08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

141. mál, bankavaxtabréf

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil taka í sama streng og hv. 2. þm. Reykv. Það yrði áreiðanlega mjög erfitt að fá lán út á fasteignir, þótt heimild fengist til að gefa út nýja flokka bankavaxtabrjefa. Því það er vitanlegt, að markaður fyrir slík brjef er mjög takmarkaður hjer á landi, einkanlega síðan ræktunarsjóður fjekk heimild til að gefa út slík brjef, því margir munu heldur kaupa þau, og munu þessi því sitja á hakanum. Það er og svo lítið lánað út á fasteignir, að víst er, að ríkissjóður bíður ekki halla, þó sú leið væri farin, að taka lán til að kaupa brjefin. Svo var gert árið 1909, að landssjóði var heimilað að taka lán. Fer því fjarri, að hann hafi tapað á því láni, en með því hefir hann ljett undir með mörgum manni að koma sjer upp nauðsynlegum húsum eða gera umbætur á jörðum sínum. Jarðarlánin hafa verið látin ganga fyrir húsabyggingalánum. Jeg skal ekkert um það segja, að það hafi ekki verið rjett, en hinsvegar er nauðsyn á, eins og hv. 2. þm. Reykv. hefir tekið fram, að trygt verði, að hægt sje að fá lán út á eignir í Reykjavík og öðrum kaupstöðum.