13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að ákvæði frv. um að banna jarðrask og byggingar á jörðum innan hins fyrirhugaða friðlýsta svæðis þarf ekki að baka ríkissjóði nein útgjöld að ráði. Svo stendur nefnilega á, að þær eru allar opinber eign, nema ein, Gjábakki. Þess vegna mundi ríkið ekki þurfa að greiða skaðabætur, þó að hömlur væru lagðar á framkvæmdir á þessum jörðum.

Hv. frsm. minni hl. leitaðist við að sýna fram á, að ósamræmi væri á milli skoðana hæstv. dómsmrh. og mín um tilgang frv. Það er rjett, að jeg vil gera fólki svo auðvelt sem unt er að koma og sjá hinn forna, merkilega og helga stað. En mjer skilst, að sami sje tilgangur stjfrv., þó að ræða hæstv. dómsmrh. snerist aðallega um helgi staðarins. Jeg tel heldur ekki rjett að leyfa hverskonar byggingar. Um það hefir heldur enginn ágreiningur verið, að Valhöll ætti að flytja af þeim stað, sem hún nú er á. Í Þingvallanefndinni hefir mikið verið talað um þetta. Og það var líka skoðun þeirrar nefndar, sem fyrv. stj. skipaði til að athuga málið.

Hv. frsm. minni hl. áleit ekki þörf á að taka eins stórt svæði og frv. gerir ráð fyrir til friðunar, af því að við ættum marga aðra fagra staði en Þingvallahjeraðið. Það er að vísu rjett, að á Íslandi eru margir fagrir staðir. En engan þeirra tignar þjóðin eins mikið og Þingvöll, og ferðamenn kæra sig ekki eins mikið um að skoða þá. Og jafnvel þó að það væri viðurkent, að þeim stöðum bæri að sýna sóma, minkar ekki þörfin á að friða Þingvöll fyrir því. Frv. er borið fram með framtíðina fyrir augum, svo að komandi kynslóðum gefist kostur á að skoða hinar fornu menjar sögualdarinnar á Þingvöllum og að hin stórfenglega náttúrufegurð Þingvalla verði ekki skemd með framkvæmdum, svo sem byggingum og jarðraski, sem hæglega getur orðið, ef ekki er fyrir það girt í tíma.