04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

23. mál, friðun Þingvalla

Pjetur Ottesen:

Það hefir nú komið fram við þessa umr. hjá þeim hæstv. dómsmálaráðherra og háttv. 1. þm. Reykv., að það sje nú eiginlega ekki meiningin að fylgja ákvæðum frumvarpsins, ef það verður samþ., eða gera jafnvíðtækar ráðstafanir og heimild er til í frv. Skildist mjer einkum á hv. 1. þm. Reykv., að hann bygði vonir sínar á því, að sú nefnd, sem kosin verður, tæki málið slíkum tökum. Nú er ómögulegt að segja um það, hvaða tökum hin fyrirhugaða nefnd tekur á þessu máli. Álít jeg og, að nefndin sje bundin af ákvæðum laganna um framkvæmdir þessa máls, en ekki því, þótt raddir hafi heyrst um það í þinginu, að æskilegt væri, að þær væru á annan veg en lögin mæla fyrir.

Jeg álít, að það verði að ganga út frá því, að framkvæmdirnar verði eftir bókstaf laganna, og með það fyrir augum get jeg ekki greitt málinu atkvæði. Jeg gerði grein fyrir því við 2. umr. þessa máls, hve langt jeg vildi ganga um friðun Þingvalla, en þótt svæðið hafi nú verið nokkuð minkað frá því, sem var í frv. eins og það var flutt af hæstv. dómsmrh., er hjer gengið miklu lengra en jeg tel, að rjett sje og hyggilegt að gera. Þar að auki er jeg þess fullviss, að aldrei muni hægt að koma við fullri friðun á þessu svæði, hversu mikið sem lagt er í kostnað. Ef framkvæma á ákvæði frv., má skifta aðalkostnaðinum niður í þrjá liði. Fyrst og fremst er girðingarkostnaðurinn. Auk stofnkostnaðar, sem yrði mjög mikill við að girða alt svæðið, má gera ráð fyrir, að árlegt viðhald á girðingunni verði stór út gjaldaliður. Í öðru lagi skaðabætur til bænda, sem á jörðunum eru, fyrir að vera sviftir rjetti til þess að reka fjárbúskap á jörðunum, en sauðfjárræktin er, eins og kunnugt er, aðalnytjar jarðanna. Í þriðja lagi verður að borga hreppnum mjög háar skaðabætur fyrir rýrnun útsvara og íþynging fjallskila, því með því að leggja með öllu niður sauðfjárbúskap á sex býlum, þyngir vitanlega mjög um fjallskil á þeim, sem eftir eru, og það svo, að ekki nær nokkurri átt að ætla þeim að taka þann þunga á sig; ríkissjóður verður því að leggja fram fje, sem á vantar, svo int sjeu af hendi full fjallskil, og er ekki of í lagt, þó gert sje ráð fyrir, að þessi kostnaður nemi um 1000 kr. á ári. Er þá ótalinn kostnaður við eftirlit á Þingvöllum, kostnaður við refaveiðar og vitanlega margt fleira.

Það þarf enginn að ganga þess dulinn, að hjer er um stór útgjöld að ræða, og eiginlega ekkert nema kostnað. Jeg legg ekki mikið upp úr því, eða þeim röddum, sem heyrst hafa nú á síðustu stundu um það, að dregið verði úr framkvæmdum þarna. Jeg býst þvert á móti við því, að ítrasta bókstaf laganna um framkvæmdir verði fylgt og þetta knúið áfram eins og frv. nú gegnum þingið.