29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Lárus Helgason):

Jeg hefi ekki mörgu að svara þeim hv. þm., sem nú settist niður. Hann sagði, að eftir frv. væri áburðarflutningskostnaðurinn til landsins aðeins eyðsla á ríkisfje. En þessu vil jeg mótmæla. Hitt er auðvitað, að það verður erfitt að fara að reikna nákvæmlega út, hve mikinn flutningskostnað hver maður eigi að fá. Jeg veit heldur ekki betur en að þeir, sem búa lengra í burtu frá kaupstað, verði oft að mæta erfiðleikum fram yfir þá, sem búa nærri hafnareða verslunarstöðum, við flutning á vörum, og kemur það vitanlega ekki fremur til greina við þessa vörutegund en flestar aðrar. Má þar til dæmis benda á það, að þeir, sem þurfa að reisa sjer hús í sveit, verða sjálfir að annast flutning á byggingarefni, og jeg hefi ekki orðið var við, að þeir fengju flutningskostnaðinn greiddan af opinberu fje. En mjer virðist það rökrjett, að þennan kostnað ætti þá einnig að greiða, ef fara ætti að greiða heimflutningskostnað á áburði.

Hv. þm. talaði um þann mikla kostnað, sem leiddi af einkasölunni, og talaði um alt að 5% álagningu. Landbn. hefir álitið, að 2% mundu nægja, og þótt talað hafi verið um 5% í byrjun, þá hefir aldrei verið búist við, að svo mikill kostnaður yrði við framkvæmd einkasölunnar. Jeg sagði, að það þyrfti ekki að kenna mönnum að nota áburðinn með þessu, því að jeg hefi trú á því, að eftir því, sem það kemur betur og betur í ljós, hve vel hann er fallinn til túnaræktunar, þá muni notkun hans dreifast út um alt land með tímanum, jafnvel þótt bændur þurfi kannske að sækja áburðinn eina til tvær dagleiðir. Það mun seint verða hægt að koma áburðarsölunni þannig fyrir, að eitthvert býli eigi ekki erfitt með að ná í áburðinn. Og allir brotareikningar hv. flm. brtt. á þskj. 574 benda best til þess, hve erfitt það yrði að úthluta styrknum rjettilega, því að það er ekki hægt að ganga framhjá því, að það yrði erfitt mál. Virðist því miklu ráðlegra að reyna að ná aðalkjarna málsins nú fyrst um sinn og láta síðan tímann leiða í ljós, hvaða gagn verður að áburðinum. Hv. þm. gat þess, sem rjett er, að í sumum sveitum er töðubagginn miklu verðmeiri en í öðrum, t. d. á góðum beitarjörðum, og sannar það, að þar borgar sig að leggja meira á sig til þess að ná í áburðinn. Það er langt frá því, að jeg haldi því fram, að það sje ósanngjarnt að ljetta undir með þeim, sem fjarri búa, en jeg álít það ekki viðkunnanlegt að staðfesta það, að bændur geti ekki kostað flutning á milli bæja á þessari vöru sem öðrum, og eins og nú horfir við er slíkt óframkvæmanlegt. Jeg tel það því neyðarúrræði að fara inn á þá braut að fara að kosta flutning út um landið af opinberu fje. Og jeg vænti, að það eigi eftir að sýna sig, að þetta frumvarp nái vel tilgangi sínum, ef það verður samþykt eins og landbúnaðarnefnd hefir gengið frá því.