31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Árn. mælti fyrir sínum brtt., en vildi nú gera sem allra minst úr þeim, hvað þær hefðu að þýða, og skil jeg það vel. En jeg verð að minna bæði hv. þm. og hæstv. dómsmrh. á það, að það stendur í þessu frv., að þetta svæði skuli vera friðað, og þar af dró jeg það, að það mundi vera tilætlunin að setja um þetta land fullkomna girðingu, því að á annan hátt er ekki hægt að friða það.

Hv. 2. þm. Árn. viðurkendi það, sem jeg hjelt fram, að girðingu á þessum stað væri mjög erfitt að hafa, og hv. þm. gaf meira að segja í skyn, að það myndi oft þurfa að rífa niður girðingar og byggja þær upp aftur, til þess að finna hagkvæmustu staðina fyrir þær. Þetta er ekki til að gera verkið ódýrara, og þarna er hv. þm. á gerólíkri skoðun við hæstv. dómsmrh.

Hvað snertir girðingar meðfram vegum, þá hjelt hæstv. dómsmrh. því fram, að þeirra myndi ekki þörf, og mjer skildist líka, að það ættu að vera þrjú hlið á girðingunni, þar sem vegirnir eru, eitt einhversstaðar nálægt Meyjarsæti, eitt undir Lyngdalsheiði og eitt þar, sem farið er inn á Þingvelli, þegar farið er hjeðan og þangað. En eftir því hve mikil umferð er um þessa vegi, skil jeg ekkert í því, hvernig hægt er að búast við, að þessum hliðum verði lokað, t. d. með allri þeirri umferð, sem er hjeðan úr Reykjavík, eða norður á Kaldadal eða austur í Laugardal. Hvernig geta menn ímyndað sjer, að hliðin verði venjulegast látin aftur? (Dómsmrh. JJ: Svona var það á Hallormsstað). Já, en þar var líka sjerstakur skógarvörður, og þar var það heldur ekki svo skaðlegt fyrir skóginn, þótt fje gengi í hann, og þar er lítil umferð. Hjer er um alt annað að ræða, og það verður heldur engin varsla á skóginum, ef á að notast við svona mörg hlið á jafnfjölförnum vegum. Skemtiferðafólk úr Reykjavík hefir engan skilning á því, og það þarf þá að vera vörður við hvert hlið, og þá kemur víst nokkuð upp í vexti og afborganir af þessari girðingu. Það er heldur ekki hlaupið að því að smala Þingvallahraun og reka úr því; það er ekki eins og að reka úr túni, því að þetta er stór sveit, eins og allir vita.

Jeg veit ekki, hvort jeg má benda hv. 2. þm. Árn. á það, að mjer þykir hans 3, brtt., við 3. gr., vera dálítið einkennilega orðuð. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo skulu og metnar bætur til Þingvallahrepps fyrir rýrnun fjallskila . . . . “.

Þetta myndi helst benda til þess, að þeir í Þingvallasveitinni þyrftu að láta minna af hendi til fjallskila, ef frv. nær fram að ganga, en svo verður ekki, því að jafnstórt svæði þarf að smala af færri mönnum. Hjer verður því ekki um rýrnun að ræða, heldur aukning. Það hefði átt að standa: fyrir aukningu kostnaðar. Það verður að smala landið engu síður, þótt ekki megi vera sauðfje á þessu takmarkaða svæði, því að það eru ekki fjallskil að smala heimalöndin.

Þá sagði hv. þm., að það ætti aðeins að meta skaðabætur handa Þingvallasveitarbúum. Jeg hjelt, að það væri ekki nóg; jeg hjelt, að Þingvallasveitarbúar hefðu enga ástæðu til að láta meta skaðabæturnar, ef þeir ekki fá þær greiddar. En þetta á kannske að vera „diplomati“, að láta fyrst aðeins meta bæturnar og heimta þær svo seinna. Jeg held, að þeir eigi að fá bætur, en þá má hv. þm. ekki láta það líta svo út, að hjer sje aðeins um matið að ræða. Hv. þm. (MT) langar í skildingana líka, og það er ekki nema eðlilegt.

