03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Jónsson:

Jeg ætla stuttlega að gera grein fyrir brtt. þeim, sem jeg flyt á þskj. 353.

Það er þá fyrst 9. brtt. á því þskj. Hún er orðuð svo, að ekki er von, að menn geri sjer í fljótu bragði grein fyrir, hvað í henni felst.

Þar stendur aðeins: „Til kenslu í söng 1200 kr.“ Þetta er svo til komið, að stúdentar í guðfræðideild háskólans hafa farið fram á það, að söngkennara einum hjer í bænum væri veittur þessi styrkur til þess að hann geti kent þeim söng. Í guðfræðideild háskólans hefir farið fram kensla í tóni og sálmasöng. Stúdentar hafa lært tónlögin og iðkað sálmasöng. Þeirri kenslu hefir verið misjafnlega uppi haldið, því að það er í raun og veru ekki svo mikið, sem menn þurfa að læra í þessu til þess að geta rækt starf sitt. En það, sem þessi brtt. fer fram á, er fólgið í því að kenna mönnum að beita röddinni rjett og gera hana sem hljómmesta og fegursta.

Nú stendur svo á, að völ er á ágætum söngkennara, Sigurði Birkis, til þess að kenna þetta. Hann hefir notið ágætrar kenslu í söng og hefir orð á sjer fyrir að vera fyrirtaks söngkennari. Þegar litið er á það, hvernig starf prestanna er metið, að bæði er litið á það, hvernig þeir eru í stól og hvernig þeir eru fyrir altari, þá er eðlilegt, að mikið sje leggjandi upp úr því, að þeir hafi lært alt, sem til hvorstveggja þarf. Nú miðar nálega öll guðfræðikenslan að öðrum þessum þætti í starfi prestsins í kirkjunni, en þá virðist ekki fjarstæða að fara fram á nokkurn styrk til þess að rækja einnig kenslu í hinu atriðinu.

Þess vegna er söngkenslan í guðfræðideildinni mjög áríðandi þáttur í undirbúningi stúdentanna undir prestsstarfið.

Auðvitað gerir sú kensla engan ósöngvinn og raddlausan mann að góðum söngmanni, en fyrir hina, sem geta sungið, er hún mjög æskileg. Það er naumast fyr en nú, þegar Sigurður Birkis settist að hjer í bænum, að völ er á góðum söngkennara.

Nú hafa nokkrir stúdentar úr guðfræðideild brotist í því að kaupa sjer tímakenslu í söng hjá þessum kennara. Og það er þeirra reynsla frá þessum söngtímum, sem verður til þess, að farið er fram á, að Alþingi veiti þennan styrk. Jeg vil nú mæla með þessari beiðni, því að hún er stúdentunum í guðfræðideild til stórhagræðis og er í raun rjettri námsstyrkur til þeirra. Söngkennarinn, Sigurður Birkis, hefir boðist til þess, ef hann fær þennan styrk, að láta þá hafa kenslu í söng fyrir miklu vægara verð en hann tekur annars fyrir tíma, bæði af því að hann hefir áhuga fyrir þessari kenslu og af því að þetta eru að nokkru leyti fastar tekjur fyrir hann.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þessa brtt., en vona, að hv. fjvn. leggist ekki á móti henni svo fast, að hv. þdm. treystist ekki til að greiða henni atkv.

Þá á jeg og 22. brtt. á sama þskj., um 3000 kr. byrjunarstyrk til þess að rita og styðja að útgáfu ítarlegrar Sögu Íslands. Jeg skal geta þess þegar, til þess að villa engan, að þetta er aðeins fyrsta fjárveiting af mörgum, sem vafalaust mundu fylgja á eftir í þessu sama skyni.

Það er dálítið undarlegt, að ekki skuli vera til nein sæmilega fullkomin Íslandssaga. Það eru að vísu til tvö mikil sögurit, kirkjusaga Finns biskups Jónssonar, rituð á latínu, og Árbækur Espólíns. En bæði þessi rit eru nú úrelt og enda ófáanleg í bókaverslunum fyrir löngu. En frá síðari tímum eru ekki til nein sögurit, nema annarsvegar stuttar og ófullkomnar kenslubækur fyrir alþýðuskóla og hinsvegar nokkur vísindarit um einstök tímabil, sem hafa að bjóða ítarlegri og sjerstakari fróðleik og eru líka dýrari en svo, að almenningur geti notið þeirra.

