04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

23. mál, friðun Þingvalla

Magnús Torfason:

Mjer er aldrei um það gefið að tala þrisvar við sömu umræðu mála. Vona, fyrst jeg er ekki langorður venjulega, að jeg verði það ekki heldur nú. Jeg þarf aðeins að leiðrjetta misskilning í ræðu hv. frsm. minni hl. Hv. þm. sagði, að samkvæmt 2. gr. frv. mætti ekki hafa neitt sauðfje eða geitfje á þessu svæði strax og lögin ganga í gildi. Nú vita það allir, að hugsað er til að verja þetta svæði með girðingu. En sú girðing verður ekki lögð á einum degi. Auk þess hafa þeir afnotarjett þessa lands, meðan ekki semst. Það verður því ekki hreyft við þessum mönnum fyr en samningar eru búnir, eða þá búið er að taka þetta eignarnámi, ef samningar ekki nást. Þá er það og eitt atriðið, sem kemur til greina, þegar samið er, hve lengi þeir megi vera þarna. Þetta eru því alt fyrirkomulagsatriði, sem nefndin ræður yfir. Jeg lít svo á, að ef svæði þetta á að geta orðið alfriðað frá ársbyrjun 1930, þá muni ekki veita af því að fara nú þegar að undirbúa það, að svo geti orðið. Þegar svo getur farið, að eignarnám þurfi að fara fram, að undangengnum árangurslausum samningum, þá mun ekki veita af þessum tíma. Það er og best, að lögin sjeu ákveðin í þessu efni frá byrjun.

Jeg verð því, eftir að hafa heyrt þessi ummæli háttv. 1. þm. Skagf., að halda fast við það, að full þörf sje á því, að þessi síðasta till., um að lögin öðlist gildi þegar í stað, verði samþ.