Þá kem jeg að hæstv. ráðh. Hann var eiginlega miklu fúsari til samninga heldur en hv. meiri hl. nefndarinnar, því að það mátti ekki orða það í nefndinni að koma með brtt. við frv.; það var ekki um það að tala, en nú, þegar hæstv. ráðh. kemur með boðskap um það, að koma með brtt. til 3. umr., þá segir hv. frsm. meiri hl., að nú verði sjálfsagt samkomulag, og með því gefur hv. þm. það í skyn, að hann ætli að ganga inn á þessa brtt. Mjer kemur þetta dálítið undarlega fyrir, því að úr því að hæstv. ráðh. álítur ekki sitt frv. vera svo heilagt, að ekki megi róta við því, þá hefði hv. meiri hl. nefndarinnar ekki átt að álíta það heldur. En það er auðvitað, að það má til að breyta upphaflega frv., ef það er meiningin, að það eigi að gera nokkuð þar fyrir árið 1930, því að það stendur alveg skýrt í 1. gr. frv., að þá fyrst skal þessi staður vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.

Það er nú sjálfsagt ekki til mikils að deila um það, hve nauðsynlegt sje að girða þarna. Jeg held, að það sje nauðsynlegt, ef á að gera eins og frv. segir, að það eigi að verja landið algerlega fyrir sauðfje. Þá verður að setja fjárhelda girðingu um alt svæðið og líka meðfram vegunum, en ef ekki á að gera það nema að nafninu, þá get jeg vel gengið inn á, að nóg sje að girða spotta og spotta og að ekki þurfi að vera girðing meðfram vegunum, en allur minn útreikningur var miðaður við það, að það verði gert, sem í frv. segir, og það er ekki hægt að álasa mjer fyrir það, þó að jeg geri mína áætlun eftir því sem frv. segir. En ef meiningin er að bregða frá því, sem frv. segir, geta náttúrlega aðrar áætlanir komið til greina.

En út af orðum hv. 2. þm. Árn. vil jeg segja það, að jeg er honum sammála um, að betra sje að taka fallegustu skógarblettina og afgirða þá, því að vitanlega eru á þessu svæði stórir flákar, sem ekki er nein ástæða til að vera að girða.

Hæstv. ráðh. fór að miða þessa girðingu við girðingar prestsins á Þingvöllum, en þess ber að gæta, að það er mjög snjóþungt, þegar dregur upp til fjalla, og þegar svo lítur út, sem girða eigi upp á talsvert hátt fjall, þá verður að athuga það, að snjóþyngsli eru þar mjög mikil, og miklu meiri en niðri á láglendinu.

Mjer þótti tekið nokkuð djúpt í árinni, þegar hv. 2. þm. Árn. sagði, að snjórinn gæti orðið marga faðma á dýpt; en ef snjórinn verður svo mikill, þá eyðileggur hann hverja girðingu.

Það er heldur ekki hægt að líkja þessari girðingu við Hallormsstaðar- eða Vaglagirðinguna, þegar af þeirri ástæðu, að á þeim stöðum er sjerstakur skógarvörður, en það liggur ekkert fyrir um, að það eigi að verða svo hjer, og skógarnir á þeim stöðum munu hafa náð þeim þroska, að þótt sauðfje komist í þá, getur það ekki gert mikinn usla.

Jeg get tekið undir það, að full ástæða væri til að friða skóginn í Þingvallahrauni, en jeg sje ekki, að það hafi neitt að gera með friðun Þingvalla sjálfra. Annars skal jeg geta þess, að jeg man, að sjera Jón sál. á Þingvöllum sagði mjer, að hann sæi ekki betur en að þá tíð, sem hann var á Þingvöllum, hefði skógurinn frekar verið í framför en afturför, og hefði hann það þó á tilfinningunni, að skógurinn væri það, sem Þingvallasveitin hefði lifað á, og þess vegna hefði hann gefið nákvæmar gætur að því, hvernig hann hefðist við.

