31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

23. mál, friðun Þingvalla

Magnús Torfason:

Það ræður af líkindum, að jeg stend ekki hjer upp til þess að draga úr helgi Þingvalla eða friðun þeirra. Jeg segi þetta út af því, að sumir hafa viljað skilja brtt. mínar á þskj. 578 svo, að þær miði í þá átt. En það er síður en svo. Jeg vil gera alt til þess, að helgi staðarins aukist. Og þessar till. mínar eru fram komnar af góðum hug, sprottnar af ást á málinu. Jeg vil, að það, sem gert verður, fari sem best úr hendi, og þá iíka, að á það sje litið, að kostnaðurinn verði ekki meiri en þörf er á, til að ná hinum góða og göfuga tilgangi. Skal jeg ekki fara út í málalengingar, og snúa mjer því beint að brtt. 2 b., við 2. gr.

Eins og sjá má, miðar hún ekki að því, að vernd staðarins verði minni en verða mundi samkvæmt frv. Það, sem brtt. fer fram á, er það eitt, að Þingvallanefnd skipi fyrir um friðunina, en það verði ekki ákveðið í lögunum sjálfum. Vænti jeg, að hv. þdm. beri það traust til Þingvallanefndar, að þeir skilji ekki þessa brtt. svo, að verið sje að draga úr friðuninni með þessu ákvæði. En það, sem fyrir mjer vakir með þessari brtt., er, að vegna staðhátta muni ekki reynast fært að girða þetta svæði, svo sem ætlast er til í frv.

Það er rjett hjá hv. frsm. meiri hl. (BSt), að það er ekki sagt í frv., að girða eigi alt hið friðlýsta svæði. En af sumum hefir það verið skilið svo, og andúð gegn frv. er meðfram sprottin af ótta við, að kostnaður, sem af því leiðir, ef girða ætti alt svæðið, verði meiri en góðu hófi gegnir. Jeg skal játa, að þessi ótti er ekki með öllu ástæðulaus. Vegalengdir eru að vísu í sjálfu sjer ekki mjög miklar. En dalurinn frá vatninu upp að Skjaldbreið er einhver hin mesta snjóakista, svo að fönnin er oft margir faðmar að dýpt, þar sem dregur til lauta. Landslag er þar ósljett; hæðir og dældir, hálsar og slakkar skiftast á, og verður að leita lags um það, hvernig girt verður, þannig að girðingin fylgi sem mest hábörðum að hægt er, þar sem snjóljettast er. Það er ómögulegt að ætla sjer að girða eftir beinum línum. Og þó að Þingvallanefndin fái kunnugustu menn, sem kostur er á, til þess að leggja girðinguna, þá þykist jeg viss um, að hún muni ekki standa lengi þar, sem hún verður sett í fyrstu. Snjóalög breytast ár frá ári. Það vita allir, sem það hafa athugað. Girðingu kann því að verða vært eða ekki vært þar, sem í fyrstu þótti fært að leggja hana. — Jeg skal bæta því við, að landið inn hjá Hofmannaflöt verður einn hafsjór á hverju vori. Þegar leysa tekur, myndast þar flaumur og vatnavextir, svo að þessi blettur, sem er einhver sá fallegasti hjer á landi á sumri að sjá, verður umflotinn alla vega. Það verður því að leita lags um girðingar eftir gröndum og bölum. Með þessu er í raun og veru alt þar um sagt; en jeg skal geta þess, að jeg tel ekki rjett að hafa eina girðingu um alt landið. Jeg geri ráð fyrir, að t. d. Hofmannaflöt verði girt út af fyrir sig. En landið austan við Hofmannaflöt, Hraunkot og Skógarkot, er svo þjettur náttúruskógur, að það mun ekki þörf að verja það nema ef til vill fyrir vetrarbeit. Jeg get skotið því hjer fram, að mjer hefir aldrei dottið í hug, að girt verði meðfram vegum, sem um svæðið liggja. Jeg get ekki sjeð, að það sje nein skemd í því fólgin, þótt menn fari um landið með hesta sína. Auðvitað verða hlið á girðingunni, þar sem vegir liggja út og inn, og ef þau hlið eru góð og gild, ætti engin hætta að vera á því, að fje færi þar inn um að ráði. Bæði mundu menn telja sjer skylt að ganga vel um þau og einhverjir gæslumenn vera settir til þess að líta eftir girðingunni. Hitt er annað mál, að jeg tel þurfa sjerstaka girðingu um vissa staði, ekki vegna friðunar, heldur til þess að græða upp skóg. Til þess þarf meira en almenna girðingu. Þess verður vandlega að gæta, að engin skepna komist inn á skóggræðslusvæðið, ef nokkur von á að vera um árangur, sjerstaklega þegar haft er í huga, hve erfitt er að græða skóg á þessum slóðum.

Að öðru leyti get jeg þakkað, hve vel hefir verið tekið í brtt. mína 2 b. á þskj. 578.

