31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

23. mál, friðun Þingvalla

Gunnar Sigurðsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara. Jeg vil aðeins taka það fram hjer, að fyrirvara minn ber ekki að skilja svo, að jeg sje á nokkurn hátt mótfallinn þessu máli í sjálfu sjer. Jeg taldi aðeins ekki rjett að binda hið friðaða svæði svo einskorðuðum takmörkum eins og gert er í frv., og var það mest vegna þess, að jeg er hræddur um, að það reynist illmögulegt að halda við girðingum á þessum mörkum. Hæstv. dómsmrh. hefir nú komið fram með brtt. við frv., og hv. 2. þm. Árn. Sömuleiðis í svipaða átt, og tel jeg sjálf sagt að samþ. frv. með þeim breytingum.

Jeg tel alveg sjálfsagt að friða þennan fornhelga stað, og sjerstaklega vil jeg leggja áherslu á skóginn, að hann verði friðaður og hlúð að honum sem best. Við þurfum ekki annað en líta aftur í tímann í fornsögur vorar til þess að sjá, hversu miklu meiri skógurinn var áður, — og hvers vegna ætti hann ekki eins að geta þrifist nú?

Jeg vil leggja til, að brtt. hæstv. dómsmrh. og hv. 2. þm. Árn. verði samþ. og að girðingunni verði hagað eins og best verður talið og hentast til að friða skóglendið. Jeg skal þó taka það fram, að hvað stærð girðingarinnar snertir stend jeg að ýmsu leyti nær minni hlutanum.