29.03.1928
Efri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

141. mál, bankavaxtabréf

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Þetta mál þarf í rauninni ekki mikilla skýringa við. Þetta er samskonar frv. og oft áður hefir legið fyrir þinginu, um nýja veðdeildarflokka. En það er að því leyti frábrugðið þeim venjulegu frv., að í þessu var ekki nein heimild fyrir stj. til lántöku, eins og það var lagt fyrir Nd. En háttv. Nd. hefir talið þörf á að setja inn í frv. Slíka heimild. Það má nú að vísu líta svo á, að þegar sje alllangt gengið í þessu efni, þar sem það fje, sem veðdeildin hefir haft til meðferðar, er orðið 22 milj. kr. og ekki er lengra komið en það, að búið er að endurgreiða 8 miljónir. Það eru þá um 14 miljónir, sem veðdeildin á útistandandi. Það má vera, að sumum ógni þessar upphæðir, en jeg tel ekki mikið við þær að athuga, ef fjenu hefir jafnan verið varið þannig, að líklegt sje, að það beri mikinn og góðan árangur til almennra heilla fyrir þjóðfjelagið. Sumir telja, að mikið af þessu fje hafi gengið til þess að byggja bústaði yfir það fólk, sem streymir frá sveitunum til kaupstaðanna, og þá einkum hingað til Reykjavíkur. Jeg skal ekki leggja dóm á þetta, en jeg tel ekki líklegt, að sá straumur verði stöðvaður með því að gera lánskjörin erfiðari; en mjer finst full ástæða fyrir Alþingi að athuga, hversu langt sje rjett að ganga í því að taka lán til þessa. Þó hjer sje ekki talað um nema 3 miljónir, þá má búast við, og reyndar telja víst, að þegar það er búið, verði farið fram á meira. Mjer finst vert að gera sjer grein fyrir, hvar staðar eigi að nema. Það er vitanlegt, að þetta fje gengur nær eingöngu til bygginga í kaupstöðum.

Jafnframt því, að þessi lánsheimild var sett inn í hv. Nd., voru sett inn í 25. gr. ákvæði, sem jeg tel til spillis, og þyrfti að breyta þeim. Jeg skal ekki fara út í það nánar, en geri ráð fyrir, að nefndin athugi, hvort 25. gr. getur staðist eins og hún nú er orðuð. Jeg skal svo ekki fara frekar út í efni frv., en legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til fjhn.