06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

34. mál, varðskip landsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg legg til, að þetta frv. verði felt, og vísa þar að mestu leyti til þeirra ástæðna, sem fram eru fluttar í nál. minni hl. á þskj. 380. En þau atvik eru fyrir hendi, að ekki verður hjá því komist að gera sjer grein fyrir þeim almennu ástæðum, er liggja til þess, að fella beri þetta frv.

Eins og kunnugt er, hefir núverandi landsstjórn sumpart brotið og sumpart látið fyrirfarast að framfylgja tvennum lögum, er samþykt hafa verið af Alþingi og hlotið konungsstaðfestingu. Jeg á þar við lög nr. 41 1927, um varðskip ríkisins og sýslunarmenn á þeim, og lög nr. 51 1927, um laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins. Og nú er það náttúrlega ekki nema bein afleiðing af atferli stjórnarinnar, að hún flytur nú uppástungu um nýja lagasetningu, sem fer í þá átt að nema þessi tvenn lög úr gildi.

En jeg lít svo á, að ekki megi koma þeirri venju á, þó að nýjar kosningar leiði til stjórnarskifta, að nýja stjórnin virði að vettugi þau lög, sem sett hafa verið og eru í gildi. Og jeg er þeirrar skoðunar, að ef goldin er þögn við slíku einræði stjórnarinnar, eða það samþykt, þá sje þingræðið í hættu. Annars hefi jeg ekki tilhneigingu til að gera meiri hávaða út af þessu máli en nauðsyn krefur. Mildasti mátinn til að leiðrjetta þetta er að segja: Við viljum. láta þessa löggjöf, sem þegar er sett um þessi efni, haldast, og ætlumst til, að stjórnin framfylgi henni. Þennan vilja er hægt að láta illindalaust í ljós með því að fella þetta frv. Ef þingið gerir það, er það ljóst, að það vill, að þau lög sjeu haldin, sem þegar hafa verið sett um þetta. Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins að svo stöddu, en viðurkenni, að þingið gæti á annan hátt látið í ljós vilja sinn, ef til þess þyrfti að taka og ef það fer ekki þessa leið, að fella frv.

Þá kem jeg að efni þessa frv., sem hjer liggur fyrir, og jeg skal strax taka það fram, að jeg hefi ekki getað fundið, að það hefði í neinu verulegu atriði í sjer fólgna nokkra umbót á þeirri löggjöf, sem enn er í gildi um þessi efni, en er að mörgu leyti, sjerstaklega eins og það kom frá hendi stjórnarinnar, til stórskemda í núgildandi lögum. Jeg ætla ekki að endurtaka það, sem stendur í nál. minni hl., minnist aðeins á aðalatriðin, en vísa að öðru leyti til þess, sem þar er sagt.

Í frv. er farið fram á, að yfirmenn skipanna, skipstjóri, stýrimenn og vjelstjórar, sjeu ráðnir til 6 ára í senn með óuppsegjanlegum samningi af beggja hálfu. Þetta nær vitanlega engri átt, enda hefir meiri hl. kannast við þetta með því að leggja til, að öðrum aðiljanum, landsstjórninni, væri gefinn uppsagnarrjettur og rjettur til að víkja þessum mönnum frá starfanum á sama hátt og öðrum embættismönnum ríkisins. Þetta er að vísu nægilegt frá stjórnarinnar hálfu, en þá vantar rjettinn á hina hliðina, svo þeim aðiljanum sje mögulegt að losna frá starfinu, ef hann æskir þess. Og jeg fæ ekki sjeð, að það sje neitt, sem mælir með því, að binda þurfi menn í 6 ár, án þess þeir hafi rjett til þess að losna, ef þeir æskja þess. Það hefir hingað til ekki valdið neinum vandkvæðum, þó starfsmenn gætu ávalt sagt lausum starfa sínum með hæfilegum uppsagnarfresti eða fyrirvara. Og þó það sje gamall vani, að embættismenn beiðist lausnar, þá er það í sjálfu sjer alveg sama sem uppsögn af þeirra hálfu. Að öðru leyti er óheppilegt að taka upp samninga í stað þess að skipa mennina, og er það vegna eftirlaunanna.

Árið 1919 var komið á þeirri tilhögun, að ríkissjóður skyldi vera laus við eftirlaunakröfur, en embættismenn greiða sjálfir af launum sínum í lífeyrissjóð. Þeir menn, sem þannig eru ráðnir til 6 ára, verða ekki skyldaðir til þess að leggja í lífeyrissjóð af launum sínum, og þegar svo þeir eru orðnir útslitnir í starfi sínu, standa þeir að því leyti ver að vígi en aðrir embættismenn ríkisins, að þeir hafa ekki getað safnað sjer ellistyrk í lífeyrissjóði, og endirinn mundi verða sá, að þingið yrði að samþykkja handa þeim eftirlaun, er þeir falla frá. Uppástungan um 6 ára ráðningartímann er því bein afturför og til hins verra fyrir báða aðilja, bæði ríkisstjórnina og starfsmennina. Þá álít jeg ákvæði 5. gr. frv. viðvíkjandi brottrekstri skipverja mjög óviðeigandi. Þar er sem sje gert ráð fyrir því, að skipstjóri geti vikið skipverjum fyrirvaralaust frá starfi, ef þeir verða í einhverju svo brotlegir, að honum þyki næg ástæða til brottrekstrar, en þá skal samt greiða þeim kaup eins og um venjulega uppsögn væri að ræða. Þetta ákvæði frv. álít jeg mjög óheppilegt. Maður, sem gerist svo brotlegur, að ástæða sje til að víkja honum frá starfi fyrirvaralaust, á ekki að eiga neina kaupkröfu fyrir það á hendur vinnuveitanda sínum, en samkv. þessum lögum mundi slíkum manni bera þriggja mánaða kaup. Þetta er alveg sama og ef farið væri að verðlauna brotin.