Þá hjelt hæstv. ráðh., að kúm í Þingvallasveitinni mundi fjölga mjög og að bændur þar gætu notað markaðinn hjer. Það mun nú eiga nokkuð langt í land, að kúnum fjölgi þar, því að jeg held, að varla sje hægt að hugsa sjer sveit, sem er öllu ver löguð til að hafa kúarækt. Að minsta kosti eru ákaflega fáar kýr í þeirri sveit og allir kostir hennar eru taldir að vera fyrir sauðfje. Svo var hæstv. ráðh. að tala um, að það væri ekki svo mikið tekið af sveitinni með þessu. En ef maður lítur í jarðabókina, þá sjer maður, að í Þingvallahreppi eru aðeins 16 býli, og það eru 8 af þessum 16 býlum, sem eru að meira eða minna leyti skert, svo að það verða þá ekki eftir nema svo sem 10 býli, sem hægt er að segja, að sjeu að mestu leyti óskert, frá því sem nú er, og mörg af þeim eru smá. Jeg get ekki sjeð það, hvernig svona sveit getur staðist sem sjerstök sveit á eftir. Það verður að minsta kosti mjög hæpið að koma því við, og ef svo þrjár af þessum jörðum eða fleiri munu fara að mestu leyti í eyði, eins og helst lítur út fyrir, get jeg ekki sjeð, að þessi sveit geti staðist áfram sem sjerstakt sveitarfjelag. Eftir því, sem hæstv. ráðh. segir, þá á að taka þau einu hlunnindi af þessari sveit að meira eða minna leyti fyrst um sinn, sem hún hefir haft, en það er veiðin í Þingvallavatni. Það er vitanlegt, að hún hefir verið mjög mikil hlunnindi fyrir sveitina, og nú boðar hæstv. ráðh., að það sje tilgangurinn að friða silunginn fyrst um sinn norðan til í vatninu. Það getur vel leitt til þess, að veiðin verði síðar, kannske eftir einn mannsaldur, miklu meiri en hún er nú; en þeir, sem nú búa þar, hafa engin not af því, og eins er með það, sem hæstv. ráðh. segir um kúahaga, sem verði síðarmeir í skóginum. Þeir, sem nú eru uppi, hafa engan hag af því, sem verða kann í skóginum eftir 40–50 ár. Það er rjett, það er náttúrlega hægt að taka gestagjald af Þingvöllum og afla sjer tekna með því, en það verður þá aðeins lagður á sjerstakur skattur til að standast kostnaðinn af þessari friðun. Þykir líklega álitamál, hvort sá skattur verður vinsæll eða þykir eiga rjett á sjer, en út í það skal jeg ekkert fara.

Hæstv. ráðh. upplýsti áðan, að það hefði ekki verið tilgangurinn að virkja Öxarárfoss sjálfan, heldur aðeins einhverjar flúðir neðan við hann. Jeg fæ nú ekki sjeð, að það væri sjerstök goðgá, þó að það væri gert. Mjer finst, að það væri ekki nema eðlileg framför, þó að þeir menn, sem þarna búa, geri sjer náttúruöflin á þessum stað undirgefin, alveg eins þótt þessi staður sje fornhelgur. Jeg geri ráð fyrir, að þessu væri hægt að haga þannig, að án þess raskaðist nokkuð á Þingvöllum, og þvert á móti yrði slíkt bæði til þæginda og prýði að hafa góð ljós, að jeg nú ekki tali um þau þægindi, ef hægt væri að hafa rafmagn um leið til hitunar á Þingvöllum.

