði, sem færu nú í vöxt í landinu!

Þá var það aðallega hv. þm. Mýr., sem jeg þurfti að ávarpa. Það var mjög eftirtektarvert, sem hann sagði síðast í sinni ræðu. Hann kvaðst ekki vilja á neinn hátt kasta rýrð á það eða draga úr því, að bændur notuðu heimafenginn áburð. En hann hjelt því fram, að þeir, sem færu að nota útlenda áburðinn, kynnu þá fyrst að meta hinn innlenda. Hvers vegna? Líklega sjálfsagt vegna þess, að þá kennir reynslan þeim fyrst, að heimafengni áburðurinn er notadrýgri. Þeir, sem báðar tegundirnar hafa notað, eru best allra vitnisbærir í þessu máli, og nú segir einmitt hv. þm., að þessi reynsla bendi þeim í þá átt, að hagnýta sem best íslenska áburðinn.

Jeg skal nú ekki leggja neina rýrð á viðleitni manna til að útvega mönnum tilbúinn áburð við góðu verði. Það er fjarri mjer. En það er þetta stóra atriði í málinu, sem gerir aðalmuninn, og það er flutningurinn. Annar áburðurinn er á staðnum, en hinn þarf að flytja, fyrst til landsins og síðan út um landið á hinar ýmsu hafnir, og svo að lokum upp í sveitirnar, heim til notenda. Annars ætla jeg mjer ekki að berjast á móti útvegun tilbúins áburðar. Jeg veit, að búnaðarframkvæmdir, einkum í nágrenni kaupstaðanna, byggjast mjög á því, að tilbúinn áburður sje fáanlegur með viðunandi verði. En þetta er enn framtíðarmál. Enn sem komið er hefir lítið verið gert að því að nota tilbúinn áburð, nema helst hjer í Mosfellssveitinni, en jeg get trúað, að með tíð og tíma geti þetta orðið stórt mál fyrir alt landið. Það hefir verið bent á hin loflegu dæmi úr Mosfellssveitinni, en um hana má segja, að hún hefir sjerstöðu að því leyti, að markaðurinn í Reykjavík er alveg við hendina. Auðvitað er sú aðstaða alls ekki sambærileg við aðstöðu annara hjeraða á landinu, og það er einmitt aðstaðan, sem veldur miklu um það, hvað hægt er að leggja í kostnað.

Nú eru það aðalrökin í skýrslu hv. þm. Mýr., að nauðsynlegt sje og sjálfsagt að komast sem næst framleiðandanum. Sje það nú svo, þá á jeg bágt með að trúa, að það sje hægast að komast það með einkasölu. Það er svo yfirleitt, að þessum stóru fjelögum er meinilla við einkasölu og þau kæra sig ekki um að ýta undir slíkt fyrirkomulag, sem stríðir að öllu leyti á móti öllum þeirra reglum. Þó þeir sjeu ekki hræddir við einkasölu á Íslandi, þá eru þeir hræddir við ríkisrekstur yfirleitt. Það ber talsvert á nokkurskonar oftrú á þessu, bæði hjá almenningi og kaupmönnum, að komast í „bein sambönd“. Jeg hefi komist að því, að sumir kaupmenn hjer eru svo ákafir í þetta, að dæmi eru til, að þeir hafa keypt vöruna dýrara beint en þeir gátu fengið hana frá heildsölum hjer.

Það er líka ómögulegt að segja, hvort áburðurinn yrði ódýrari með því að kaupa hann beint frá þessu stóra þýska fjelagi heldur en frá „Dansk Gödningskompagni“, sem vitanlega gerir miklu stærri kaup en við mundum gera og hefði því sennilega aðstöðu til að komast að betri kjörum. Enda kemur viðurkenning á þessu beint fram í skýrslunni. Hv. þm. segir þar meðal annars: „.... þó að val um þetta gæti að mínum dómi komið til álita, tel jeg samt sjálfsagt, að ríkisstjórnin sæki svo fast sem unt er að ná beinu verslunarsambandi, og sleppi ekki þeim rjetti, ef fengist, þótt hagkvæmara kynni að þykja samband við aðra fyrst um sinn . . . . “. Og ennfremur segir hann síðar: „.... Þó að það ekki takist, eða t. d. samband við Dansk Gödningskompagni þætti að einhverju hentugra, er engu síður nauðsynlegt fyrir ríkið að ná einkasölu hjá Dansk Gödningskompagni . . . . “.

Á þessum orðum er auðsjeð, að þm. hefir verið inni á svipuðum hugsanaferli og jeg, að það væri ekki víst, að betra væri að versla beint heldur en við milliliði, sem geta ef til vill fengið vöruna miklu ódýrari vegna þess að þeir kaupa miklu meira.

