03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi segja fáein orð, bæði til skýringar einstökum liðum í fjárlagafrv. og til þess að svara ræðu hv. þm. Borgf. (PO). Það vill svo til, að hann mintist á tvö eða þrjú atriði, sem jeg átti þátt í að koma inn í stjfrv. Jeg kem þá fyrst að húsmæðrafræðslunni. Það er öllum kunnugt, að mjög lítið hefir verið gert til þess að efla hana til þessa. Dálítil byrjun í þá átt er hinn litli skóli á Staðarfelli, sem settur var af stað í fyrra. Jeg geri ráð fyrir, að hann haldi áfram með líku sniði og nú, ekki mjög stór. Jeg býst við, að forstöðukonan álíti nóg áskipað að hafa þar 15–20 námsmeyjar. Það segir ekki mikið fyrir heilan fjórðung.

Blönduósskólinn má kallast hafa verið ríflega styrktur, og tel jeg það ekki eftir. Sá skóli er að vísu með nokkuð öðru sniði en reglulegur húsmæðraskóli, því að hann er bóklegur að miklu leyti.

Jeg hefi átt talsverðan þátt í að breyta hlutfallinu, sem hv. þm. (PO) mintist á. Jeg álít, að á næstu árum þurfi að koma á stofn húsmæðrafræðslu í sambandi við unglingaskóla í sveitum og koma upp skólaeldhúsum í kaupstöðunum. Þó að hjer í Reykjavík geti 24 stúlkur á vetri — þar af margar utan af landi — fengið húsmæðrafræðslu, þá hefir það nauðalítið að segja fyrir bæinn.

Eftir því sem áhugi og skilningur vex í þessum efnum, hlýtur að draga nær því, að Reykjavík fái sína vinnustofu í matargerð, án heimavistar, eins og nú er. Jeg hugsa mjer þetta stórt skólaeldhús, þar sem 100–150 stúlkur nytu kenslu á vetri í matreiðslu og hreinlæti. Þannig yrði það í stærri kaupstöðunum. Það er þegar komin byrjun til þessa á Ísafirði. Í sveitum er auðvitað ekki að tala um annað en heimavistarskóla. En það segja mjer konur, sem best vit hafa á þeim málum, að ekki sje æskilegt, að heimavistarskólar í hússtjórn sjeu mjög stórir. Því verður ekki neitað, að þessi tilraun á Staðarfelli sje tiltölulega mjög ódýr fyrir landið. Þessi 3000 kr. styrkur til Staðarfellsskólans er ekki stór. Jeg er sannfærður um, að hann þyrfti að vera 4000 kr. Borinn saman við hann er Blönduósskólinn miklu kröfuhærri.

Mín meining er sú, að vinna að því að koma upp 2–3 mismunandi stórum skólum. Húsmæðradeildin á Laugum verður mjög lítil, áætlað að hún taki aðeins 14–15 nemendur. Í öðru lagi á að leggja fram ofurlítinn styrk til þess að ef]a dálítinn vísi til húsmæðrafræðslu á Austurlandi.

Þriðji staðurinn er í Eyjafirði. Það mál stendur á gömlum merg og verður væntanlega leyst á næstu 2–3 árum.

Jeg vil skjóta því til hv. þm. Borgf., að það er síst of mikið gert fyrir húsmæðrafræðsluna í þessu landi.

Á Suðurlandi rís sennilega upp alþýðuskóli, hvort sem það nú verður eftir eitt eða fleiri ár; og alþýðuskólinn í Borgarfirði á að taka miklum stakkaskiftum á næstunni. Það stendur sem sje til að auka og bæta Hvítárbakkaskólann og helst flytja hann á einhvern „heitan stað“ í hjeraðinu. Jeg vil spyrja háttv. þm. Borgf., hvort hann haldi, að það verði of mikið, ef t. d. við Borgarfjarðarskólann starfi sjerstök húsmæðradeild með svo sem 15 námsmeyjum. Mín trú er sú, að ekki veiti af því. Þetta kemur hægt og hægt og þörfin verður meiri og meiri og augu manna uppljúkast fyrir því æ betur.

