31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

23. mál, friðun Þingvalla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil taka það fram út af ræðu hv. frsm. meiri hl., að jeg hefi borið fram í dag brtt. við frv. þetta, sem verður útbýtt eftir klukkustund eða svo. Býst jeg við, að hún geri frv. aðgengilegra fyrir þá, sem á móti því mæla. Það, sem mest hefir verið fundið að því, er, að hið friðaða land sje of stórt; er gert ráð fyrir, að Hofmannaflötur verði innan girðingar. Í brtt. hefi jeg fallið frá því til samkomulags. Nær þá friðunin yfir hjer um bil sama svæði og merkt er á korti, sem hangir uppi í Hlaðbúð og stafar frá fyrri Þingvallanefndum. Jeg vildi segja frá þessari brtt. strax og skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki mætti fresta atkvgr., þar til síðar í dag.