31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Mjer finst nú allmikil von um, að samkomulag náist um þetta mál. Aðalágreiningurinn hefir verið um stærð friðaða svæðisins, en þar sem hæstv. dómsmrh. hefir nú boðað brtt. til miðlunar í málinu, má ætla, að hv. þdm. geti yfirleitt fallist á þær. (MG: En getur allur meiri hlutinn fallist á þær?). Það get jeg auðvitað ekki sagt um með vissu, fyr en jeg sje till., en jeg hygg það þó, því að ekki mun meiningin að fastbinda það, hvar girðingin eigi að liggja.

Mjer hefir fundist málstaður minni hlutans helst byggjast á því, að þetta mundi verða til hnekkis búskap í hjeraðinu. Um þetta hefi jeg engu við það að bæta, sem hæstv. dómsmrh. sagði, enda er enginn, sem getur fullyrt neitt um það að svo stöddu, hvort búskapur mundi bera sig eins vel og nú á þessum býlum. Líklegt má þó telja, að bændurnir hafi eitthvert tjón af þessu í bili, og er þá sanngjarnt að bæta það að einhverju leyti.

Þá er það kostnaðarhliðin. Jeg veit ekki til, að nein bein áætlun liggi fyrir um hann. Hv. minni hl. hefir talið, að hann mundi nema alt að 100 þús. króna. Jeg álít nú, að slíkt nái engri átt. En jeg stend auðvitað jafnilla að vígi að staðhæfa það eins og hv. minni hluti að fullyrða, að hann verði þetta mikill. Jeg get ekki skilið, að kostnaðurinn við girðinguna geti orðið nándar nærri eins mikill og minni hl. heldur Frsm. Mjer er nær að halda, að einstakir bændur hafi gert eins miklar girðingar eins og hjer er um að ræða, og gæti jeg trúað því, að svo væri t. d. um samþingismann hv. 1. þm. Skagf., en ekki eyða einstakir bændur tugum þúsunda í girðingar. En setjum svo, að minni hl. hefði rjett fyrir sjer, að allur kostnaðurinn yrði 100 þúsund krónur. Setjum svo, en þá verð jeg að segja það, að jeg álít, að þjóðin megi ekki horfa í þann kostnað. Enda er það svo, að mörgum 100 þús. hefir verið ver varið, og þó að þetta kostaði jafnmikið eins og ætlast er til, að ríkið leggi til Sundhallar hjer í Reykjavík, þá blöskrar mjer það ekki svo mjög.

Jeg verð að segja, að jeg er hálfhissa á afstöðu hv. minni hl. Hann segist vilja friða þingstaðinn, en ekki taka svona stórt svæði til friðunar. Hann segist ekki sjá til neins að koma með brtt.; þær muni verða feldar. En ef það sýni sig, að nógu margir fáist með, þá muni hann flytja brtt. við 3. umr. Nú er það till. minni hl., að frv. verði felt, en hvernig ætlar hann þá að koma fram brtt. við 3. umr., ef hann fær nógu marga með sjer til að fella frv. nú?

Hv. frsm. minni hl. mintist meðal annars á mannvirki á Þingvöllum og að komið hefði til mála að virkja Öxará og benti á, að ef þingið yrði flutt til Þingvalla, væri óhjákvæmilegt, að þar þyrfti að koma upp mannvirkjum, rafveitu og fleiru. Þar til er því að svara, að mikið vafamál er, hvort þingið verður flutt. Hinsvegar er það tvent ólíkt, hvort ráðist verður í einhver fyrirtæki vegna þingsins og undir þess stjórn, eða hvort einstökum mönnum er leyft að gera þau mannvirki, sem þeim sýnist, eftirlitslaust. Það, sem hv. þm. að öðru leyti mintist á, að það væri hart fyrir hlutaðeigendur, að þeim væri bannað að láta gera nokkur mannvirki á jörðum sínum, þá þarf jeg ekki að svara því, þar sem hæstv. dómsmrh. tók það fram, að slíkt væri ekki tilætlunin. En hitt finst mjer alveg óhjákvæmilegt, að setja eitthvert eftirlit með því, hvernig þau mannvirki eru gerð, ef á annað borð á að tryggja það, að staðnum verði ekki spilt og helgi hans. Þetta er heldur ekki neitt einstakt í lögum. Jeg veit ekki betur en að allir þeir, sem í kaupstöðum búa, verði að hlíta fyrirmælum hins opinbera um byggingar og þess háttar. Mjer finst það ekki mikið meira fyrir íbúa Þingvallasveitar.

Jeg vona nú, að þetta frv. nái samþykki hv. deildar og þingsins í aðalatriðunum. En út af því, sem fram hefir komið um það, hvenær lögin skuli ganga í gildi, þá býst jeg við, að jeg geti lofað því fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, að það skuli verða athugað nánar fyrir 3. umr., og það er líklega alveg rjett að láta þau ganga í gildi fyr en gert er ráð fyrir í frv.