27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

141. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Eins og frá var sagt við síðustu umr., er nefndin ekki sammála að því leyti, að meiri hl. vill fá samþ. brtt., sem fer fram á, að stj. verði veitt heimild til að taka 3 miljóna lán til þess að kaupa bankavaxtabrjef. Eftir upplýsingum frá stjórn Landsbankans er ekki hægt að búast við, að bankinn eða viðskiftamenn hans geti keypt veðdeildarbrjef á þessu ári fram yfir þau, sem óseld eru af síðustu útgáfu. Bankinn hefir haldið áfram að kaupa brjefin og selt þau, aðallega til Svíþjóðar, en bankastjórnin býst ekki við, að bankinn geti keypt þær 2 milj., sem eftir eru, hvað þá heldur meira. Og þess vegna leyfir meiri hl. sjer að leggja til, að þetta lán verði tekið, svo að hægt yrði að halda áfram að veita lán úr veðdeildinni. Jeg hygg, að það sjeu allir sammála um, að þetta ástand er óviðunandi, en þar er sú bót í máli, að hæstv. forsrh. hefir lýst yfir því, að hann muni á næsta þingi leggja fram drög til nýrrar fasteignalánsstofnunar, sem jeg vænti, að nái ekki síður til bæja en sveita.