31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

23. mál, friðun Þingvalla

Pjetur Ottesen:

Eins og tekið hefir verið fram, býst jeg við, að allir sjeu mjer sammála um, að sjálfsagt sje að gera einhverjar ráðstafanir til frekari friðunar á Þingvöllum en nú er. Mig minnir, að þetta sje í þriðja sinn, sem fram kemur á Alþingi tillaga um friðun Þingvalla. Fyrst var það fram borið á Alþingi 1919 í þál.formi. Jeg hygg einmitt, að samþ. þeirrar tillögu hafi átt upptökin að því, að komið var upp eftirliti á Þingvöllum. Á þinginu 1926 var líka borið fram frv. um friðun Þingvalla, en náði ekki fram að ganga. Er þetta frv. því þriðja till., sem fram kemur í þessa átt. Um það hafa aftur á móti verið skiftar skoðanir, hversu langt eigi að ganga með friðunina. Samkv. frv. frá 1926 var gert ráð fyrir að friða svæðið á milli Almannagjár að vestan og Háugjár að austan, Þingvallavatns að sunnan og Ármannsfells að norðan. Þetta er allstórt svæði og á því mikill skógargróður. Meðal annars er þar ljómandi fallegur skógarblettur uppi undir Ármannsfelli, sem kallaður er Bás. Að Þingvallagestir hafa kannske ekki sótt þennan stað eins og ýmsa aðra staði á Þingvöllum, stafar af því, að hann liggur nokkuð afskektur, en úr því má bæta með því að leggja þangað veg eftir svo kölluðum Leirum, enda var ráð fyrir því gert samkv. því frv., sem borið var fram 1926. Með því að friða þetta svæði teldi jeg sæmilega frá þessu friðunarmáli gengið, því að með því er ekki gengið svo langt að skerða bygð Þingvallasveitar, því að jeg býst við, að þau býli, sem þetta land nota nú, myndu geta haldið fullri áhöfn eftir sem áður. Það leiðir líka af sjálfu sjer, að kostnaðurinn við að friða aðeins þetta land myndi ekkert verða sambærilegur við þann kostnað, sem af því yrði að friða alt það svæði, sem hjer liggja fyrir till. um, og enda þótt dregið yrði úr því eins og till. hæstv. dómsmrh., sem nú eru fram komnar, benda til. Jeg býst við, að girðing um það svæði liggi samt sem áður langt fyrir norðan Hrauntún; gæti því ekki komið til mála, að þar mætti reka sauðfjárbúskap. Annars er jeg þeirrar skoðunar, að sú friðun, sem farið er fram á í frv., sje alls ónauðsynleg, og í raun og veru fjarstæða einber, og það þó að tekið sje fult tillit til hinna fornu menja og. sögulegu helgi, sem bundin er við þennan stað, því að með þessu eru lögð í eyði 5–6 býli. Því er að vísu haldið fram af hæstv. dómsmrh. og hv. frsm. meiri hl., að friðun þessi sje ekki raunveruleg skerðing á búskap á þessum jörðum, þar sem reka megi kúabú á jörðunum eftir sem áður, en slíkt er af ókunnugleika mælt. Því eins og kunnugt er, er sauðfje aðalbústofn manna á þessu svæði, og sauðfjárrækt er það eina, sem gerir þessar jarðir byggilegar, því að svo miklir erfiðleikar eru á að auka túnrækt þarna, svo hægt sje að hafa kúabú, svo nokkru nemi, að slíkt getur alls ekki komið til greina. Afleiðingin verður því sú, að bygð legst að mestu leyti niður á þessum jörðum.

