15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

30. mál, tilbúinn áburður

Gunnar Sigurðsson:

Mjer finst umr. þessa máls komin á nokkuð breiðan grundvöll og skal reyna að halda mjer við frv. sjálft. Jeg var strax, er jeg heyrði um þetta frv., því fylgjandi, sökum þess, að það er spor í þá átt að hrinda landbúnaðinum í tískuhorf. Það er á móti mínu skapi að styrkja einn atvinnuveg á annars kostnað, en það gleður mig, hve vel og vinsamlega málsvarar sjávarútvegsins hafa tekið þessu máli. Aftur á móti er leitt að heyra sumar þær raddir, er fram koma í málinu, svo sem hv. þm. Barð., sem mjer skildist, að vildi gera lítið úr notkun tilbúins áburðar fyrir landbúnaðinn. (HK: Rangt, alrangt!). Það gleður mig, ef ekki hefir átt að skilja hv. þm. þannig, en það var ekki hægt að skilja ummæli hv. þm. öðruvísi. Annarsstaðar er tilbúni áburðurinn höfuðundirstaðan undir ræktuninni. Húsdýraáburður er þar eingöngu notaður til undirburðar. Hjer á landi er þegar farið að nota tilbúinn áburð þar, sem best eru markaðsskilyrðin og samgöngur greiðastar. Því hygg jeg, að þetta mál muni læknast af sjálfu sjer og komast í gott horf, þegar sveitir landsins fá þær samgöngur, er nútímanum hæfa. Við verðum að rækta landið upp frá sjónum með bættum samgöngum.

Hjer hefir heyrst rödd um hreppapólitík af Sunnlendinga hálfu í þessu máli. En það er beinlínis skilyrði fyrir því, að Suðurlandsundirlendið geti haft nokkurt gagn af frv., að því verði hjálpað á einhvern hátt að koma áburðinum austur. Það þarf að koma áburðinum sem allra víðast, en eins og samgöngur eru nú, er alveg ógerningur að koma honum ókeypis á hverja vík og vog. Jeg hygg, að menn hafi ekki gert sjer nægilega grein fyrir, hver baggi það yrði fyrir ríkissjóð. En fyrir þá sök vil jeg sætta mig til bráðabirgða við till. hv. landbn. Málið er nú á frumstigi, og er betra að byrja á því að stíga spor í rjetta átt, þótt smátt sje, heldur en að byrja á víxlspori.

Jeg er enginn „princip“-maður um það, hvort hafa beri einkasölur eða ekki. Er það því ekkert höfuðatriði fyrir mjer, hvort einkasala er á áburði eða ekki. En jeg álít, að landsstjórnin hafi betri tök en aðrir á því að gera hagstæða samninga við skipafjelögin, þó einkum Eimskipafjelag Íslands, sem altaf er upp á þing og stjórn komið að meira eða minna leyti.

Jeg álít það vera stærsta kost frv., að það ýtir undir menn að nota tilbúinn áburð. Þar sem samgöngur eru svo góðar, að unt er að flytja hann að sjer með tiltölulega litlum kostnaði, má fullyrða, að hægt sje að hafa allmikla hagsmuni af notkun áburðarins nú þegar. Með leið þeirri, er hv. landbn. leggur til, er hægt að koma á notkun áburðarins í sjávarplássunum og öðrum þeim hjeruðum, er best liggja við samgöngum, og væntanlega verður í framtíðinni hægt að fikra sig áfram og koma áburðarnotkuninni með tímanum sem víðast um landið.