Það er óreiknanlegt það tjón, sem þjóðfjelagið hefir beðið fyrir vankunnáttu á þessu sviði. Og til þessa hefir verið mjög lítið gert af þjóðfjelagsins hálfu til þess að hjálpa til að koma í veg fyrir, að þjóðin bíði fjárhagslegan skaða og heilsuspilli af því, að húsmæður eiga ekki völ á nægilega góðri fræðslu, áður en þær takast á hendur sitt vandasama verk á heimilunum. Þær hafa ekki haft aðra möguleika en þann, er jeg hefi þegar um getið í Reykjavík.

Mjer finst ekki lítið í það varið, að nú er verið að byrja nýja leið í þessum uppeldismálum kvenna.

Það er nægilega erfitt fyrir hjeruðin, ef þau eiga að leggja fram helming kostnaðar til ungmenna- og húsmæðraskóla. Engum ætti að vera um. það kunnara en einmitt háttv. þm. Borgf., hve erfitt hefir verið að halda Hvítárbakkaskólanum uppi og hve mikið einstakir menn í hjeraðinu hafa á sig lagt í peningalegu tilliti til þess að standa straum af honum. Af því ætti hann að geta ráðið, hve miklum erfiðleikum þetta líka er bundið annarsstaðar.

Jeg lít svo á, að unglingaskólarnir sjeu nær því að hæfa þörfum þjóðarinnar heldur en búnaðarskólarnir. Þar er verið að leita eftir fyrirkomulagi, sem við megi una, en hjer hefir þjóðin reynslu, sem hún vill byggja á. Á næstu 3–4 árum ætti að vera hægt að reisa skóla á 4 stöðum í landinu. Mest er þörfin á skóla á Suðurlandsundirlendinu. Ef Borgfirðingar og Mýramenn hallast að því að selja Hvítárbakka og flytja skólann upp í hjeraðið að einhverjum hvernum, væri þar annar skólinn. Og svo eru Núpsskólinn og Laugaskólinn, fyrir utan Eiða, sem nú standa föstum fótum. Jeg hugsa ekki hærra en þetta, að hægt væri að grípa inn á þessum 4 stöðum.

Jeg legg alveg að jöfnu húsmæðrafræðsluna og unglingafræðsluna. Húsmæðrafræðsla er aðeins dálítil nauðsynleg viðbót við unglingafræðsluna.

Verkleg kensla ætti að vera meiri við unglingaskólana, smíðar o. s. frv.

Háttv. þm. (PO) var ekki ánægður með steinsteypukensluna, eða öllu heldur, að ekkert er tekið fram í frv. um það, hvernig henni skuli haga eða hvar hún skuli fram fara. Jeg ætla að nota tækifærið til þess að skýra það mál.

Halldór skólastjóri á Hvanneyri hefir um nokkurt skeið verið að hugsa um að koma á hjá sjer við skólann kenslu í steinsteypu. Hefir hann verið að ráðgast við þá Guðmund prófessor Hannesson og Guðjón húsameistara Samúelsson, en ekkert hefir enn orðið úr framkvæmdum.

Jeg hefi líka haft mikla trú á nytsemi slíkrar kenslu og ljet gera tilraun á Laugum í vetur. Aðstaðan er þar yfirleitt góð, og ljet skólastjórinn þar byggja torfhús, sem er hitað upp með hveravatni. Þarna steypa piltarnir daglega, og verða það alls yfir veturinn um 2000 steinar. Jeg lofaði skólastjóranum, að ríkissjóður skyldi leggja til sementið, komið í næsta kaupstað.