Jeg býst nú við, að það geti verið álitamál, hvort hægt sje að alfriða þetta land, þó að ekkert sje horft í kostnaðinn. Á það hefir verið bent af hv. 2. þm. Árn., að þó að hægt verði að koma girðingu niður á þessum stöðum, þá sjeu þar svo mikil snjóþyngsli, að girðingin muni leggjast niður á hverjum vetri, að minsta kosti á stórum köflum. Það er nú að vísu kleift að rjetta girðinguna svo fljótt við á vorin, að koma mætti í veg fyrir, að skepnur kæmust inn á hið friðlýsta svæði, ef hún þá kæmi svo snemma undan snjónum alstaðar, en þarna verður ekki um það að tala, því að landið, sem hún á að liggja um, er svo lautótt, að snjór liggur á því langt fram á vor. Má því búast við, að fje renni inn á svæðið eftir sköflum fram eftir öllu vori, því eins og kunnugt er, sækir fje mjög á þessar slóðir. Yrði þá of miklu til þessa kostað, ef það þannig kæmi að litlum eða engum notum, því að kostnaðurinn við slíka girðingu yrði óneitanlega mjög mikill, ekki aðeins vegna vegalengdarinnar, heldur og líka sökum þess, hve erfitt yrði að koma girðingu niður þarna, því að um það getur ekki verið að tala, sem hæstv. dómsmrh. benti á, að girða mætti með grjótgarði að einhverju leyti, því lítið er af lausagrjóti á þessu svæði, sumstaðar a. m. k., og þó svo væri, er með öllu ókleift að flytja grjótið nokkuð til sökum þess, hve landið er mishæðótt. En að sprengja grjót í garðinn, kemur heldur ekki til mála, því að fyrst og fremst er ilt að sprengja hraungrjót, og í öðru lagi myndi slíkt verk verða svo dýrt, að um það gæti ekki verið að ræða. Hjer yrði því ekki um annað en vírgirðingu að ræða, og víða hagar svo til, að klappa yrði staurana niður í hraunið á stórum svæðum. Stofnkostnaður slíkrar girðingar yrði því óneitanlega mjög mikill, auk hins árlega viðhaldskostnaðar, sem áreiðanlega yrði mjög mikill, eins og hv. 2. þm. Árn. hefir bent á. Mjer virðist því mál þetta horfa svo við, að alls ekkert sje hægt að segja um það með vissu, hvílíkan feiknakostnað getur af því leitt að friða svona stórt svæði. Jeg verð því að segja, að mjer finst það vera að fara aftan að siðunum að fara að leggja niður bygð á þessu svæði, þegar það fyrst og fremst er augljóst, að kostnaðurinn við það verður geysimikill, og auk þess er óvíst um árangurinn. Jeg býst við því, þó fylgt væri út í ystu æsar ákvæðum frumvarpsins um alfriðun á landinu, þá mundi sú friðun aldrei verða annað en málamyndafriðun. Fje mundi renna yfir girðinguna á sköflum á vorin, smjúga hana, og hætt er við, að hliðin á girðingunni yrðu ekki altaf látin aftur, svo oft yrði greiður gangur fyrir fje um þau.

En samkv. till. hv. 2. þm. Árn. yrði skógurinn í Þingvallahrauni alls ófriðaður, þar sem hann gerir ekki ráð fyrir girðingum þar. Hv. þm. talaði um að verja skóginn í Þingvallahrauni fyrir vetrarbeit, en jeg er mjög hræddur um, að fje mundi leynast þar lengi í hrauninu fram eftir vetri, því eins og nú er reynist lítt kleift að fullsmala hraunið fyr en komin er aðsetursjörð, enda kemur það iðulega fyrir, að fje vestan úr Borgarfirði og öðrum fjarlægum hjeruðum kemur þar fyrir, þegar komið er langt fram á vetur. Jeg er því hissa á, að hæstv. dómsmrh. skyldi taka vel í þessa till., því að það hefir komið skýrt fram, hver ágangur er á þetta svæði, þar sem hann hafði það eftir ábúendunum, að þeirra fjár gætti þarna lítils, samanborið við urmul af fje, sem streymdi þangað frá öðrum hjeruðum.

Það er gengið út frá því, að nauðsynlegt sje að gera þessar friðunarráðstafanir til þess að friða skóginn á þessu svæði, og því er haldið fram, að skógurinn þarna hafi verið miklu meiri áður. Það má vel vera, að svo hafi verið, en þegar verið er að tala um, að skógarnir hafi gengið úr sjer og eyðilagst, bæði þarna og víðar, er alveg gengið framhjá einu atriði, sem sje því, er mestu olli um eyðingu skóganna, kolagerðinni.

Síðan kolagerðinni ljetti af hafa skóglendi víðsvegar á landinu blómgast, og svo mun einnig vera um skóginn í Þingvallahrauni. Jónas sál. Halldórsson í Hrauntúni sagði mjer það fyrir nokkrum árum, að þá tíð, sem hann dvaldi í Hrauntúni, en það var í fleiri tugi ára, þá hafi skógurinn vaxið og blómgast, og það til stórra muna á sumum svæðum.

Þá hefir hæstv. dómsmrh. ennfremur fært það fram sem ástæðu fyrir þessum friðunarráðstöfunum sínum, hve mörg eyðibýli væru þarna, því að þau bentu til þess, að land þetta væri að ganga úr sjer. En þetta er ekkert sjerstakt þarna, því að það eru víðar eyðibýli á landinu en á þessum stað. Þau eru víðsvegar um landið, og er því ekki hægt að halda því fram, að það, að býlin lögðust niður eða fóru í eyði, stafi af því, að landið hafi gengið úr sjer. Það er þvert á móti afleiðing af breyttum atvinnuháttum landsmanna; afleiðing af því, að þurrabúðarmennirnir, sem áður áttu heima í sveitunum, hafa nú flutst út að sjávarsíðunni.