Brtt. 2 c. segir, að það skuli gerðar ráðstafanir til eyðingar þeim dýrum og fuglum, sem gera usla á hinu friðlýsta svæði, í stað þess sem stendur í frv., að Þingvallanefnd geti gert slíkar ráðstafanir. Þessi breyting er til áherslu. Meiningin er að sjálfsögðu, að þessar ráðstafanir skuli gerðar, ef usli verður af dýrum eða fuglum. En það er fleira en refir, sem getur komið til greina. Það má gera ráð fyrir, að rottur geti orðið æðiaðgangsharðar, og jafnvel mýs í hörðum vetrum. Urmull af hagamúsum hefst við í Þingvallahrauni, og harðni um björg, sækja þær svo að mannabústöðum, að ekki er hægt að geyma nokkurn ætan bita óhultan í óvönduðum húsakynnum.

3. brtt. fer fram á, að metnar skuli bætur til Þingvallahrepps fyrir rýrnun fjallskila og útsvara, sem kann að leiða af ráðstöfunum frv. Að því er þetta snertir, að það stofni til útgjalda, eins og hv. frsm. minni hl. tók fram, þá er það rjett, að svo kann að fara. Þó skal jeg ekki um það segja, því að margt getur komið til greina.

Þetta eru fjárjarðir fyrst og fremst, sem hjer er um að ræða. Því verður ekki neitað, að þessi atvinnuvegur sveitarinnar, fjárræktin, er mjög rýrður með ráðstöfunum frv. Jeg býst ekki við, að neinn neiti því, að þessi sveit standi ver að vígi fyrir friðunina út af fyrir sig. Einkanlega mundu fjallskil verða þyngri eftir en áður. Fyrir 2 árum voru þau metin 132 kr. á mann, ef jeg man rjett. Það er þungur skattur á fátækum bændum. Leitir eru þar svo erfiðar og langar, að Grímsnesingar hlupu undir bagga með sveitarbúum og smöluðu með þeim, af því að sveitarmenn önnuðu því ekki sjálfir. Þeir máttu blátt áfram til sjálfra sín vegna að gera það, til þess að fjallskil færu ekki í handaskolum. Þegar nú fjárbúskapur sveitarinnar sjálfrar enn er rýrður, en hreppnum ber eftir sem áður skylda til að annast full fjallskil, er eðlilegt, að hann þyrfti að fá tillög til þess að hægt sje að halda þeim uppi. Það, sem sjerstaklega ýtir undir, að þetta sje gert, er það, að kostnaður við fjallskil í Árnessýslu er ekki aðeins lagður á fjeð, heldur á jarðirnar út af fyrir sig. Þessi venja, sem þar hefir verið upp tekin, stafar af því, að menn úr Reykjavík hafa lagt undir sig ýmsar jarðir eystra og lagt þar niður fjárbúskap. Fjallskilasjóður missir við það af miklum tekjum, sem ekki er rjett að leggja á sömu menn með útsvari.

Rýrnun útsvara í Þingvallahreppi mundi að sjálfsögðu leiða af því, að gjaldþol hreppsbúa minkaði við skerðing fjárbúskapar sveitarmanna. Er ekki nema eðlilegt, að sveitin fái bætur fyrir það, er til kemur.

Hinsvegar er því ekki að neita, að með ýmsum ráðstöfunum, sem gerðar kunna að verða í sambandi við friðun Þingvalla, geti vel verið, að Þingvallasveitarmenn fái ýms fríðindi í aðra hönd. Jeg skal ekkert um það segja. Enda fer till. mín ekki fram á annað en að bætur skuli metnar. Það er ekki farið fram á neinar beinar skaðabætur, heldur aðeins, að það verði ekki útilokað, að sveitin fái bætur, ef metið verður, að hún þurfi þess með.

Jeg vona, að hv. þm. sjeu svo sanngjarnir, að þeir líti með velvild á þessa till. mína. Hv. Alþingi má eiga það, að það hefir jafnan haft það fyrir reglu hingað til að íþyngja aldrei þeim, sem minni máttar eru. Hjer er farið fram á að tryggja, að þeir, sem minni máttar eru í þessu máli, þ. e. bændurnir í Þingvallasveit, verði ekki ósanngirni beittir.

Að öðru leyti hefi jeg ekki ætlað mjer að taka þátt í umr. um þetta mál.

Jeg býst við, að hæstv. dómsmrh. svari hv. frsm. minni hl. um sumt, sem hann kom við. Jeg skil ekki í, að kostnaður við framkvæmd málsins verði neitt líkt því, sem hann gerði sjer í hugarlund, sjerstaklega ef horfið væri að því ráði, er jeg hefi hugsað mjer, að girða af fyrst um sinn aðeins þá bletti, sem mest þörf er á að alfriða þegar í stað. Má bæta við síðar, eftir því sem ástæður eru til.