Þetta hefir gengið ágætlega, og ef vel gengur næsta vetur, ættu þeir að geta komið sjer upp leikfimihúsi úr steinum, er nemendur steypa sjálfir.

Með þessu er fundin upp ný leið til þess að byggja upp alþýðuskólana hjer á landi, og á þennan hátt geta skólarnir sjálfir smátt og smátt aukið nauðsynleg húsakynni sín, og jeg get sagt háttv. þm. Borgf. það, að jeg er þess fullviss, að ef Borgfirðingar flytja skóla sinn á einhverja hverajörð, þá muni þeir nota þetta ráð til þess að koma sjer upp skóla smátt og smátt, landinu að kostnaðarlitlu. Þannig ættu skólarnir að geta risið upp ár frá ári, eins og klaustrin áður fyr, sem munkarnir bygðu að mestu leyti sjálfir. En nú ætti það að verða svo, að nemendurnir reistu skólana. Og sú reynsla, sem þegar er fengin, sýnir, að þetta er meira en draumsýn, því hún bendir einmitt eindregið í þá átt, að þetta muni auðveldlega takast.

Jeg hefi þegar rætt um þetta á fjölmennum fundi á Akureyri og sömuleiðis á fundum, sem haldnir voru í stúdentafjelagi Reykjavíkur í haust og sem aðallega snerust um uppeldismál. Á báðum þessum stöðum fjekk þetta mál góðar undirtektir, og sjerstaklega. var því vel tekið af hinum háskólagengnu mönnum.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, er það ætlun mín, að sem flestir skólar verði bygðir þannig upp og stækkaðir, svo sem búnaðarskólar, Eiðaskólinn, Hvítárbakkaskólinn, Suðurlandsskólinn væntanlegi og gagnfræðaskólinn í Reykjavík, og jeg er að því leyti mótfallinn brtt. háttv. þm. Borgf., að jeg álít það ávinning fyrir þetta mál, að þessi verklega kensla fari sem víðast fram og komi þannig að mestum notum. Og þá fyrst álít jeg þetta komið í gott horf, þegar steinsteypa og trjesmíðar eru orðnar nokkurskonar heimilisiðnaður.

Þá kem jeg að brtt. þeirri, er 3 hv. þm. Alþýðuflokksins bera fram, þess efnis, að Slysavarnafjelagi Íslands verði veittar 10 þús. krónur. Um þetta er í sjálfu sjer ekkert nema gott að segja, en jeg vil aðeins taka það fram, að við væntanlega byggingu nýs strandvarnarskips mun verða lagt töluvert í kostnað við björgunartæki, sem á því eiga að verða, því þau skip, sem við höfum nú, eru ekki þannig úr garði gerð, að þægilegt sje að koma fyrir fullkomnum björgunartækjum á þeim. Og hvað Slysavarnafjelag Íslands snertir, þá er það ungt og óreynt, og því ekki vert að fara sjer að neinu óðslega með fjárveitingar til þess, fyr en það hefir sýnt í verkinu, hvað það megnar.

Þá hafa þeir háttv. þm. Borgf. og háttv. 2. þm. Skagf. lagt til, að lækkaður yrði um helming styrkur til Hljómsveitar Reykjavíkur. Það er nú að vísu svo, að hinn venjulegi styrkur til hennar er í raun og veru nægilegur. En vegna hátíðarinnar 1930 stendur dálítið sjerstaklega á með þetta, og það er fyrir eindregin tilmæli Þingvallanefndarinnar, að stjórnin hefir hækkað þennan styrk, og jeg geri ráð fyrir, að hann verði fljótlega lækkaður aftur, þá er hátíðin er um garð gengin.