Þá hefir því verið haldið fram, að friðun þessi miðaði líka að því að viðhalda veiði í Þingvallavatni, og hæstv. dómsmrh. hafði það eftir einum bónda þar eystra, að klakstöðvarnar væru aðallega að norðanverðu í vatninu. En svo mun ekki vera, því langsamlega bestu veiðistöðvarnar eru fyrir utan þetta svæði. Innan svæðisins eiga ekki nema þrír bæir veiði í vatninu, Þingvellir, Skógarkot og Vatnskot, og jeg býst ekki við, þó að bönnuð yrði veiði frá þessum bæjum, að það hefði nokkur veruleg áhrif á veiðina í vatninu. Það er önnur aðferð, sem frekar yrði til þess að auka veiðina, sem sje. Sú, að komið yrði þar upp klakstöðvum og bestu hrygningarstaðirnir friðaðir, en til þess þarf ekki að leggja í þá stórkostlegu Þingvallafriðun, sem hjer er farið fram á.

Um það, að gistihúshald geti komið þarna upp sem atvinnuvegur fyrir bændurna í staðinn fyrir sauðfjárrækt, er það að segja, að það eru ekkert frekar mögulegleikar fyrir þann atvinnuveg þarna, þó að sauðfjárræktin verði lögð niður. Annars býst jeg við því, að aðrir staðir á Þingvöllum þyki eins heppilegir fyrir gistihús eins og á þessum býlum, sem nú á að fara að leggja í eyði.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að brtt. hv. 2. þm. Árn. Brtt. hans við 2. gr., að setja skýrari ákvæði um, að eyða skuli dýrum á þessu svæði, sem valdið geta tjóni, er vitanlega alveg sjálfsögð. Það er beinlínis bráðnauðsynlegt að setja ströng ákvæði um útrýming refa á þessu svæði, til þess að reyna að koma í veg fyrir hinn mikla dýrbít, sem altaf er þarna, en sem þó hefir tekið út yfir nú á síðustu árum, sem ekki er heldur undarlegt, þar sem svo að segja er alstaðar fult af grenjum á þessu svæði, og mjög ilt að vinna grenin. Það er því ekki að ófyrirsynju, þó að háttv. 2. þm. Árn. vilji kveða fast á um þetta atriði, þar sem líka stjfrv. gaf helst í skyn, að refirnir ættu að vera friðaðir á þessu svæði.

Þá er 3. brtt. hans, um að meta skuli bætur til Þingvallahrepps fyrir rýrnun fjallskila og útsvara, ef samningar nást ekki um það. Það virðist alveg sjálfsagt, að þetta sje gert, en það hefir óneitanlega mikinn kostnað í för með sjer fyrir ríkissjóðinn. Hve mikið það verður vegna rýrnunar útsvaranna, skal jeg ekki um segja, því að jeg hefi ekki nein gögn í höndum um það. Aftur á móti hefi jeg gert mjer dálitla grein fyrir því, hverju þetta muni nema að því er fjallskilin snertir, því að um það hefi jeg aflað mjer upplýsinga. Það mun láta nærri, að af bæjum þeim, sem hjer er um að ræða að banna fjárrækt á, fari 18 menn í leitir á hverju hausti, og nú er leitað þrisvar sinnum. Verða því samtals af þessum bæjum 54 dagsverk til fjallskila á haustin, auk eftirleita og annara haustsmalana. Til þess að bæta hreppnum það upp, myndi því þurfa fullar 500 kr. árlega. En jeg býst ekki við, að það myndi nægja, því að oft verður að gera eftirleitir á afrjettir á haustin, sem sennilega yrði líka að bæta hreppnum upp. Og auk þess yrði ríkissjóður að annast smalamensku á hinu friðlýsta landi. Þá leiðir og af sjálfu sjer, að hann verður líka að annast eyðingu refa á svæði þessu. Jeg fæ því ekki annað sjeð en allverulegur útgjaldaauki fyrir ríkissjóð fylgi þessari friðun líka að þessu leyti, að það sje hreint og beint fjarstæða að ætla að fara að gera svo víðtækar og mikilfenglegar ráðstafanir á Þingvöllum, sem hjer er farið fram á, og það því fremur, sem þetta verður engin friðun.

Það eina skynsamlega í þessu máli er að friða það svæði, sem jeg gat um í upphafi ræðu minnar. Það er kleift kostnaðarins vegna og innan þess er öll hin forna þinghelgi, og auk þess langfallegasta skógarsvæðið, sem til er í Þingvallahrauni. Og með því móti þarf ekki að grípa til þess, sem jeg kalla óyndisúrræði, að leggja niður fleiri býli á svæði þessu. Mál þetta horfir því þannig við frá mínum bæjardyrum sjeð, að jeg get alls ekki aðhylst þá stefnu, sem fram kemur í frv., að leggja fleiri jarðir í eyði og ráðast í lítt kleifan kostnað, sem fyrirfram er sjeð um, að lítinn árangur ber. Jeg mun því greiða atkvæði á móti frv.