31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

23. mál, friðun Þingvalla

Magnús Torfason:

Jeg þarf ekki að taka til máls aftur vegna þess, að brtt. mínum hafi verið mótmælt. Þvert á móti hefir þeim verið mjög vel tekið, og þakka jeg hv. þdm. fyrir það. En jeg þykist þó ekki komast hjá að leiðrjetta. einn misskilning, sem komið hefir Frsm. Jeg verð að halda því fram, að jeg hafi ekki beint krafist skaðabóta fyrir hönd Þingvallahrepps, heldur hefi jeg aðeins krafist þess, að bætur yrðu metnar, ef til kæmi. Þ. e. a. s. jeg vil, að dómkvaddir menn sjeu látnir meta, hvort þessar ráðstafanir sjeu bótaverðar fyrir hreppinn eða ekki.

Einn liður, sem jeg býst við, að hljóti þó að verða metinn til bóta, er íþynging fjallskilanna. — Helmingur þeirra er lagður á jarðirnar, en hinn helmingurinn á sauðfjeð, þ. e. á sauðfjáreigendur, eftir því, hve margar kindur hver á. Fjallskilin á þeim jörðum, sem leggja á niður, nema 132 kr. Fjallskilin eru þegnskylda, og þegar mönnunum fækkar, sem þau eiga að inna af hendi, verða þau rýrari fyrir hreppinn. Verður þá að meta þau hærra á þeim, sem eftir eru, og jafnvel kaupa menn á hreppsins kostnað til að inna þau af hendi.

Jeg hefi ekki skilið Þingvallanefnd svo, að hún ætli að leggja bann við því, að Öxará sje virkjuð, heldur vilji hún aðeins hafa hönd í bagga um það, hvernig það sje gert. Jeg er sammála hv. 1. þm. Skagf. um, að það gæti orðið sveitinni til bóta, og eins öllum þeim, sem þar koma. Býlin verða vistlegri, ef þau eru lýst og hituð með rafmagni. En mjer hefir skilist, að að því skuli unnið að gera þetta svæði vistlegra, fremur en hitt.

Kúabúskapur er ekki eins afleitur þarna eins og sumir halda. Markaðurinn er ágætur fyrir mjólk og skyr á Þingvöllum á sumrin. Það er jafnvel ekki fátítt, að bændur kaupi kýr á vorin og selji aftur á hausti. Hafa þeir upp úr þessu góða peninga, auk þess sem það eykur áburðinn og flýtir þannig fyrir ræktun sveitarinnar.

Jeg hefi ekki heyrt, að sveitarmenn telji takmarkanir á veiði í Þingvallavatni kvöð á sjer. Þvert á móti telja þeir nauðsynlegt að banna ádrátt á vissum svæðum, og hefir presturinn t. d. lýst yfir því sem sinni skoðun. En frá því er að segja, að veiðin hefir verið rekin sem rányrkja, og hefir minkað ár frá ári, svo að nú er hún sumstaðar til lítilla nytja. En með því að vernda riðsvæðin er mikil von um, að hún komist bráðlega aftur í samt lag og verði sveitarbúum til hins besta hagræðis.

Síðan jeg talaði síðast hefir komið fram brtt. á þskj. 659. Henni hefir enn ekki verið lýst af forsetastóli, og skal jeg ekki fara út í hana, enda er hún svo viðfeldin, að ekki getur sjest veruleg ástæða til að vera óánægður með frv., ef hún nær fram að ganga.