Jeg ætla nú ekki að fara út í skraddaraþanka um nauðsyn þess að eiga sögu okkar skráða, en jeg held, að flestum muni finnast það varla vansalaust fyrir okkur, sjálfa söguþjóðina, að hún skuli engin til vera.

Við getum litið til frændþjóða okkar í þessu efni. Norðmenn hafa fyrir löngu skráð sína sögu, og Danir eiga mjög gott og skilmerkilegt rit, „Danmarks Riges Historie“, og eru nú víst að gefa út 2 Danmerkursögur stórar.

Menn kunna ef til vill að segja, að okkar saga sje slík eymdarsaga, að þess vegna sje ekki ástæða til að halda henni á lofti. Jeg vil segja, að okkar saga sje svo stórmerkileg, að það sje full ástæða til að halda henni á lofti. Hún er að vísu engin landvinninga saga, því að Íslendingar hafa yfirleitt gert lítið að því að leggja undir sig lönd og bý og brytja niður blámenn og berserki.

En sagan um það, hvernig þjóðin hefir nú samt hjarað hjer á hala veraldar og geymt menningu sína gegnum allar eymdir og basl, sú saga held jeg, að sje ekki ómerkileg. Það hefir og verið sagt, að Íslendingar hafi gaman af sögum og sögnum, svo að þeim ætti þá ekki að þykja leiðinlegt að lesa sína eigin sögu. Enda ættum við Íslendingar síst að amast við sagnaritun, því að það er einmitt hún, sem við erum frægir fyrir um allan heim — og ekkert annað. —

Jeg veit, að það muni aðallega verða tvenskonar örðugleikar á þessu verki. Annarsvegar eru örðugleikarnir á því að fá söguna vel ritaða, og hinsvegar á því að fá hana gefna út í svo ódýrri útgáfu, að allur almenningur geti eignast hana. Því að jeg vil leggja áherslu á það, að bókin verður að vera við alþýðu hæfi, um leið og hún er ítarlegt fræðirit.

Jeg hygg, að vel sje hægt að fá bókina sómasamlega skrifaða, með því að skifta niður verkinu milli þeirra manna, sem lærðir eru í sögunni, og þá má fá nóga menn, sem prýðilega rita.

Hitt atriðið, hvernig hægt er að koma slíku verki út svo ódýru, að allur almenningur geti eignast það, er mjög einfalt mál. Það þarf að styrkja útgáfuna með fje, og því ríflegar sem það er gert, því ódýrari verður bókin.

Það hefir verið ráðgert, að bókin verði 10 bindi og hvert bindi 25–30 arkir; verður því farið fram á 10 sinnum þessa fjárupphæð í þau tíu ár, sem bókin er að koma út. Ef þessi styrkur, sem hjer er farið fram á, væri veittur, mætti vænta þess, að sáttmálasjóður háskólans sæi sjer fært að leggja eitthvað á móti, og ætti þá að vera hægt að selja hvert bindi á 10 krónur í ljereftsbandi, svo að allir þeir, sem vilja og óska, geti eignast bókina.

Þeim, sem hugsa, að það sje óþarfi að hafa þessa Íslandssögu svona stóra, get jeg sagt það, að því fer svo fjarri, að hjer sje um langa Íslandssögu að ræða, í samanburði við efnið, sem um er ritað, en ritið verður bæði miklu gagnlegra og skemtilegra með því að hafa frásögnina lausa við allan flaustursbrag, en á hinn bóginn verður líka að sneiða hjá því skeri að gera hana óaðgengilega sakir of mikillar lengdar. Menn geta sannfærst, að saga þessi er ekki ýkjalöng, ef þeir athuga, að hinn mikla ritverki Páls Eggerts Ólasonar, sem er í fjórum stórum bindum, verður hjer þjappað saman í eitt bindi, ekki stórt. Af þessu sjest, að ekki á að teygja lopann, en orðið hefi jeg var við vantrú á því, að hægt yrði að skrifa bókina vísindalega, þar sem plássið yrði ekki meira en þetta. Ef ritið hinsvegar yrði haft styttra, yrði það vart annað en þurt registur viðburða og ártala.

