23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

22. mál, menningarsjóður

Erlingur Friðjónsson:

Mjer finst dálítið einkennileg aðstaða hv. 3. landsk. (JÞ), að halda nú ræðu um, að óviðfeldið sje að nota fje, sem fæst fyrir áfengisbrot, til þess að efla menningu í landinu. Þessi skoðun er ný fyrir mjer. Hv. þm. hefir ekki haldið eins snjalla ræðu um þetta efni í nefndinni og hann hefir nú gert. (JÞ: Jeg hefi sagt alt þetta sama þar, og síst minna). En ekki af nándarnærri jafnmikilli andagift og nú.

Annars finst mjer það engu máli skifta um þetta fje fremur en annað, sem í ríkissjóð rennur, til hvers það sje notað, hvort það gengur til að launa með því ráðherrunum eða embættismönnum landsins eða til einhvers annars. Þess vegna get jeg eins verið með því, að þetta sektarfje gangi til menningar eins og hvað annað.

Um þetta hefi jeg svo ekki fleira að segja. En viðvíkjandi því, sem háttv. 3. landsk. sagði um aðstöðu sína að öðru leyti til þess að bera fram brtt. og kvartaði undan því, að ekki væri mögulegt að fá þær brtt. samþ., sem gengju á móti stjórninni, þá held jeg, að þar sje um líkt að ræða og átt hefir sjer stað á undanförnum þingum, að minnihlutatillögur eigi jafnan erfitt uppdráttar, og þá einkum þær, sem ganga mjög á stjórnina. Það er fyllilega eðlilegt, að stjórn, sem að sjálfsögðu hefir meiri hluta þingsins á bak við sig, hafi þann styrk í flestum málum, að till. frá andstæðingaflokknum eigi erfitt uppdráttar.