08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

141. mál, bankavaxtabréf

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil ekki láta þetta frv. hæstv. stjórnar ganga svo til nefndar, að jeg ekki láti því fylgja nokkur orð, út af ræðu hæstv. fjmrh. Jeg get ekki tekið undir það, sem hann sagði í framsöguræðu sinni, heldur þvert á móti verð jeg að mótmæla af öllum huga aðalinnihaldi ræðu hans. Það, sem jeg held, að mest stuðli að dýrtíðinni hjer, háum embættislaunum og þá líka verkakaupi, er einmitt fyrirkomulag lánsstofnananna og lánsaðferðir þeirra hjer við sjávarsíðuna. Það er langt frá, að hjer fáist næg lán, heldur mundi þurfa margar miljónir króna til að fullnægja lánsþörfinni. Og það þótt fullkomnar tryggingar sjeu í boði. Þeir tveir aðalgallar eru á frv. að mínum dómi, að ekki er ákveðið að taka lán til að kaupa brjefin, og að ekki eru gerðar ráðstafanir til að veita hærri lán út á fasteignir en nú er. Nú fást ekki lán í veðdeildinni nema út á ¼ af sannvirði fasteigna, þegar afföll brjefanna eru dregin frá, og verða menn þá að leita til einstaklinga og taka lán oft gegn okurvöxtum. Það er ljóst, að ekki geta lán með afarkostum orðið til að lækka húsaleiguna. Að öðru leyti hefi jeg ekki neitt við frv. að athuga, en mun síðar í nefnd reyna að koma að við það breytingum.