15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

30. mál, tilbúinn áburður

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg þarf aðeins að minnast lítillega á 3 atriði, áður en umræðum lýkur, og skal vera stuttorður.

Hv. þm. Borgf. hefir misskilið mig, þegar jeg talaði um fyrirkomulag á sölu áburðarins. Hann ljet í veðri vaka, að áburðarskortur mundi verða eða geta orðið, á þeim tíma, þegar áburðarins væri mest þörf. En jeg vil benda honum á, að hættan um þetta eykst ekkert, þó að frv. gangi í gildi.

Vitanlega ætlast jeg til, að þær sömu verslanir, sem nú hafa sölu áburðarins, geti pantað hann hjá einkasölunni og verslað með hann eins og áður, og er ekki ástæða til að ætla, að fyrirhyggja þeirra fyrir að fullnægja áburðarþörfinni minki úr því, sem nú er.

Ýmsir hv. þm. hafa haldið því fram, að þeir, sem lengst búa frá þeim höfnum, sem skip ríkisins og Eimskipafjelagsins koma á, fái minstan styrk til áburðarkaupanna. Þessu mótmæli jeg. Samkv. frv. eiga allir að fá jafnan styrk — og hann er flutningskostnaðurinn til landsins. Þann kostnað greiðir ríkið fyrir alla, undantekningarlaust, sem áburðinn nota. En hitt er annað mál — og það hefir auðvitað vilt suma hv. þm. —, að ýmsum finst, að þeir, sem fjarri höfnum búa, eigi að fá meiri styrk, af því að flutningurinn frá höfn verði þeim dýr. Og það er alveg rjett, að þeir þyrftu meiri styrk. En hitt er með öllu rangt að segja, að þeir fái minni styrk en aðrir.

Loks þarf jeg að gera ofurlitla athugasemd við orð hv. þm. Dal. Hann hjelt því fram, að við hefðum ekki ástæðu til að stofna einkasölu fremur en Danir og Norðmenn. En hjer er ólíku saman að jafna. Verslunarfjelög dönsku bændanna eru gömul og öflug og hafa skapað sjer vald yfir verðlaginu. En hjer er við volduga hringa að etja og áburðarverslunin á byrjunarstigi. Og áburðarnotkun landsins er svo lítil, að engin von er til þess, að nokkurt tillit sje tekið til okkar, á meðan við erum sundraðir. Til þess að fá nokkru áorkað gegn þeim stóru erlendu fyrirtækjum, sem hafa vald á áburðinum, dugir ekkert annað en alþjóðarsamtök. Þetta er ómótmælanlegt, og jeg veit, að hv. þm. Dal. skilur það, vilji hann á annað borð um það hugsa. Alþingi verður að fyrirskipa samtökin með lögum. Ríkið á að ábyrgjast greiðslu og semja við hin erlendu firmu. Því aðeins er von um að komast að sæmilegum kjörum.

Ýmislegt fleira hefði jeg kosið að ræða í þessu máli, en læt það farast fyrir, til þess að lengja ekki umr. meir en orðið er.