29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

30. mál, tilbúinn áburður

Halldór Stefánsson:

Jeg gerði grein fyrir ástæðunum fyrir brtt. þeim, sem jeg bar fram við 2. umr., og ætla ekki að endurtaka þær nú, en víkja heldur örfáum orðum að þeirri brtt., sem jeg ber fram nú og sem er breyting á fyrri brtt. mínum.

Þegar jeg gerði brtt. mína, hugðist jeg að ná samkomulagi við hv. landbn., en þar sem hún hefir nú lýst því yfir, að hún taki sínar brtt. til baka, geri jeg ráð fyrir, að slíkt samkomulag sje útilokað. Annars var meiningin fyrir mjer engin önnur en sú, að gera þessa staði, sem tillagan ræðir um, í víðáttumestu landbúnaðarhjeruðunum jafna við hafnarstaðina, sem ókeypis flutning eiga að fá. Enda hygg jeg, að engum sje gerður órjettur með þessu og ekki auðvelt að benda á aðra staði til samanburðar.

Viðvíkjandi Egilsstöðum vil jeg taka það fram, að það er fyrsti staðurinn við brautina innan hjeraðs, sem komið getur til greina í þessu efni. Vegurinn þangað liggur um óbygðir frá því að hafnarstaðnum sleppir.

Að lokum vildi jeg mega mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri brtt. mína upp í tvennu lagi. Fyrri liðinn fyrst og þá síðari liðinn með brtt.