04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

23. mál, friðun Þingvalla

Magnús Jónsson:

Eftir ræðu hæstv. dómsmrh. hefi jeg litlu við að bæta. Það er rjett, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það er auðvitað ekki alveg sama, hvort höfð er aðferð hv. 2. þm. Árn. eða nefndarinnar, en jeg hygg samt sem áður, að þegar til reyndarinnar kemur, verði niðurstaðan hin sama, svo framarlega sem Þingvallanefndin fer að með þeirri lipurð, sem álíta má, að hún hljóti að beita.

Hv. þm. talaði þannig, að honum fyndist annaðhvort verða að girða alt svæðið eða ekkert. Það finst mjer ekki nauðsynlegt, og hygg jeg, að girða mætti minna svæði fyrst, þótt aðalgirðingin yrði ekki sett, sem gera mætti ráð fyrir, að yrðu margir kílometrar að lengd.

Jeg hefði, eins og jeg sagði áðan, heldur kosið, að hið friðlýsta svæði hefði verið tiltekið minna, en ef stóra svæðið verður tekið alt, þurfa framkvæmdirnar að þokast áfram hægt og hægt, eftir því sem nefndin álítur tiltækilegt og skynsamlegt að gera. Sje jeg ekki, hvernig hægt væri að framkvæma friðun Þingvalla öðruvísi en að fela hana lipurð og dómgreind tilkvaddrar nefndar, og jeg álít, að lagabókstafurinn sje ekki eins veigamikið atriði og það, að Þingvallanefndin beiti valdi sínu á sem skynsamlegastan hátt.