10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. fors.- og atvmrh. hefir nú þegar skýrt frá þeim breytingum, er hafa orðið á þessu frv. síðan það lá síðast hjer fyrir þessari deild. Það er að vísu rjett, að það hefir ekki tekið svo stórum stakkaskiftum, en þó hafa orðið á því nokkrar breytingar.

Það var mjög um það deilt hjer í þessari háttv. deild, hvort Samvinnufjelög, hreppsfjelög og búnaðarfjelög skyldu aðeins hafa leyfi til þess að versla með áburðinn; og þau svo aftur selja meðlimum sínum, eða hvort öðrum skyldi líka leyft að versla með hann. Nú hefir Nd. gert þá breytingu á þessu, að kaupmenn eru líka taldir með þeim, er versla mega með áburðinn. Af þessum ástæðum þykir mjer ekki nema rjettmætt, að kaupfjelög verkamanna verði talin með, og því hefir þessi brtt. komið Frsm. Nú hefir hæstv. fors.- og atvmrh. lýst því yfir, að stj. muni framkvæma þetta svo, að áburðurinn verði seldur öllum þeim, er geta greitt hann, og þá líka kaupfjelögum verkamanna. Þó þetta sje nú ekki skýrt tekið fram í lögum, fæ jeg ekki sjeð, að stjórnin brjóti lögin, þó hún framkvæmi þau á þennan hátt. Tek jeg því brtt. hjer með aftur, svo frv. þurfi ekki að vera að hrekjast á milli deilda. Þá vil jeg og árjetta það, að þessi 2%, sem heimilt er að leggja á, skulu lögð á af ríkinu, en ekki þeim, er ríkið selur. Út af þeim till., er komu fram í hv. Nd. viðvíkjandi flutningi áburðarins á landi, skal jeg geta þess, að við tókum þetta til athugunar hjer, og komst meiri hl. landbn. að þeirri niðurstöðu, að svo mikil vandkvæði væru á því að setja fastar reglur um framkvæmd þess, að hann gafst upp við það. Það er svo margt, sem kemur til álita í því efni, að ekki er gott að segja að óreyndu, hvað taka skal. Og þó það væri t. d. ákveðið, hvað mikið skyldi greitt fyrir hvern km., þá eru vegir svo mjög mismunandi og ekki saman jafnandi, hvort flytja skal á sljettum bílvegum eða fara þarf langar leiðir eftir einhverjum götutroðningum. Af þessum ástæðum er ómögulegt að fara inn á þá braut að ákveða með lögum, hversu mikið skuli greitt af kostnaðinum við landflutningana.