15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

30. mál, tilbúinn áburður

Halldór Stefánsson:

Jeg þarf fátt eitt að segja út af þeim umræðum, sem orðið hafa um brtt. mínar, því að jeg hugsa mjer ekki að ganga inn á almennar umræður um þær, eins og gert hefir verið um hinar. Það hefir heldur ekki komið fram svo stórvægilegur ágreiningur um þær, að jeg þurfi að mæla með þeim frekar en jeg hefi gert. Helsti ágreiningurinn hefir orðið við hæstv. atvmrh. Hann virtist helst vilja taka síðari hluta till. minnar til viðbótar við frv. En jeg tel ekki rjett, og heldur ekki þörf, að ríkið greiði hið almenna flutningsgjald undir áburðinn til landsins. Ef ríkið þyrfti ekkert að horfa í fje, þá væri óneitanlega meiri stuðningur í því, að þetta væri gert. En þar sem meginhluti áburðarins er notaður á þeim stöðum, sem margborgar sig að nota hann, tel jeg óþarft að láta ríkissjóð borga hið almenna flutningsgjald til landsins. Hinsvegar vil jeg vinna að því að gera öllum sem jafnasta aðstöðu að ná í áburðinn, hvar sem þeir eru á landinu.

Hv. landbn. þóttist ekki með öllu andvíg till. minni, en virtist sjá mörg ljón á veginum að því er snerti framkvæmd hennar. En eins og jeg hefi bent á áður, held jeg, að það sje misskilningur. Jeg tel óhugsandi, að ekki megi koma því svo fyrir, að hugmynd mín sje vel framkvæmanleg. Að minsta kosti virtist hæstv. atvmrh. ekki sjá þessi ljón, þar sem hann áleit, að síðari hluti till. gæti komið til mála sem viðbót við frv. Það mætti hugsa sjer framkvæmdina á þá leið, að settur yrði taxti fyrir landflutningana, sem miðaður væri við vegalengd, sennilega leikandi á 5 km. bili, en ekki fast ákveðinn. Þeir, sem svo hefðu afhendingu áburðarins með höndum, byggju til taxta fyrir sitt viðskiftasvæði, eftir því sem vegalengdirnar eru miklar. Kæmi svo styrkurinn upp í verð áburðarins. Annars efa jeg ekki, að finna megi hagnýtar leiðir, þegar farið er fyrir alvöru að athuga þessa hlið málsins.

Hv. frsm. landbn. talaði á þann hátt, að ef jeg vildi taka till. mína aftur til 3. umr., þá myndi nefndin ekkert vera á móti því að taka hana á ný til athugunar ásamt sínum, og þar sem jeg er fús til samvinnu og frekari athugunar á þessu atriði, þá lýsi jeg því hjer með yfir, að jeg tek hana aftur til 3. umr. En jeg tek það jafnframt fram, að ef ekki næst samkomulag, þá áskil jeg mjer rjett til þess að bera hana fram til atkvæða.

Þá vildi jeg leyfa mjer að bera fram fyrirspurn til hv. nefndar eða hæstv. stjórnar um tvö atriði í frv., sem mjer finst ekki fyllilega ljós. Það er þá fyrst um framfærslu fyrir sölukostnaði. Jeg get ekki sjeð eftir frv., hvort þar er átt við framfærslu vegna heildsölu eða smásölu. Ef aðeins er átt við annaðhvort, þá er ákvæðið ófullnægjandi, því að jeg tel, að setja þurfi ákvæði um hvorttveggja.

Þá er hitt atriðið. Í frv. er svo ákveðið, að áburðurinn skuli greiðast við móttöku, en mjer er það ekki fyllilega ljóst, eftir orðalagi frv., hvort þetta er meint gagnvart ríkissjóði eða gagnvart þeim, sem smásöluna hafa á hendi. Um þessi tvö atriði vildi jeg fá svör, svo það verði ótvírætt, hvað meint er með þessu, svo að það valdi ekki ágreiningi síðar.