31.01.1928
Efri deild: 10. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

34. mál, varðskip landsins

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það þarf ekki að fylgja frv. þessu úr hlaði með langri ræðu, því það var rætt mjög ítarlega um þetta mál á Alþingi í fyrra, og ljetu aðalflokkarnir þá skýrt í ljós skoðun sína á því. Ennfremur hafa verið teknar fram í greinargerð helstu breytingarnar frá lögunum í fyrra, en þau voru tvenn, og hefir það verið tekið úr þeim í þetta frv., er þurfa þótti. Í því er þetta frv. frábrugðið lögunum í fyrra, að í því eru ekki áætlaðir fleiri fastir starfsmenn en þörf er á, og má gera ráð fyrir því, að það spari útgerðinni töluverð útgjöld. Mjer er kunnugt um, að ýmsir hjer á þingi og annarsstaðar álíta, að laun föstu starfsmannanna þurfi að vera hærri en hjer er tiltekið, og ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu, að svo þurfi að vera, samþ. það það, og verður best skorið úr á þann hátt. Það skiftir mjög miklu máli fyrir landið, að hægt sje að gera gæsluna sem fullkomnasta, en það er einnig nauðsynlegt að gæta hófs um eyðsluna, bæði kaupgjald og annað.

Þá er eitt atriði, sem jeg legg til við nefnd þá, er um málið á að fjalla; það er, að bætt verði inn í frv. ákvæði, sem geri með öllu óheimilt að viðhafa vín á varðskipunum. Landhelgigæslunni er það mjög áríðandi, að aldrei komi fyrir, að nokkur maður á þessum skipum geti verið undir áhrifum víns. Þótt við höfum orðið að leyfa vín í landinu undir vissum kringumstæðum, þá er með öllu óþarfi að gera ráð fyrir víni á þessum skipum. Legg jeg svo til, að frv. verði vísað til allsherjarnefndar.