15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

30. mál, tilbúinn áburður

Hákon Kristófersson:

Jeg þarf aðeins að minnast lítilsháttar á ræðu hv. 1. þm. Rang. Hann veittist að mjer í miklum móði og með þungum orðum. En það stendur svo á, að jeg þarf ekki að fara langt út á þá braut að svara honum, því að það, sem hann fór með, voru tómar fjarstæður. Hann átti líka ákaflega bágt með að dæma um, hvað hefði verið af viti mælt eða vitleysa í fyrri ræðu minni, því að hann heyrði hjer um bil ekki neitt af henni. Það var líka auðheyrt á því, sem hann sagði. Jeg mintist ekki einu orði á kjarkleysi, og ekki álasaði jeg heldur nefndinni. Annaðhvort hefir hv. þm. dreymt þetta eða einhver vondur maður hefir skrökvað því að honum.

Það getur vel verið, að jeg hafi ekki komið eins vel orðum að hugsunum mínum og hv. 1. þm. Rang. En það er auðvitað af þeirri einföldu ástæðu, að hæfileikar hans til að tala skýrt og skilmerkilega eru meiri en mínir. Ætti hann að þakka forsjóninni sínar góðu gáfur, en ekki gera gys að því, þó að mjer sje minna lánað. Að endingu vil jeg segja þessum hv. þm. það, að það er af sjerstökum ástæðum, að jeg ekki fer þeim orðum um framkomu hans í þessu máli, er hann fann ástæðu til að ráðast á mig.

Hv. þm. V.-Sk. var einstaklega hógvær í sinni síðustu ræðu, og það var ekki nema örlítið, sem hann leitaðist við að fara rangt með af orðum mínum. En hann var ennþá að tala um, að jeg hefði ekki trú á ræktun landsins. En þetta er misskilningur, og óskiljanlega, margendurtekinn misskilningur hjá svo gáfuðum manni, sem hv. þm. er. Jeg hefi enga ótrú á ræktun landsins. En jeg er á móti einkasölu. Jeg vil aftur benda hv. þm. á nefndarálit það, sem jeg skrifaði undir 1926 og gat um áðan. Og jeg fel nú hv. þdm. að eiga um það við sjálfa sig, hvort það sje líklegt, að sá maður, sem skrifaði undir það nál., standi móti ræktun landsins.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að jeg hefði samþykt það í ræðu minni, að hann hefði haft rjett fyrir sjer. Ja, mikið dæmalaust hefi jeg komist klaufalega að orði, ef hægt hefir verið að skilja þetta á mjer.

Hv. þm. V.-Sk. var að geta þess til, að illa hefði legið á mjer, þegar jeg talaði síðast. Þetta er fullkominn misskilningur, eins og fleira hjá hv. þm. Meðan jeg flutti ræðu mína var jeg og er enn í besta skapi.