24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

141. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg fæ ekki sjeð, hvað það, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, kemur í bága við ummæli mín.

Jeg tók það fram, að meira hefði verið veitt til kaupstaða en til sveita, en jeg ljet það fylgja með, að það er einungis af því, að eftirspurnin er miklu minni frá sveitunum.

Jeg hafði mínar upplýsingar frá bankastjórum Landsbankans, eins og hv. 1. þm. N.-M., en mínar upplýsingar eru að vísu nýrri. Sögðu þeir, að lánbeiðnir frá sveitunum væru afgreiddar svo að segja jafnóðum og þær berast, og væri það vegna þess, hve þær væru fáar; en lánbeiðnir frá kaupstöðum væru látnar bíða eftir sinni röð. Við hjer í Rvík vitum, að það tekur oft 6–9 mánuði að fá lán úr veðdeild, og verð jeg að segja, að það er mikill munur eða að fá það undireins. Jeg segi ekki, að það muni svo ákaflega miklu, að sveitirnar eru látnar ganga fyrir, en þá er heldur alls ekki hægt að segja, að bæirnir taki fjeð frá sveitunum.