31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er erfitt að ræða þetta mál nú, þegar hæstv. dómsmrh. hefir borið fram brtt., sem ekki liggur þó fyrir. En eftir því sem mjer skildist á ræðu hans, þá er hjer um lítið svæði að ræða, sem verði undanskilið friðuninni, og hefir brtt. því litla þýðingu. Þó er sjálfsagt bót að því, að friðunin nær ekki yfir Hofmannaflöt. Annars fer jeg ekki út í þetta frekar fyr en brtt. verður útbýtt.

Þá skal jeg snúa mjer að frv. sjálfu, eins og það liggur fyrir, og segja bæði kost og löst á því.

Jeg tel það sjálfsagt mál að friða hinn forna þingstað og gæta þess, að honum verði ekki spilt, heldur verði það bætt, sem bætt verður. En þessi friðun nær yfir alt of stórt svæði. Jeg kann illa við að fara að leggja niður að óþörfu búskap á 4 býlum algerlega og 2 að nokkru leyti. Ef bændum þarna er bannað að hafa fje á jörðum sínum, þá er ekki hægt að halda uppi búskap þar, því engjar eru ekki svo neinu nemi og tún lítil. Ef beit verður bannað að nota, þá er ekki hægt að stunda þar sauðfjárrækt. En nautgriparækt verður ekki stunduð, því að tún eru smá og landið illa fallið til túnræktar.

Eftir því sem mjer skilst, þá á að girða um 30 km.2 svæði. En það verður að setja miklu lengri girðingu en sem þessu svarar, því eftir þessu svæði liggur vegur, bæði austur í Laugardal og norður á Kaldadal og Uxahryggi. Það verður ekki hægt að girða yfir vegina, og verður því að girða meðfram þeim. Það lengir girðinguna mikið. Mun það lágt ætlað, að girðingin verði um 40–50 km. í alt. Nú mun vönduð girðing ekki kosta minna en 1 kr. á metra. Mundi hún því kosta um 40–50 þús. kr. Auk þess mundi viðhald hennar verða afardýrt. Jeg hefi átt tal við mann úr Þingvallasveit, nákunnugan þar um slóðir. Hann segir snjóþyngsli þar svo mikil, að ekki sjeu nokkrar líkur fyrir því, að girðingin falli ekki niður á hverjum vetri á all stórum svæðum sökum snjóa. Yrði því að verja miklu fje á hverju vori henni til viðhalds. Jeg fæ ekki skilið, að ekki sje hægt að friða góða og þróttmikla skógarbletti án þess að fara að friða alla sveitina. Það er rjettmæt stefna að hlynna að skóginum, en til þess þarf ekki að eyðileggja búskap margra bænda.

Þá eru skaðabætur þær, sem greiða þarf. Fyrst og fremst þarf að greiða Þingvallapresti. Stjórnin gerir ráð fyrir, að til þess þurfi 15 þús. kr. Ekki er hægt að gera ráð fyrir, að skaðabætur til hinna ábúendanna, 5 eða 6 manna, verði minni að samanlögðu heldur en þær, sem prestur fær einn. Svo kemur brtt. hv. 2. þm. Árn., um að hreppurinn fái skaðabætur. Það er í alla staði eðlilegt, því hreppurinn rýrnar mjög við þessar ráðstafanir. Þykir mjer efasamt, hvort hann fær staðið sem sjerstakt hreppsfjelag, eftir að þær hafa komist í framkvæmd. Jeg held því, að kostnaðurinn verði ekkert smáræði, verði naumast undir 100 þús. kr. — Hæstv. ráðh. hristir höfuðið. Hann hrekur þetta þá á eftir, og skal jeg fús á að leiðrjetta, ef honum tekst að sýna fram á, að jeg hafi farið með rangt mál.

Þá er gefið í skyn, að ætlast sje til að kaupa Gjábakka, því Þingvallanefnd er gefin heimild til að kaupa þá jörð, ef henni sýnist. Ekki minkar það kostnaðinn.

