27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

141. mál, bankavaxtabréf

Ólafur Thors:

Hv. þm. N.-Ísf. benti á, að veðdeildarlögin væru aðeins heimildarlög. Já, eftir orðalaginu eru þau það, en í framkvæmdinni eru þau það ekki. Þegar lánbeiðandi getur fullnægt öllum skilyrðum, sem sett eru, þykir hann eiga kröfurjett til láns.

Hv. þm. hefir misskilið það, sem jeg sagði um álit bankastjórnarinnar. Jeg sagði ekki, að veðdeildarlánin ættu að fara eftir því, hver ætti húsin. Jeg sagði, að ef lána ætti út á þurrabúð, gæti verðgildi hennar farið eftir því, hver væri eigandinn á hverjum tíma. Hann taldi dæmið, sem jeg tók, ekki vera rjett, af því að tillaga sín ætti að eins við eignir, sem væru við takmörk verslunarlóða. En eins og brtt. hans er orðuð, má yfirleitt lána út á húseignir, sem eru fyrir utan kaupstaði eða kauptún. Mjer væri ljúft, ef hægt væri að heimila í veðdeildarlögunum lán út á húseignir, sem eru mjög nærri kaupstöðum, en þá yrði ákvæðið að vera það þröngt, að það næði ekki jafnt til húseigna hvar sem væri. Jeg vil benda hv. þm. á, að það er yfirleitt svo um þær húseignir, sem liggja nærri verslunarlóðum, að lánað er út á þær sem næst því, sem veðdeildin lánar.