Svo var yfirstjórnin á Þingvöllum. Hæstv. ráðh. álítur, að þingflokkarnir eigi að hafa hana, en þar til er því fyrst að svara, að þeir geta vel verið fleiri en þrír, og þeir eru meira að segja fjórir núna, svo að einhver þeirra eða einhverjir, ef þeir verða fleiri, hljóta að verða afskiftir í þriggja manna nefnd. Jeg álít líka, að þetta skifti ekki neinu máli. Jeg álít, að landsstjórnin eigi á hverjum tíma að stjórna þessu eins og öðrum eignum ríkissjóðs, þ. e. a. s., að hún eigi að hafa framkvæmdarvaldið, en ekki Alþingi.

Hv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að mín kostnaðaráætlun myndi vera alt of há. Já, það fer alt eftir því, hvað á að gera, hvort á að gera það, sem frv. ráðgerir. Hún er náttúrlega of há, ef ekki á að gera það, en annars er hún nærri lagi. Jeg get vitaskuld ekki sagt um það, hvaða bætur muni verða gerðar bændum þar, en ef dæma má eftir þeim bótum, sem hæstv. stjórn ætlar prestinum á Þingvöllum, þá sýnist mjer, að bændur þar í grend eigi að fá talsvert líka. Jeg er hræddur um, að háttv. frsm. meiri hl. sje heldur ókunnugur stærð þessa lands, sem þarna er um að ræða, þegar hann heldur, að einstakir bændur þessa lands hafi girt álíka land hjá sjer. Jeg held, að það sje allmiklu stærra en heimaland einstakra jarða, og það er jeg viss um, að enginn bóndi mundi telja land sitt alvarið með því fyrirkomulagi, sem hjer er gert ráð fyrir, að láta þrjú hlið vera á þeim fjölförnu vegum, sem um það liggja. Það myndu bændur landsins telja algerlega ónóga vörslu. Hv. frsm. meiri hl. tók það fram, að þótt eytt væri í þetta 100 þús. kr., þá væri það ekki of mikið; getur vel verið, en ef á að samþykkja frv., er þó rjett að gera sjer grein fyrir því, hver útgjöldin verða. En það er ekki nema virðingarverð hreinskilni hjá hv. þm. að segja, að hann vilji leggja þessa upphæð í kostnað, ef með þarf. (BSt: Ef með þarf, en jeg álít ekki, að þess muni þurfa). Nei, hv. þm. hefir ekki mælt þetta land upp og er heldur ekki vel kunnugur þar; jeg heyri það á orðum hans. Og svo er þetta það minsta, sem þarf að gera þar fyrir 1930, því að það verður sannarlega ekki meira en ein fjöður af fati þetta, út af fyrir sig. Hv. þm. kvaðst vera hissa á afstöðu minni hl., að leggja á móti frv., en flytja þó engar brtt. við það, en ráðgera á hinn bóginn að flytja brtt. við 3. umr., ef sá vilji kæmi í ljós í deildinni að breyta því eitthvað. Jeg hjelt, að hv. frsm. meiri hl. áliti ekki, að við hv. þm. Barð. værum svo heimskir, að við gætum ekki látið vera að greiða atkv. á móti til 3. umr., og auk þess hefir nú þetta komið fram, sem okkur hv. þm. Barð. ugði, að það hlytu að koma fram brtt. við frv. En það var einmitt það, sem hv. meiri hl. mátti ekki heyra nefnt í nefndinni. Þetta frv. var sá helgur dómur, af því að það kom frá stjórninni, að ekki mátti breyta því. Auk þess hjelt jeg, að hv. 2. þm. Eyf. vissi, hve sterkt stjórnarliðið er hjer í þessari hv. deild, svo að þótt minni hl. gerði það, sem hann gæti, þá fær hann ekki mikið að gert. Hv. þm. fanst það rjett, að það mætti ekki einu sinni stinga upp hnaus úr jörðu á þessum býlum öllum, sem hjer er um að ræða. En jeg vil aðeins benda hv. þm. á það, hve ýms af þessum býlum eru fjarlæg frá Þingvöllum og svo sett, að þau sjást ekki þaðan, og veit jeg því ekki, hvers vegna þarf að vera að setja svo ströng ákvæði, til að gera þeim mönnum, sem þarna búa, aðeins óþægindi.