Eitt atriði í frv. finst mjer undarlegt. Í 1. gr. er sagt, að „frá og með árinu 1930“ skuli Þingvellir vera friðaðir. Samkv. brtt. hv. 2. þm. Árn. skal það orðað svo: „Frá ársbyrjun 1930“. En hvað verður til 1930? Eiga Þingvellir ekki að vera friðlýstir þangað til? Í frv. stendur ekkert um það, hvenær lögin öðlist gildi; um það fer því eftir almennum reglum. Í 1. gr. stendur, að Þingvellir skuli ekki friðaðir fyr en 1930. Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að kosin sje Þingvallanefnd þegar á þessu þingi. Jeg sje ekki, að þessi nefnd geti starfað nokkurn skapaðan hlut fyrri en eftir 1. janúar 1930. Þessu máli liggur því ekkert á; það má bíða til næsta þings og vita á meðan, hvort ekki er hægt að komast að samningum við ábúendur. Þá verður og hægt að vita, hvaða kostnað hjer er um að ræða. Annars finst mjer það einkennilegt að friða Þingvel]i fyrst 1930. Hví á ekki að gera það strax, ef það er nauðsynlegt? Eins kann jeg illa við að láta þingnefnd hafa stjórn á jarðeignum. Það er utan við verksvið þingsins. Það fer með löggjöfina, en ekki framkvæmdarvaldið. Þetta heyrir undir stjórnina. Þetta verður ekki rjettlætt með því, að þessi staður sje helgistaður þjóðarinnar, því yfirleitt eru allar eignir ríkisins undir umsjón ríkisstjórnarinnar. Það er engin ástæða til þess að breyta út af þeirri reglu. Það eru engar líkur til, að þingnefnd fari stjórnin betur úr hendi en ríkisstjórninni. En aðalatriðið er, að þingið fari ekki inn á verksvið stj. Stjórnarskráin skiftir svo verkum, að þingið fari með löggjöfina, en stj. með framkvæmdarvaldið. Þótt stundum sje vikið frá þessu, þá á þó að gera sem allra minst að því. Og ekki man jeg til þess, að umsjón jarðeigna hafi nokkru sinni áður verið falin þingnefnd.

Jafnvel þó hv. 2. þm. Árn. hafi ekki ennþá mælt fyrir brtt. sínum, skal jeg þó taka það fram, að jeg tel þær til bóta og mun greiða þeim atkv. Þær eru til dálítilla bóta, þó ekki sjeu þær fullkomin bót. Sumpart eru þær það, sem kalla mætti stílsleiðrjettingar, og veitir ekki af því, því að frv. er illa samið af hálfu stj., en sumpart efnisbreytingar. Jeg skal benda á það, að þar sem hann vill breyta orðinu „takmörk“ í „mörk“, þá hefir honum yfirsjest. „Takmörk“ kemur fyrir oftar í frv., og það í sömu gr. og hann leiðrjettir það í: „Landið innan ofannefndra takmarka“ o. s. frv.

Hv. frsm. meiri hl. furðaði sig á því, að við, sem ekki fylgjum frv., hefðum ekki komið fram með brtt. við það. En eins og við tökum fram í nál., þá álitum við það ekki vera til neins. Það var reynt í Ed., en allar brtt. voru þar feldar, sem fóru í þá átt, sem við mundum hafa borið fram hjer. Það hefði því einungis verið til að tefja þingtímann. En við erum reiðubúnir til að samþykkja að friða minna svæði en hjer er gert ráð fyrir.

Hv. frsm. mintist á það, að til mála hefði komið að virkja Öxarárfoss. Mjer er ókunnugt um þetta, en það má vel vera. En jeg veit ekki, hvort fossinn þyrfti að skemmast nokkuð við það. Hæstv. dómsmrh. mintist á það í gær, að það væri sín ósk, að þingið væri flutt til Þingvalla. Þá þarf þingið ljós og hita. Jeg veit ekki, hvort þessi foss yrði þá virkjaður eða ekki, en ólíklegt þykir mjer, að þm. geri sig ánægða með að sitja þar við kertaljós eða olíulampa.

Hv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að verndun staðarins mundi verða bændum á þessu svæði tekjugrein; gætu þeir á þann hátt fengið fullar bætur. Það getur verið, að það sje meiningin að hafa marga menn launaða til að verja svæðið. En það yrði dýrt. Það verður og erfitt að fyrra bragði að semja svo við bændur, að þeir geri sig ánægða með bæturnar. Þótt jarðir sjeu þarna ekki sjerlega góðar, þá hafa þó ábúendur talsvert upp úr þeim, því umferð er þarna mikil. En ef svæðið verður friðað, þá þarf ekki að hugsa til að hafa þar fólk til sumardvalar, þegar þessar hömlur eru komnar á landið.

Jeg held, að það hljóti að vera hægt að velja úr góða skógarbletti, girða þá og rækta. Það er alhægt að velja svo úr, að ekki sje takmörkuð notkun bænda á jörðum sínum. Það er auðsætt, að farið er óþarflega langt í ýmsum ákvæðum frv. Það má t. d. ekki gera neitt jarðrask, ekki byggja hús nema með leyfi Þingvallanefndar, og það ekki einungis á friðlýsta svæðinu, heldur jafnvel í landi Kárastaða og Brúsastaða. Það má ekki stinga upp hnaus í landi Svartagils nema með samþykki nefndarinnar. Þetta er sannarlega að fara út í öfgar.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni. Það væri gott, ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa, hve stórt svæði það er, sem hann fellur frá, að friðað verði í brtt. sinni. Það má segja, að ekki sje seinna vænna að draga úr öfgunum en nú, þegar málið er komið til 5. umr. hjer í þingi.