31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Það eru aðeins örfá orð að þessu sinni. Mjer finst óþarft að orðlengja frekar en orðið er um þetta mál. Þó þarf jeg að leiðrjetta a. m. k. eitt atriði hjá háttv. frsm. minni hl. Hann sagði, að það væri undarlegt, að meiri hl. gæti nú gengið inn á breytingar á frv., því að í nefndinni hefði ekki mátt orða þær. Jeg hygg, að þetta sje rangt með farið. Jeg var að vísu veikur, þegar þetta mál var til umræðu í nefndinni, og tók aðeins þátt í atkvgr. En hv. meðnefndarmenn mínir segja mjer, að engar brtt. hafi verið orðaðar af hv. minni hl. á nefndarfundum. Því er ekki neitt við því að segja, þótt við legðum til, að frv. væri samþ. óbreytt. Okkur hafði ekki hugkvæmst neitt, sem endilega þyrfti að breyta, en þar með var ekki sagt, að við hefðum ekki gengið inn á skynsamlegar brtt., ef þær hefðu verið orðaðar.

Hv. þm. sagði, að jeg væri ókunnugur á þessu svæði, og sæist það best af því, að jeg hefði sagt, að einstakir bændur hefðu girt eins stór svæði og hjer væri um að ræða. Það er rjett, að jeg er þarna ókunnugur, en hitt er ekki rjett haft eftir. Jeg sagði ekki, að bændur hefðu girt svona stór svæði, en hitt sagði jeg, að þess væru dæmi, að einstakir bændur hefðu girt jafnlangar girðingar og hjer mundi þurfa. Svo hagar nefnilega til, að gjár geta víða komið í girðinga stað.

Þá sagði háttv. frsm. ekki rjett frá um undrun mína út af till. minni hl. Jeg sagðist vera hissa á því, að háttv. minni hl. segist leggja til, að frv. sje felt, en ef hann þykist sjá, að nógu margir sjeu honum sammála. ætlar hann að bera fram brtt. við 3. umr. En þá skilst mjer, að frv. sje fallið, ef hv. minni hl. fær meiri hluta deildarinnar á sitt mál.

Þá talaði hv. þm. um, að ekki mætti stinga hnaus innan girðingarinnar, jafnvel ekki uppi undir fjöllum. Jeg býst nú varla við, að svo strangt verði farið í sakirnar. En hitt finst mjer sjálfsagt, að á þessum stað, þar sem alt á að hafa sem prýðilegast úr garði gert, sjeu öll þau mannvirki, sem í er ráðist, undir opinberu eftirliti. Þar má ekki láta mönnum haldast uppi að byggja hvaða hænsnakofa sem er.