10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

141. mál, bankavaxtabréf

Ingvar Pálmason:

Jeg hefi, ásamt háttv. 3. landsk., leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 719 við þetta frv. Ástæðan fyrir því, að við komum fram með þessa brtt., er sú, að framkvæmdarstjórn Landsbankans hefir hitt að máli nokkra úr fjhn. Ed. og látið þess getið, að sú breyting, sem nú er ráðgerð í þessu frv., sem hjer liggur fyrir, frá því, sem áður hefir verið um veðdeildarflokka Landsbankans, geti máske valdið því, að brjefin seldust lakar.

Eins og menn hafa tekið eftir, er þessi breyting frá því, sem verið hefir um veðdeildarflokka Landsbankans, fólgin í því, að þá er heimilt að lána út á húseignir utan verslunarlóðar, en hingað til hefir það aðeins verið bundið við verslunarlóðir. Nú hefir það komið í ljós, að ýmsir þeirra manna, sem hafa átt hús utan verslunarlóðar og hafa þar full lóðarrjettindi, hafa sótt um lán til veðdeildar bankans, en ekki getað fengið það, vegna þess að heimildina vantaði, og það er víst, að sennilega mjög margir af þessum umsækjendum hafa haft trygg veð að bjóða. Hinsvegar lítur framkvæmdarstjórn Landsbankans svo á, að fyrir þessa rýmkun muni aðsóknin verða mun meiri að veðdeildinni um lán út á slíkar húseignir utan verslunarlóða, og að margar af þeim umsóknum muni verða þannig, að nokkrar líkur geti verið fyrir því, að veðin verði ekki eins trygg og verið hefir. Hefir bankastjórnin bent á, að hún hafi fengið slíkar umsóknir, og bent á ýms dæmi, þar sem svo stendur á, að hús eru bygð með litlum nytjum lands, þar sem hlutaðeigandi vill gjarnan búa sjálfur, en þegar hans missir við, eru litlar líkur til, að neinn vildi búa á þessum stöðum, og gæti húseignin því orðið lítils virði sem eign.

Því er nú ekki að neita, að þetta hefir sjálfsagt við töluverð rök að styðjast hjá framkvæmdarstjórninni, og höfum við flm. litið svo á, að rjett væri að slá við þessu nokkurn varnagla, ef hægt væri. En hinsvegar verður þess ekki dulist, að margar eru þær tryggingar, sem hægt er að setja í húsum á lóðum utan löggiltra verslunarlóða, sem er alveg hæf trygging, bæði hvað veðgildi og stærð snertir, og við finnum, að margir þeir, sem af þeim ástæðum er synjað um lán, eru nokkru misrjetti beittir, þar sem þeir eiga ekki kost á sömu lánskjörum. Þess vegna hefir okkur dottið í hug, að úr þessu mætti nokkuð bæta með því að samþ. brtt. okkar, sem kveður svo á, að lán skuli verða veitt eftir því, sem nánar verður til tekið í reglugerð, og fyrir okkur vakir þá, að í þessari reglugerð verði sett sjerákvæði um þessi hús og lóðir utan verslunarstaða, því að við finnum, að þetta er á rökum bygt hjá stjórn bankans, að þessar eignir geta verið ákaflega mismunandi veðhæfar.

Jeg skal ekki segja um það, hvort hægt verði að koma þessu svo fyrir í reglugerð, að vel sje, en jeg vænti að minsta kosti að tryggja það, að nokkur greinarmunur verði gerður á slíkum veðum, eftir því, hver líkindi eru fyrir, að veðið sje trygt.

Það er rjett, að jeg geti þess um leið, að framkvæmdarstjórnin ber nokkurn kvíðboga fyrir því, að þegar breyting er gerð á lögunum um veðrjettinn, þá geti það haft nokkur áhrif á traust veðdeildar bankans. Það er aðallega svo, að kaupendur, sem ekki eru vel kunnugir, kynnu að líta svo á, að hjer sje um sjerstakan flokk að ræða, af því að nokkur breyting á sjer stað um þau veð, sem á bak við liggja. Jeg skal ekki dæma um, hvort þetta kæmi að sök eða ekki, en þó hygg jeg, að ef hægt verður að halda uppi sæmilegri sölu á þessum brjefum á þann hátt, sem hefir átt sjer stað undanfarið, þannig að ríkisstjórnin og Landsbankinn geri sitt til að halda uppi verði þeirra, þá álít jeg, að þetta verði ekki til mikils skaða. En hvernig sem litið er á þetta mál, þá hygg jeg, að skoða megi brtt. okkar hv. 3. landsk. til bóta, og jeg hygg, að hún muni hafa þær verkanir, að það þurfi síður að saka, þótt tekin verði upp í lögin heimild til þess að lána út á hús og lóðir, sem ekki eru á löggiltri verslunarlóð. Jeg héld því, að brtt. sje til bóta, en um hitt skal jeg ekki deila, hvort hún er fullnægjandi til þess að taka af allan efa bankastjórnar Landsbankans um það, að þessi flokkur sje svo vel trygður og aðrir, er áður hafa verið út gefnir. En jeg vona, að þessi brtt. okkar þurfi ekki að verða til þess að ýta undir þennan efa, ef varlega er farið í það að lána út á nýjar byggingar á þessum stöðum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vona, að hv. þdm. geti áttað sig á þessar í brtt., þó henni hafi ekki verið útbýtt fyr en nú.