04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

23. mál, friðun Þingvalla

Magnús Jónsson:

Mjer finst, að þessi síðustu deilumál manna sjeu farin að verða hálfgerðar deilur um keisarans skegg. Jeg lít svo á, að þegar alls er gætt, verði ekki komist hjá því að kom upp þjóðgarði eða friðlýsa svæði á Þingvöllum. Saga og lega Þingvalla gerir það að verkum, að óhjákvæmilegt mun að friðlýsa landið, og tjáir ekki að spyrna móti því. Og hátíðin 1930 gerir það að verkum, að nú mun þessi friðlýsing komast í framkvæmd á næstunni. Vegna þeirra hátíðahalda þyrfti að vísu ekki annað en Þingvallanefndin hefði landið til umráða nokkru áður en hátíðahöldin byrjuðu og á meðan á þeim stæði, en þá vaknar um leið sú spurning í huga manna, hvort ekki væri rjettast að friða Þingvelli til langframa og hefja undirbúning þess jafnframt hinu.

Annað mál er það, að mjer þykir svæðið, sem friða á, of stórt, þótt það hafi nú verið minkað nokkuð, en þó get jeg ekki miklað það atriði svo mjög fyrir mjer. Hygg jeg langmest undir því komið, hvernig lögin verða framkvæmd. Menn hafa talað um þetta eins og þarna þurfi geysilega stórar girðingar, leggja jarðir í rústir o. s. frv. og eyða til alls þessa ógrynni af fje. Þetta fer auðvitað alt eftir því, á hvern hátt Þingvallanefndin starfar. Jeg fyrir mitt leyti vildi helst láta friða mjóu skákina, sem gamla Þingvallanefndin markaði með rauðu á kort það, sem hjer hefir verið til sýnis, en jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, og heldur ekki það, hvenær lögin öðlast gildi. — Mjer dettur heldur ekki í hug, að undireins og lögin eru samþ. þurfi að rjúka í það að reka burt alt kvikt af þessu svæði. Það þarf auðvitað ekkert annað en að þetta friðlýsta svæði verður sett undir umsjón sjerstakrar nefndar, sem á að sjá um, að alt sje þar eins og þarf að vera. Þeirri nefnd verður fengið afarmikið vald í hendur og hún getur auðvitað beitt því svo heimskulega, að mikill usli og kostnaður hljótist af, en hún getur líka starfað með þeirri lipurð, að hægt sje að koma þessu í kring smámsaman og án þess að menn verði mikið varir við það. T. d. dettur mjer ekki í hug, að nauðsynlegt sje að girða þegar alt svæðið, enda segir í frv., að landið skuli varið fyrir ágangi af sauðfje og geitum, eftir því sem fært kann að reynast og Þingvallanefnd ákveður. Þetta er því eins og annað lagt í vald nefndarinnar, hve langt hún vill fara í þessu efni. Teldi jeg það algert óráð að afgirða alt svæðið, nema því aðeins, að það hefði verið nákvæmlega rannsakað fyrirfram, hve kostnaðarsamt það yrði.

Jeg er ekki svo kunnugur þarna, að jeg geti sagt um það, hvort nauðsynlegt sje að girða alt svæðið, en jeg álít, að fyrst mætti að minsta kosti girða minni svæði, eins og þar sem nefndin áliti, að best væri hægt að koma til skógi. Verður þetta sem annað að fara eftir áliti nefndarinnar. — Sama er að segja um bændurna í Skógarkoti og Hrauntúni; nefndin gæti látið það ganga svo hægt fyrir sig, að ekki þyrfti að sópa öllu burt þaðan í einu. M. ö. o., alt byggist á því, hve lipurlega nefndin fer með sitt vald. Jeg mun því fylgja frv. í því trausti, að nefndinni takist vel að framkvæma lögin, og einnig sökum þess, að jeg er viss um það, hvort sem Þingvellir verða friðaðir nú eða ekki, þá rekur að því, að þess verður krafist, að Þingvellir verði friðlýstir fyr eða síðar.

Einstök atriði frv., eins og heimildina til þess að taka gestagjald á Þingvöllum, mun jeg ekki ræða. Hitt er ákaflega leiðinlegt, ef taka þarf gjöld, sem menn láta sig nokkru muna, og teldi jeg það illa farið, ef gjöldin yrðu til þess, að Þingvellir yrðu lakari til skemtistaðar en þeir nú eru. Hinsvegar sje jeg ekkert á móti því, að þessi heimild sje veitt, því að það getur verið ástæða til þess að taka þessi gjöld við viss tækifæri, og vil jeg því ekki leggja fast á móti þessu atriði. Jeg hefi ekki fylgst svo vel með umr., að jeg viti fyrir víst, hvernig stjórnin hefir hugsað sjer framkvæmdir þessa máls, en þó hygg jeg, að ekki muni ætlun hennar að fylgja þeim með meiri strangleika en jeg hefi hjer lýst, og get jeg því fylgt málinu. Ennfremur álít jeg það aukaatriði, hvort lögin koma öll til framkvæmda nú eða 1930. Aðalatriðið er, að Þingvellir komist undir stjórn þingsins; alt annað fer eftir því, hvernig Þingvallanefnd kveður á í þeim efnum.