02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1929

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi ekki mikla ástæðu til að þakka hv. fjvn. Hún hefir brugðist mjög illa við því erindi, sem jeg bar fram, og jeg verð að segja það, að það kom mjer ákaflega óvart að heyra þær undirtektir, af þeirri ástæðu, að samskonar fjárveiting var veitt í fyrra, og jeg sje, meira að segja, að háttv. frsm. hefir greitt atkvæði með henni, að viðhöfðu nafnakalli. Þessi vegur var ekki fremur rannsakaður þá en nú, og hafi verið hægt að greiða atkvæði með þessari fjárveitingu í fyrra, áður en rannsókn var framkvæmd, þá er það alveg eins hægt nú. Annars sagði vegamálastjóri nýlega í samtali við mig, að hann byggist jafnvel við að geta rannsakað þetta vegarstæði nú þegar í apríl, sem sýndi það um leið, að hann hafði áhuga á þessu máli.

Jeg skildi það svo, þegar þetta mál var samþykt hjer á þingi í fyrra án þess að rannsókn hefði farið fram, þá væri þar með sagt, að fjvn. hefði þann skilning á málinu, að það væri nauðsynjamál, sem ekki mætti bíða eftir rannsókn; og það fanst mjer mjög eðlilegt. Ennfremur skildi jeg þetta svo af því, að í nefndinni eiga þeir menn sæti, sem vilja gera mjög mikið fyrir landbúnaðarhjeruðin, og hjer er um landbúnaðarhjerað að ræða. Allir, sem þekkja aðstöðuna nokkuð, vita, að hjer er verið að bæta úr mjög sárum órjetti, sem þetta landbúnaðarkjördæmi hefir orðið fyrir, og þó að mörgum hjeruðum hafi verið hjálpað, þá hefir ekkert verið gert til þess að útvega þessu kjördæmi þær samgöngur, að það geti fengið markað fyrir sínar afurðir.

Jeg fer að halda, að það sje ekki mjög mikils virði alt þetta, sem verið er að tala um að lyfta undir landbúnaðinn, þegar það eru nær eintómir landbúnaðarmenn, sem eiga sæti í þessari nefnd og vita, að þeir geta hjálpað sýslunni með að umbreyta öllum hennar hag með því að leggja fje til þessa vegar.

Jeg get ef til vill ekki talað um þetta með öðrum eins sannfæringarkrafti eins og fyrirrennari minn, en mig furðar á, að það skuli ekki enn óma í eyrum hv. fjvn. þær mjög rökföstu og snjöllu ræður, sem hann hjelt í fyrra um þetta mál, og mjer þykir það mjög undarlegt, að þeir menn, sem greiddu atkvæði með þessari fjárveitingu í fyrra, áður en nokkur rannsókn hafði farið fram, skuli svo skyndilega breyta um skoðun og ætla að leggja fjárveitinguna niður. Það getur vel verið, að það takist að draga þennan sjálfsagða styrk til þessarar sýslu; það getur vel verið, að hv. þd. takist að neita kröfum þessa kjördæmis, en það koma dagar á eftir þessum degi, og þó að reynt verði að setja einhvern þröskuld í veginn fyrir hennar áhugamál, þá skal það ekki standa lengi. Þetta er svo mikil rjettlætiskrafa, að hún hlýtur að sigra, þótt hún sigri kannske ekki nú. Jeg skal veita því eftirtekt, hvernig atkvæðagreiðslan fellur um þessa tillögu, og þá er gaman að sjá, hve mörg „já“ frá því í fyrra verða að „nei“um.

Jeg segi, að jeg vilji ekki trúa því, að það geti komist að pólitík í þessu máli. En ef alt of mörg „já“ verða að „nei“um, þá fer einnig mína saklausu sál að gruna, að hjer sje eitthvað merkilegt á ferðum. En jeg segi það, að ef það á að verða pólitískur sigur að eyðileggja möguleika þessa kjördæmis, þá ætla jeg að óska þeim mönnum til hamingju, sem eiga þann sigur; það verður „Pyrrusar“-sigur, og það sýnir líka, hvað einlægnin við landbúnaðarhjeruðin er mikil.

Jeg þykist nú hafa gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, og ef það reynist svo, að alt of mörg „já“ frá í fyrra snúast upp í „nei“ við þessa atkvgr., þá skal jeg fara að veita betur eftirtekt þeim, sem þar standa að verki.

Það er ein brtt. hjer, sem mig langar til að minnast á. Það er fyrsta brtt., um að skólagjöldin skuli falla niður. Jeg lít svo á, að það sje mjög rjettlát tillaga, og ef ekki er hægt að ganga svo langt að fella þau alveg niður, þá væri rjett að koma með brtt. þess efnis, að aðeins þeir efnuðustu skuli greiða skólagjöld.

Það er rjett hjá hv. flm. (HjV), að það er mikil harðýðgi í því að haga svo til, að fátæk heimili skuli ekki geta notið sinnar góðu aðstöðu hjer til þess að láta börn sín fara í þennan skóla, og jeg álít, að það sje mjög mikið miskunnarleysi, sem er fólgið í því, að fátækir menn geti ekki fengið að njóta mentastofnana landsins. Satt að segja finst mjer það vera sláandi dæmi upp á þröngsýni, að leggja hömlur á það, þegar búið er að koma upp dýrum skólum, að fátækir menn geti komið börnum sínum í skólana.

Jeg vona, ef þessi tillaga nær ekki fram að ganga, að þá verði komið með brtt. í þá átt, að aðeins þeir efnaðri skuli greiða skólagjald.