02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er rjett, að þessi vegarspotti var eitt af því marga, sem stjórnin varð að fella niður, og jeg skal fúslega játa, að undir eins og stjórnin fær meira fje til umráða, þá stendur þessi vegarspotti einna næstur. Hjer er um mikinn farartálma að ræða í miðju hjeraði. Jeg tel líka fulla nauðsyn á, að Strandasíki verði brúað, og var í haust talað um að svo yrði gert, en þá var þegar búið að eyða of miklu í brúagerðir.

Jeg vil svara hv. þm. Dal. því út af Vesturlandsveginum, að hann varð að bíða eins og margt annað, sem stjórnin hefði fegin viljað hrinda til framkvæmda, og skal jeg geta þess í sambandi við það, sem hann sagði um afstöðu neia og jáa, að síst skal standa á stjórninni að veita fje til bættra samgangna, þegar sjest, að hún hefir fje til þess.

Út af þeim ummælum háttv. 2. þm. Reykv. HjV), að engin samþykt væri fyrir því að greiða konungsmötuna í dönskum krónum, skal jeg geta þess, að þetta hefir verið samþ. í landsreikningnum ár eftir ár, og býst jeg við, að allar stjórnir hefðu skoðað það sem samþykt.