03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

Jeg á eina smábrtt. við 16. gr. og þarf því ekki að vera langorður. Bóndi nokkur að nafni Kristján Jónsson býr í Auraseli. Sá bær er svo settur, að hann stendur á dálítilli grænni flöt milli stórvatnanna tveggja Þverár og Affalls, en þessi vötn eru, eins og mörgum er kunnugt, mjög oft ill yfirferðar. Með miklum dugnaði reisti hann sjer bú þarna á eyðijörð, en hefir ætíð síðan varið mjög miklum tíma í að fylgja mönnum yfir þessi slæmu vötn, er liggja þarna beggja megin, og sjaldnast tekið borgun fyrir, þó fátækur væri. Nú er þessi maður orðinn 70 ára og hefir nú haft þessa leiðsögu yfir vötnin um 30 ár, og finst mjer því sjálfsagt að sýna honum þennan viðurkenningarvott, og vona jeg fastlega, að háttv. deild verði svo höfðinglynd, að hún samþ. þetta, enda er hjer ekki um mikla upphæð að ræða.

Þá kem jeg að annari brtt., er jeg á við 23. gr., sem fer í þá átt, að Rangárvallasýslu verði endurgreiddur 1/3 kostnaðar við byggingu Holtavegarins, er fór fram árin 1922–'24, að upphæð kr. 40811.61. Eins og allir vita, þá hefir sýslan svo sem engar samgöngur á sjó og hefir því orðið að kosta miklu til þjóðvegarins og viðhalds á honum, auk þess sem hún hefir meira að segja orðið að leggja fje til vega í Árnessýslu og að halda við fjallabaksveginum austur í Skaftártungu. Í þetta hefir hún orðið að leggja svo mikið fje, að öll önnur vegamál hafa. orðið útundan og eru nú í hinni mestu óreiðu. Eftir langa mæðu fengust loks úr ríkissjóði 2/3, hlutar þess fjár, er þurfti til að byggja upp þennan vegarspotta, en í raun og veru ætti ríkið alveg að byggja hann, því það eru svo miklu fleiri en sýslubúar, sem um hann fara. T. d. er hann mjög mikið notaður af Reykvíkingum. Má varla minna vera en að þessi vegur sje bygður og haldið við sem þjóðvegi, og það því fremur, sem vegurinn er á mjög slæmri undirstöðu, mýrum og votlendi, og örðugt mjög með aðflutning á ofaníburði. Með því nú að stjórnin hefir tekið samskonar beiðni frá Árnesingum inn í fjárlagafrv., vona jeg, að hv. deild sjái sjer fært að verða við þessari beiðni, svo Rangárvallasýsla geti nú komið öðrum vegamálum sínum í viðunanlegt horf. T. d. er nauðsynlegt að fá góðan veg til Safamýrar, sem er einhver frjósamasti bletturinn á þessu landi, en sökum þess, hve ilt er að komast þangað, deyr þar árlega út gulstararengi, sem ekki er slegið, svo tugum þúsunda hesta skiftir. En eins og jeg hefi áður tekið fram, vona jeg, að háttv. deild sjái sjer fært að samþykkja þetta.