Náttúrlega má segja, að ekki sje tímabært að veita þetta fje, á meðan ekkert fjelag er myndað í þessum tilgangi; en það er varla von, að slíkt fjelag sje myndað fyrr en fjeð er fengið. Og ef þessi fjárveiting verður samþykt, má ganga að því vísu, að nokkrir áhugamenn taki höndum saman og kjósi framkvæmdarnefnd til að hrinda þessu áfram, en kenslumálaráðuneytið ætti að hafa umsjón með styrknum og greiða einungis styrk fyrir þau bindi, sem út eru komin. Enda er ekki að því komið, að þessi fjárveiting sje handbært fje, þar sem þessi fjárlög eru fyrir árið 1929.

Jeg hefi gert ráð fyrir, að sáttmálasjóður sæi sjer fært að veita t. d. 2000 kr. fyrir hvert bindi, svo að styrkurinn yrði 5000 kr. alls á hvert bindi, og færi fyrir ritlaun, landsuppdrætti, myndir og annan aukakostnað, svo að útgefendur þyrftu aðeins að sjá fyrir prentun, pappír og öðrum vanalegum kostnaði. Jeg vil ekki þreyta með því að fjölyrða meir um þetta, en jeg er þess fullviss, að verði þetta gert, mun bæði Alþingi og Sáttmálasjóður hafa sóma af. Slíkt rit sem þetta verður lesið upp til agna af 1–11/2 kynslóð, enda kemur það til með að bera af hinum mörgu ómerkilegu bókum, sem nú eru gefnar út, og standa út úr eins og áður gerðu Árbækur Espólíns og kirkjusaga Finns biskups.

Þá er enn brtt. frá mjer. Hún er í þrem liðum og eru tveir hinir fyrri út af orðabók Sigfúsar Blöndals. Fjvn. hefir bætt við þriðja liðnum út af orðabókinni og gert grein fyrir honum í nál., en hann gengur út á, að veittur verði 4000 kr. styrkur til orðabókarinnar, að því áskildu, að Danir greiði 8000 kr. Styrkurinn er greiðsla til orðabókarsjóðsins á láni, sem veitt var úr honum til þess að hægt væri að greiða til fulls kostnað við útgáfu bókarinnar samkvæmt fyrirfram gerðum samningi. En ríkjunum báðum ber siðferðileg skylda til að greiða þessar upphæðir. Mínar brtt. eru í raun og veru náskyldar till. fjvn., munurinn aðeins sá, að fjvn. leggur til, að borgað verði úr ríkissjóði það, sem beinlínis hefir staðið í samningum, en jeg legg til, að borgað verði það, sem sjálfsagt og sanngjarnt er að borga, nefnilega uppbót til Gutenbergprentsmiðju fyrir aukakostnað við prentunina og Jóns Ófeigssonar fyrir vinnu við bókina. Saga málsins er á þá leið, að þegar farið var að prenta orðabókina, voru gerðir samningar við Gutenberg um prentunina, eins rýmilegir og prentsmiðjan sá sjer fært, og við Jón Ófeigsson um prófarkalestur. Samningarnir voru gerðir út í bláinn og engin vissa, hve bókin yrði stór eða dýr, en þeir voru gerðir í því trausti, að ríkin tvö stæðu á bak við og myndu ekki þröngva kosti þeirra, er að bókinni ynnu.

Það, sem skifti máli fyrir Gutenberg, var það, að í samningunum var ekki gert ráð fyrir neinni aukaþóknun fyrir breytingar á próförkum, svo sem þó er venja til. Það var gert ráð fyrir, að breytingarnar yrðu ekki miklar, en svo fór, að þegar fyrsta próförk var sett, var hún send til ýmissa fræðimanna, er gerðu sínar tillögur, sem svo Jón Ófeigsson vann úr og færði inn á prófarkirnar. Varð þetta til þess, að próförkunum var með öllu umsteypt, og hafði það geipilegan aukakostnað í för með sjer fyrir prentsmiðjuna. Hjer við bættist svo það, að laun prentara hækkuðu á tímabilinu, svo að prentsmiðjan beið mikinn halla, sem hún reiknar sjer miklu meiri en þeirri uppbót nemur, er hjer er farið fram á. (HG: 33 þús. kr.). Já, það stendur heima. Í minni till. er gert ráð fyrir 20 þús. kr. uppbót. Jeg vildi ekki fara lægra og finst þetta sanngjörn krafa, þó að ekki sje hún lagar leg. Það er kunnugt, að prentsmiðjan leysti verk sitt snildarlega af hendi, svo að hliðstætt prentþrekvirki er ekki hjá okkur, að Guðbrandsbiblíu undantekinni, sem var snildarverk á sínum tíma. satt að segja bjóst jeg ekki við, að hægt væri að prenta bókina hjer heima með svo góðum frágangi. Auk þess, sem nú er talið, situr prentsmiðjan með mikið eftir af letri; það varð að hafa einar átta arkir undir í einu, og er varla hægt að hugsa sjer slíka leturmergð, auk þess sem erfitt er að taka „typurnar“ sundur aftur, og mun jafnvel ekki lokið enn.

