27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

141. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Jeg er sammála hæstv. fjmrh. um það, að ekki sje heppilegt að hafa brjefin, sem keypt eru fyrir lánið, sjerstakan flokk. Mjer er kunnugt um það frá 1926, að þetta þótti valda óþægindum. Jeg álít langeðlilegast, ef lánið er tekið, sem jeg vænti fastlega að verði, verði því varið til þess að kaupa brjef, sem þá liggja fyrir á markaðnum. Hagsmunirnir af því að hafa brjef ríkissjóðs í sjerstökum flokki eru ímyndun ein. Það væri vegur að bera fram um þetta skriflega brtt., en af því að málið á eftir að ganga í gegnum hv. Ed., býst jeg ekki við því að bera fram brtt. Hæstv. fjmrh. er vís til þess að bera slíka brtt. fram þar. Og þó að þetta ákvæði væri felt niður, er stjórninni heimilt að láta þessi brjef vera í sjerstökum flokki, ef einhverjar ástæður gera það heppilegra. Jeg stóð upp aðeins til að leggja inn orð með því, að gert yrði það, sem hægt er, til þess að lánið verði tekið. Það væri mjög bagalegt, ef menn hættu að geta fengið veðdeildarlán.

Út af brtt. háttv. þm. N.-Ísf. skal jeg aðeins geta þess, að mjer virðist sú heimild, sem þar er gefin, geta verið mjög varhugaverð. Við verðum að fara ákaflega varlega í alt, sem veikt getur traust á veðdeildarbrjefunum, en mjer virðist þetta stefna beint í þá átt.