15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af fyrirspurnum þeim, sem hv. 1. þm. N.-M. bar fram, vil jeg geta þess, að frá minni hálfu sem flutningsmanns er alstaðar átt við heildsöluálagningu í frv., þar sem um álagningu er talað. Og jeg skal jafnframt geta þess, að 5% álagning á áburðinn fyrir einkasöluna er hámarksupphæð, sem jeg vel get fallist á, að megi lækka. set jeg mig því ekkert á móti því, þó að hún verði færð niður í 2%. Það er rjett, að í frv. er hvergi ákvæði um það, hvernig smásalar eigi að haga sjer; slíkt áleitst ekki þörf, þar sem einungis er gert ráð fyrir, að það sjeu bændafjelög, sem annist söluna. Er því bændanna sjálfra að hafa eftirlitið. Þá spurði háttv. þm., hvað átt væri við með því ákvæði, að áburðinn skyldi greiða við móttöku, hvort átt væri við útsölumenn gagnvart ríkissjóði eða notendur gagnvart smásölu. Um þetta atriði er hið sama að segja og hitt, að þar er átt við stórsöluna, einkasöluna. Og jeg vil halda fast við það, að ekki verði farið að stofna til skuldaverslunar með þessu. Það eru yfirleitt engin ákvæði í frv. um smásöluna.