Samningurinn, sem Jón Ófeigsson gerði, var miðaður við 4 kr. á klukkustund. Er sú borgun miðuð við tímakenslukaup, og er það sannarlega ekki ofborgun fyrir annað eins verk. Nú reyndist vinna sú, er Jón Ófeigsson leysti af hendi, meiri en við var búist, svo að hann fjekk ekki nema sem svarar 2 kr. fyrir tímann, og fer hann því fram á, að sjer verði veitt uppbót, sem nemi því, að hann hefði fengið 3 kr. fyrir klukkustundina. Mín tillaga gengur út á, að hann fái 10000 króna uppbót, sem skiftist í fjórar greiðslur, en uppbótin til Gutenbergs skiftist niður í fjórar greiðslur, sem hver sje 5000 kr., eða 20 þús. kr. alls. Er þetta gert, svo að það sje aðgengilegra fyrir ríkissjóð.

Jeg vildi óska, að Alþingi væri svo víðsýnt og svo stórmannlegt að borga þetta möglunarlaust, og jeg er viss um, að orðabókin verður einn af stærstu bautasteinunum, sem síðari kynslóðir sjá yfir moldum okkar kynslóðar. Það eru tvö slík mál, sem jeg hefði viljað styðja af alefli; hitt voru landmælingar Generalstabens, er því miður fjellu niður og voru mikið menningarmál.

Um 3. lið þessarar seinni till. minnar, sem fjallar um styrk til Barða Guðmundssonar, hefi jeg lítið að segja annað en mæla hið besta með henni. Jeg býst við, að allir kannist við nafnið, og jeg segi það hiklaust, að maðurinn er að mínu viti frábær í þessari grein og hefir mikla og góða hæfileika til sagnfræðiþekkingar. Jeg kyntist Barða í mentaskólanum, og var það óvenjulegt um hann, að hann hafði ekki aðeins lagt stund á Sögurit þau, sem kend eru þar í skólanum, heldur hafði hann einnig lesið mörg stór sagnfræðirit, t. d. Fornbrjefasafnið, Munk, Keyser, Maurer o. fl., enda hefi jeg aldrei þekt annað eins „fenomen“ í sögu. Jeg skal ekki spá neinu um það, hvað úr hæfileikum Barða verður, þegar hann hefir lokið prófi, en hann fer þá illa með góðar gáfur, ef ekki verður mikið úr honum. Barði er svo einhæfur, að honum ætlaði að ganga erfiðlega að ljúka stúdentsprófi vegna áhugaleysis á stærðfræði, en það eru oft einhæfustu mennirnir, sem skapa stærstu verkin og merkilegustu.

Faðir Barða mun vera sæmilega efnaður maður, enda hefir hann styrkt son sinn mikið. Sjálfur er Barði kvæntur og á við erfiðan hag að búa. Hann er nú að lesa undir próf og jafnframt að semja ritgerð um tímatal til forna; mun hann hugsa til þess að hljóta doktorsnafnbót samtímis því að hann lýkur embættisprófi. Barði hefir sent mjer ritgerð eftir sig um kafla úr sögu Svíþjóðar, og er þar sumt svo skarplega ritað og rökfast, að vart mun það haggast, þó að á ný sje það rannsakað. Jeg spái engu um það, hvort þessar 1200 kr. koma að gagni, en hæfileikar Barða eru svo ótvíræðir, að sjálfsagt virðist að veita styrkinn.

Jeg hefði ef til vill viljað drepa á fleiri till., en úr því að svo mjög hefir teygst úr þessu fyrir mjer, vil jeg ekki tefja aðra þm. með því að tala lengur.