Þá tæpti hv. þm. á hinni miklu deilu, sem hjer hefir orðið á þingi undanfarið um einkaumboð það, sem kallað var, að Búnaðarfjelagið hefði haft og tapað. Jeg veit nú satt að segja ekki, hvort það hefir nokkurntíma verið sýnt eða sannað, síðan friðurinn frægi var saminn í Búnaðarfjelaginu, hvort það hafði haft nokkurt einkaumboð eða ekki. Af þeim skeytum, sem send voru frá Norsk Hydro, og af skýrslu Pálma Einarssonar verður að minsta kosti ekki dregin nein sönnun í þá átt, nema síður sje. Hv. þm. sagði, að svona gæti farið aftur, að verslunin kæmist á einstakra manna hendur. Mjer sýnist það alls ekki vera næg ástæða út af fyrir sig til þess að grípa til einkasölu. Það yrðu að vera einhverjar líkur til, að það einkafyrirtæki misbrúkaði vald sitt. Ef svo stæði á, að það þyrfti að bjarga málinu úr einhverjum vargaklóm, þá væri komin mikil ástæða til að taka upp einkasölu. En slíku er nú ekki til að dreifa. Það er altaf hægt að hafa slíkt í hendi sjer, þegar í óefni sýnist ætla að komast.

Það hefir verið talað um hagnaðinn við að kaupa stórt, og það er sjálfsagt mikill munur á því eða að kaupa eins lítið í einu og hv. þm. nefndi. Þess vegna geta heildsalar selt ódýrara en smákaupmenn. En það er alt öðru til að dreifa, ef um það eitt er að ræða að kaupa til dæmis 1000 tonn eða 3000 tonn í einu. Svo er aðgætandi, að þegar keypt er mikið, er ekki altaf víst, að hægt sje að afgreiða alt í einu. Valda því oft ýmsar ástæður, að verslunarfyrirtækin afgreiða pantanir smám saman, jafnvel þótt heildarkaupin sjeu mjög mikil. Mjer líst svo á, að hjer verði einmitt að fara svona að, ef senda á áburðinn með skipum víðsvegar um land. Mjer virðist vera aðallega miðað við ríkissjóðsskipin og skip Eimskipafjelags Íslands um flutninginn. Hagsmunirnir nást þá fyrst, er hægt verður að lesta heil skip. En eins og jeg hefi bent á, mun hægt að ná þessum hagsmunum án nokkurrar ríkiseinkasölu.

Þá kom hv. þm. að öðru atriði, sem sje því, hvort ríkissjóður þyrfti að binda fje í þessari verslun. Af því nú að jeg geri ráð fyrir, að hans álit og till. verði mikils metnar, er það mjög upplýsandi að athuga, hvað hann segir um það, og jeg býst við, að menn sjái nú hjer myndina af því, hvernig þessi verslun muni verða rekin undir einkasölufyrirkomulaginu. Hv. þm. var helst á því, að ekkert fje þyrfti til þessa. Hann talaði um að fela Búnaðarfjelagi Íslands að annast um verslunina. En hefir það þá svo miklum starfskröftum á að skipa, að það sje aflögufært til þessa? Og ef svo er, væri þá ekki hægt að fækka mönnum, ef verslun þessi verður ekki á það lögð? Menn ættu svo, sagði hann, að senda því pantanir sínar utan af landi, en fjelagið safnaði þeim saman og afgreiddi í heild. Svo eiga allir að innleysa pantanirnar, þegar þær koma. Þetta þykir mjer fara mjög í bága við aðaltilganginn, sem sje að útbreiða og auka sem mest notkun tilbúins áburðar, að setja verslunina í svona þrönga spennitreyju. Nei, þetta getur gengið í þingræðum, en ekki í veruleikanum. Pantanir koma ekki á þennan hátt; menn vita ekki fyrirfram, hvað mikið þeir muni nota, eða hugsa ekki út í það að panta í tæka tíð. Reynslan hefir sýnt þetta. Hvers vegna dugðu ekki pöntunarfjelög og af hverju var nauðsynlegt að setja upp söludeildir þeim við hlið? Auðvitað af því, að menn þurftu að geta gengið að vörunni á staðnum, — annars var hún ekki keypt. Nei, þetta getur ekki gengið. Búnaðarfjelagið eða ríkiseinkasalan verður að panta eins mikið eins og hún gerir ráð fyrir að geta selt á árinu. Það verður því óhjákvæmilegt að binda stórmikið fje í þessari verslun, bæði í vörubirgðum og eins í vörugeymsluhúsum, ef fyrirkomulagið á ekki að fara algerlega í bága við höfuðtilgang málsins, að örva menn til að nota meira tilbúinn áburð en verið hefir. Annaðhvort verður einkasalan til að hefta allan árangur af þessu eða að hún kostar stórmikið fje. Mig minnir, að jeg hafi heyrt nefndar 10 þús. kr., en jeg er hræddur um, að sú upphæð hrökkvi skamt. Hið minsta, sem hægt er að hugsa sjer, býst jeg við, að væri svo sem hálf miljón, eða það væri að minsta kosti nær sanni.

Mig vantar ennþá ástæðuna fyrir einkasölu á tilbúnum áburði. Eina ástæðan er þessi gamla einkasöluástæða, sem hægt er að bera fram á öllum sviðum og gagnar því ekki hjer. Það er ekki sannað, að betra verð fáist með einkasölufyrirkomulagi, en það er gert sennilegt, að verslunin yrði miklu stirðari og óhagstæðari, og myndi því draga úr notkun áburðarins. Eina gagnið, sem notendur áburðarins hafa af einkasölunni, ef frv. verður samþ., er ívilnunin á flutningsgjöldum, en einkasalan verður aðeins til ógagns.