Háttv. þm. V.-Ísf. hefir mælt með styrk til dr. Bjargar Þorláksdóttur, til þess að vinna að framhaldi sálfræðirannsókna sinna. Um þetta er ekki nema gott eitt að segja og jeg lít svoleiðis á þetta mál, að hjer sje aðallega að ræða um viðurkenningu til þessarar konu fyrir dugnað hennar, en geri ekki ráð fyrir, að það hafi mikil áhrif á andlegt líf hjer á landi, hvort þetta áframhald af doktorsritgerðinni kemur út eða ekki. En þessi kona hefir sýnt svo mikinn dugnað með því að leysa þetta af hendi, auk þess að hafa verið í hjónabandi í 20 ár og orðið að gegna þeim störfum, sem af því leiða, að mjer finst ekki nema sanngjarnt, að hún njóti þessa styrks í viðurkenningarskyni í 2 ár til þess að ljúka við þessa bók.

Loks kem jeg að liðnum um íþróttakensluna, sem háttv. þm. Borgf. getur ekki verið mjer sammála um, og vil jeg því segja fáein orð um þetta mál. Það kom til umræðu hjer í þessari hv. deild fyrir 2 árum, en var þá felt með litlum atkvæðamun. Síðan hefir þessi leikfimikennari unnið sjer og landi sínu slíkan orðstír, að slíkt hefir varla komið fyrir síðan í fornöld. Jeg á þar við för hans með leikfimiflokka sína til Noregs og Svíþjóðar.

Jeg býst við, að mörgum sje ókunnugt um það, að Björn Jakobsson hefir með elju og ástundun fundið upp nýtt leikfimikerfi, sem þykir bera af þeim kerfum, sem áður hafa verið notuð, og æft flokka sína svo vel, að þeir, sjerstaklega kvenflokkurinn, þykja bera af leikfimiflokkum annara landa.

Nú finst mjer, að háttv. þm. Borgf. ætti að meta slíka afburði að verðleikum og síst lasta það, er þessi maður vill yfirgefa rólegt og vel launað embætti hjer í Reykjavík og setja á stofn íþróttaheimili uppi í sveit í sambandi við einhvern alþýðuskólann, því það þarf ekki frekar að vera við Laugaskólann en einhvern annan skóla. Háttv. þm. ætti og að vera það umhugað um sveitirnar, að hann ætti ekki að hindra þær í því að njóta þeirra hollu áhrifa, sem íþróttir hafa á heilbrigði manna, en öllum, sem vit hafa á því, ber saman um það, að þær sjeu mjög til þess að auka heilbrigði. T. d. sagði Guðmundur Björnson landlæknir í ræðu nýlega, að eitt af því meinlegasta fyrir Íslendinga væri það, að hjer væri enginn íþróttaskóli til.

Jeg býst nú ekki við, að þessi skóli yrði mjög stór. Sennilega tæki hann 12–14 nemendur, en þangað mundu þeir fara, sem læra vildu íþróttir til fullnustu og sem hingað til hefðu orðið að leita til annara landa. En fyrir íþróttalíf í landinu mundi það hafa ákaflega mikla þýðingu að hafa slíkt höfuðsetur, þar sem hægt væri að fá fullkomna mentun í þeim greinum, enda má segja, að ekki veiti af því, því það er bæði skömm og skaði, hvað t. d. margir menn í snjóahjeruðum kunna illa á skíðum, eins og það getur þó verið nauðsynleg íþrótt, jafnframt og hún er skemtileg. Úr þessu mundi íþróttaskóli bæta. Og það er víst, að heilsufar mundi alment fara mjög batnandi, ef unglingarnir lærðu strax að leggja meiri rækt við vetraríþróttirnar.

Að síðustu vil jeg geta þess, í tilefni af ræðu háttv. þm. Borgf., að sveitunum er ekki með nokkru meiri óleikur gerður en með þeim hugsunarhætti, sem kemur fram í tillögum þessa hv. þm., sem sje að klípa, naga, spara, svelta og skera alt við neglur sjer, sem kemur við andlegri vinnu þar. Það er ekki með þessum hugsunarhætti, sem hægt er að byggja upp sveitirnar.