06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

34. mál, varðskip landsins

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Eins og nál. á þskj. 326 og 380 bera með sjer, hefir allshn. ekki orðið á eitt sátt í þessu máli. Minni hl. leggur til, að frv. verði felt, en meiri hl., að frv. verði samþ. með nokkrum verulegum breytingum. Fyrir þessum breytingum er lítilsháttar grein gerð á þskj. 326, og eru þær, eins og sjá má, aðallega í tvennu fólgnar. Aðalbreytingarnar við frv. eru þær, sem meiri hl. gerir við 9. gr., sem er um laun þeirra starfsmanna á varðskipunum, sem ætlast er til, að verði ákveðin með lögum.

Meiri hluti nefndarinnar hefir litið þannig á, að laun skipstjóranna á þessum skipum væru of lág eftir frv., og leggur því til, að þau verði hækkuð samkvæmt því, sem stendur í brtt. Einnig taldi meiri hl. rjett að hækka að nokkru frá því, sem er í frv., laun vjelstjóranna, og nokkrar aðrar breytingar og tilfærslur hefir meiri hl. leyft sjer að gera við laun annara starfsmanna á skipunum.

Fyrsta brtt. meiri hl. er óviðkomandi laununum, en meiri hl. taldi rjett að gefa dómsmálaráðherra heimild til að víkja burt starfsmönnum á þessum skipum, ef ástæða væri til, en til þess að tryggja það, að ekki væri beitt neinu ranglæti við þessa menn, þá þótti meiri hl. rjett að kveða svo á, að þessi brottrekstur skyldi því aðeins lögmætur, að báðar sjútvn. Alþingis samþykki hann. Það getur margt borið það við, að það sje full ástæða til, að dómsmrh. hafi leyfi til slíkrar brottvikningar, en hinsvegar er sjálfsagt rjett að setja einhverjar tryggingar til þess, að þeim sama rjetti verði ekki misbeitt.

Þá er önnur brtt. meiri hl. um það, að 7. gr. falli niður. Meiri hl. leit svo á, að ekki væri rjett að láta 7. gr. standa, vegna þess að hún kemur í bága við gildandi lög, sem mæla svo fyrir, að vjelstjórar skuli vera þrír á skipum, sem hafa yfir 700 hestafla vjelar. Það ákvæði laganna um vjelstjórn á gufuskipum, sem setur þessa tryggingu, álítur meiri hl., að eigi fullan rjett á sjer og að það eigi ekki að nota aðrar aðferðir á þessum skipum ríkissjóðs, varðskipunum, heldur en taldar eru nauðsynlegar á öðrum skipum, sem kringum landið ganga.

Jeg sje ekki ástæðu til, að svo stöddu, að fara út í einstakar brtt. við 9. grein, um laun skipverja, því að það er auðvitaður hlutur, að það getur altaf verið dálítið álitamál, hvernig þau á að ákveða. Jeg vil aðeins geta þess, að meiri hl. nefndarinnar hafði það eitt fyrir augum að stilla laununum í hóf, þannig að þau væru viðunanleg og ekki óhæfilega há, samanborið við aðra starfsmenn ríkisins. Það, sem mest stingur í stúf í brtt. meiri hlutans, er ákvæðið um laun skipstjóra, en við lítum svo á, að með þeim launum, sem þar eru ákveðin, sjeu þessir starfsmenn sæmilega launaðir.

Jeg tel ekki heyra undir þessa umr. að ræða málið alment og fer því ekki út í það, með því líka, að það var rætt ítarlega við 1. umr. Aðalstarf nefndarinnar hefir verið í því fólgið að færa ýms ákvæði frv. til betri vegar. Vera má, að minni hl. finni ástæðu til þess að ræða þetta mál alment, og mun jeg þá ekki sakast um það og taka þá til andsvara eftir því sem þörf gerist, en að svo komnu máli óska jeg ekki eftir almennum umræðum um það.