Það er, eins og jeg hefi áður tekið fram, síst til bóta að víkja á þennan hátt frá núgildandi reglum um að skipa þessa menn eins og aðra starfsmenn ríkisins. Því þó segja megi upp ráðningarsamningnum með þriggja mánaða uppsagnarfresti, þá mundi reyndin verða sú, að þeir sætu kyrrir í skiprúmunum. Og svo þegar til kæmi, mundi ekki verða hjá því komist að láta þá fá sjerstök eftirlaun, í stað þess, að hægt hefði verið að láta þá sjálfa greiða í lífeyrissjóð, ef þeir hefðu verið skipaðir eins og aðrir starfsmenn ríkisins.

Að því er snertir 7. gr. frv., þá er jeg meiri hl. samþykkur í því, að hún eigi að falla niður.

Þá ætla jeg að minnast lítið eitt á launaákvæði frv. sjálfs. Um þau get jeg verið fáorður, því þau eru þannig, að þau ná ekki nokkurri átt. T. d. er starfsmönnum á varðskipunum ekki ætluð dýrtíðaruppbót, en það hefir nú samt líklega ekki verið tilætlun stjórnarinnar að útiloka þá frá henni, heldur mun þetta stafa af missmíði á frv. Hv. meiri hl. hefir borið fram till. til breytinga á launum stýrimanna; og vjelstjóra, og get jeg fallist á þær, því í frv. stjórnarinnar voru þau ákveðin svo lág, að ekki hefði verið unt að fá hæfa menn til þess að gegna þessum störfum fyrir slík laun. Eftir till. meiri hl. verða þau svipuð og þau eru nú, líklega þó heldur hærri, en þar sem svo litlu munar, er ætíð vafasamt, hvort rjettara er, og því ekki ástæða til ágreinings í þessu efni.

Um laun skipstjóranna vildi jeg sjerstaklega fara nokkrum orðum. Eftir núgildandi lögum hafa þeir að byrjunarlaunum 6 þús. kr., sem hækkar smám saman upp í 7200 kr. Eftir stjórnarfrv. eiga þeir að byrja með 5000 kr., sem svo smáhækkar upp í 6000 kr. En meiri hl. leggur til, að þeir byrji með 5800 kr., er hækki upp í 7000 kr., svo eftir því verða launin aðeins 200 kr. lægri en þau eru eftir núgildandi lögum. Jeg tek því brtt. meiri hl. sem viðurkenningu þess, að í raun og veru sje ekki ástæða til þess að breyta ákvæðum núgildandi laga um þetta, og að það sje síst gert af sparnaðarástæðum. En það er dálítið sjerstöku máli að gegna með þá skipstjóra, sem nú eru á skipunum, því þegar þeir voru ráðnir, var þeim lofað, að þeir skyldu halda sömu launum og þeir höfðu haft hjá Björgunarfjelagi Vestmannaeyja. Þetta loforð var að vísu munnlegt, en það er jafnbindandi fyrir það. Þennan samning gerðu þeir við Jón Magnússon fyrv. forsrh., og var mjer vel kunnugt um það, enda er ein gr. núgildandi laga, um laun þeirra, sett með tilliti til þessa, því þeim var lofað, að þeir skyldu halda þessum launum meðan þeir væru á skipum þessum. Jeg skal ekki segja neitt um það, hversu mikið núverandi stjórn er kunnugt um þetta, en skal aðeins geta þess, að í desembermánuði síðastl. skrifaði dómsmrh. skipstjórunum á varðskipunum brjef, sem bæði er brot á gildandi lögum um laun þeirra og brigð á því loforði, sem þeim hafði verið gefið. Í þessu brjefi stendur, að frá áramótum (1927 og 1928) verði skipstjórum á varðskipum ríkisins ekki greidd hærri laun en skrifstofustjórum í stjórnarráðinu, og að launahækkun þeirra skyldi reiknuð þannig, að tekinn væri með sá tími, er þeir störfuðu hjá Björgunarfjelagi Vestmannaeyja. svona tilkynning getur ekki verið gild gagnvart gildandi lögum og ekki heldur gagnvart þeim loforðum, sem gefin hafa verið. Jeg skal ekki fara neitt út í það, hvort heimilt sje að segja þeim upp starfi sínu, en meðan þeir eru kyrrir í stöðum sínum, halda þeir rjetti til þeirra launa, sem þeim hafa verið lofuð.

Jeg hefi nú gert grein fyrir því, að ekki sje um neina slíka framför að ræða hvað snertir ákvæði þessa frv., að þess vegna sje hin minsta ástæða til að samþykkja það.

Loks skal jeg geta þess, að hvað fjárhagshliðina snertir, verða launin líklega heldur hærri eftir till. meiri hl. nefndarinnar en þau eru nú. Að vísu er þessi mismunur ekki svo mikill, að hans vegna sje sjerstök ástæða til þess að fella frv., en þetta mælir heldur ekki með því að samþykkja það.