13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Nefndin er sammála um það aðalatriði þessa frv., að það beri að friða Þingvelli. En það skilur nefndina fyrst og fremst, að meiri hl. vill fylgja frv. um stærð þessa svæðis, sem á að friða, en minni hl. vill fylgja þeim tillögum, sem komu fram í frv., sem lá fyrir þinginu 1926. En það svæði er aðeins lítil ræma milli Almannagjár og Hrafnagjár; það er ekki mjög breitt og miklu minna um sig en svo, að nægja mundi fólki, sem kemur til Þingvalla á ári hverju í skemtanaskyni eða til þess að sjá þennan merkilega stað.

Þá er annað. Eftir því sem árin líða mun því fólki fjölga, sem þangað leitar, svo að það er skylda þjóðarinnar að halda þessum stað í heiðri og sjá um, að skógurinn sje ekki upprættur og vernda landið fyrir því að blása upp. En þetta fæst ekki nema með því móti, að lagður sje niður sauðfjárbúskapur á þeim jörðum, sem eru í sjálfri kvosinni í Þingvallasveit, og landið varið fyrir ágangi sauðfjár. Þó að lagður sje niður búskapur á þessum jörðum, má náttúrlega búast við ágangi af sauðfje úr öðrum nærliggjandi hjeruðum, svo sem Grímsnesi.

Nefndin vill fallast á að taka þetta svæði, sem um ræðir í 2. gr. frv. Hún álítur, að með því sje Þingvöllum bestur sómi sýndur og að það sje fullkomlega rjettlátt af þinginu að taka þann stað undir sína vernd, — gera Þingvelli að nokkurskonar þjóðgarði, þar sem landsmenn eigi frjálst að hreyfa sig um stærra svæði en gert var ráð fyrir í frv. 1926.

Þó að nefndin þannig í aðalatriðum fylgi frv. því, sem liggur fyrir frá stjórninni, þá telur meiri hl. rjett að gera þá breytingu við 2. gr., að Þingvallanefndin geti gert ráðstafanir til þess að eyða dýrum og fuglum, sem geta gert usla á því friðlýsta svæði. Það er t. d. mikið af veiðibjöllu í Þingvallasveit, og er hún oft vargur í vjeum í fuglalífinu á vorin. Svo gætu verið refir, og sagt er, að gren finnist innan þessa svæðis, en jeg hefi ekki heyrt getið nema um eitt. Ætti Þingvallanefndin að hafa heimild til að gera ráðstafanir til að eyða þeim, ef til kæmi. Fyrir því gerir nefndin þessa breytingu.

Þá finst nefndinni óþarflega mikið að ákveða, að bæði Þingvallanefndin og húsameistari ríkisins skuli þurfa að gefa leyfi til þess, að jarðrask og húsabyggingar megi gera á þeim jörðum, sem ræðir um í síðustu málsgrein 2. gr. frv.; finst henni nóg, að Þingvallanefnd úrskurði þetta.

Þá þykir meiri hl. rjett að taka upp í frv. svipuð ákvæði og í frv. 1926, þar sem heimilt væri að taka eignarnámi og til afnota þau svæði og afnotarjett þeirra svæða, er frv. ræðir um. Auk þess finst meiri hl. rjett, að Þingvallanefnd hafi heimild til þess að kaupa jörðina Gjábakka, sem liggur austan að hinu friðlýsta svæði. Það er mjög sennilegt, ef farin verður sú leið að hafa verði til þess að vernda Þingvallaskóg fyrir ágangi sauðfjár, þá ættu þeir að vera þarna, því að austan mundi helst ágangsins von. Og fáist ekki viðunandi verð, ætti Þingvallanefndin að geta tekið jörðina eignarnámi samkvæmt lögum. Nú hefi jeg fengið upplýst, að Gjábakki muni vera einstaklings eign, en þó muni Þingvallahreppur sem stendur geta tekið hana í sínar hendur fyrir eitthvert ákveðið verð. Ef svo stæði, finst mjer ekki ólíklegt, að Þingvallanefndin mundi geta náð samþykki við hreppinn um það, að hún fengi jörðina fyrir hans milligöngu.

Þá hefir meiri hl. gert þá breytingu á 5. gr., að fella niður það ákvæði, að brot á áfengislöggjöfinni megi varða alt að þrefalt hærri sektum þar en annarsstaðar. Álítur meiri hl., að slíkt ákvæði eigi ekki heima í þessu frv., enda var gert ráð fyrir, að þetta ætti að setja í reglugerð, en þar eiga slík ákvæði ekki heima. Annars á þetta auðvitað helst að vera í áfengislöggjöfinni sjálfri, ef menn vilja hafa slíkt ákvæði á annað borð.

Þá lokabreytingu gerir svo meiri hl. nefndarinnar, að í staðinn fyrir, að hugsað var að greiða allan kostnað við friðun Þingvalla sem þingkostnað, þá skuli greiða hann beint úr ríkissjóði. Mönnum finst sjálfsagt þingkostnaður svo mikill, að ekki sje rjett að vera að bæta þar við kostnaði af ýmsum öðrum störfum og framkvæmdum. Auk þess kann sumum að finnast það nokkuð aðhald, að Þingvallanefndin skuli þurfa að biðja ríkisstjórnina um fje úr ríkissjóði til framkvæmda.

Jeg gleymdi raunar að geta einnar brtt., við B-lið 2. gr., að Þingvallanefndin ráði veiði í Þingvallavatni. Það er að vísu ekki ætlast til, að þarna verði algerlega bönnuð veiði, en úr því að á að fara að friðlýsa skóginn, þá er ekki minni ástæða að friða vatnið, eða einstaka hluta þess, sjerstaklega vegna þess, að það er upplýst, að norðan þessarar línu, sem tiltekin er í frv., sje hrygningarsvæði í vatninu. Bændur, sem jeg hefi talað við að austan, telja einmitt nauðsynlegt, að friðað sje að minsta kosti nokkuð af því svæði, sem er norðan þessarar línu, svo að silungsveiði þverri ekki í vatninu. Það hefir verið veitt svo takmarkalaust á seinni árum, svo að hætta er talin á því, að veiðin þverri. Þá gæti Þingvallanefndin gengist fyrir því eða fengið bændur til þess, t. d. á Kárastöðum eða Mjóanesi, að hafa silungaklak. Auðvitað getur nefndin, ef þetta verður samþ., leyft þá veiði í vatninu, sem henni sýndist og þætti hæfileg.

Jeg hefi þá minst á brtt. og minst á þann ágreining, sem er milli nefndarhlutanna. Hv. 3. landsk. mun gera grein fyrir sinni afstöðu, og get jeg því beðið með frekari andsvör, þar til hann hefir flutt sína framsöguræðu.