04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Aðeins fáein orð um brtt. á þskj. 686 og 693. Það er álit minni hl. allshn., að þessar till. bæti frv. ekki, nema þá 1. liður till. hv. 2. þm. Árn. á þskj. 693. Hún bætir úr þeim galla, er jeg talaði um við 2. umr. Ef Þingvellir verða ekki friðaðir fyr en 1930, þá skil jeg ekki, til hvers á að fara að kjósa þessa nefnd strax. Það væri þá að minsta kosti nógur tími að gera það á þingi 1929. Hv. 2. þm. Árn. ætlast til þess, að lögin gangi í gildi strax á venjulegan hátt. En jeg skil ekki, hvernig á að framkvæma þau. Er ætlast til þess, að bændur eigi að smala fje sínu burt af svæðinu á ákveðnum degi? Þarf ekki að gefa þeim einhvern frest til þess? Jeg sje, að hv. þm. hristir höfuðið. En yfir hverju? Gerir hann það yfir sínu eigin hugsunarleysi? Í frv. stendur, að landið skuli varið sauðfje og geitum. Ef lögin eru strax látin ganga í gildi og friðunin á að framkvæmast strax, hvað á þá að gera? Hv. þm. sagðist ekki vera einn um þessa brtt. sína. Hvort stjórnin veit um þetta eða ekki, skal jeg ekki um segja. (MT: Jeg skýrði frá því, að það hefði verið utanþingsmaður, sem samdi hana með mjer). Það getur verið. En það er þessi galli á till., um að lögin komi strax í gildi, sem er svo fráleitur, ef 1. gr. verður jafnframt breytt. Að því leyti er þó betra að samþ. brtt. meiri hl. allshn., því þar er þó ekki gert ráð fyrir, að ákvæðið um friðunina gangi í gildi fyr en 1930. Aðeins gert ráð fyrir, að sá hluti frv., er fjallar um nefndarskipunina, gangi í gildi strax. Það er að vísu óþarft, en þó ekki beinlínis skaðlegt. Að öðru leyti hefi jeg hið sama út á þetta frv. að setja og jeg hafði við 2. umr., að svæðið, sem friða á, sje óþarflega stórt og óþörf fjársóun að leggja þarna niður bestu bújarðir.