08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

141. mál, bankavaxtabréf

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg fæ ekki skilið, hvernig það getur verið hættulegt fyrir ríkissjóð að taka á sig ábyrgðir, ef fullar tryggingar koma á móti, og meðan hæstv. ráðh. getur ekki sýnt fram á, að lánað hafi verið út á ónógar tryggingar eða fje hafi tapast fyrir þær sakir, sje jeg ekkert athugavert við að halda áfram sama lánsfyrirkomulagi.

Að lánað hefir verið mest til sjávarsíðunnar, er ekki af því, að kaupstaðirnir hafi setið fyrir lánum. Lán til bænda hafa gengið fyrir húsabyggingalánum til kaupstaðanna. En meginþorri lánanna hefir eigi að síður farið til þeirra, af því að stóratvinnureksturinn er þar, framkvæmdir flestar og framfarir og þörfin fyrir lánin og getan til þess að standa straum af þeim að sjálfsögðu mest þar. Hæstv. fjmrh. gat þess, að óheppilegt væri að auka lánsfjeð til Reykjavíkur, þessarar eyðimerkur, er hann nefndi svo. Það sýnir sig, að Reykjavík gefur þrátt fyrir alt meira af sjer í ríkissjóð eftir mannfjölda en nokkur staður annar og hefir meiri framleiðslu en nokkur annar fiskiveiðabær hjerlendis, að undanskildum kannske Vestmannaeyjum. Ef Reykjavík væri orðin að eyðimörk, eins og hæstv. ráðherra segir, þá hygg jeg, að lítið yrði eftir af tekjum handa ríkissjóði, og sveitirnar, sem hæstv. ráðherra virðist einar vilja láta sitja að peningastraumnum, mundu þá varla verða sá sælunnar reitur, sem margir mundu óska.

Á meðan Landsbankinn lánar fjeð úr veðdeildinni svo út, að fullar tryggingar komi á móti, þá sje jeg ekki neina hættu á ferðum, hvorki fyrir veðdeildina sjálfa nje heldur ríkissjóð.