03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1929

Einar Jónsson:

* (* Ræðuhandr. óyfirlesið.) Það er ekki vegna þess, að jeg sje í hjarta mínu svo ánægður með alla liði fjárlagafrv., að jeg er að þessu sinni ekki viðriðinn nema eina brtt. Venjulega sárnar mjer, þegar jeg sje Alþingi skera mjög við neglur sjer framlög til vega, brúa, síma og annara verklegra framkvæmda. Því hefi jeg reynt að fá nokkra lagfæringu á því, sem allra erfiðast er Rangárvallasýslu, vegunum, ásamt hv. samþm. mínum (GunnS) . Berum við fram brtt. á þskj. 353, XXXV, við 23. gr. II, um að endurgreiða Rangárvallasýslu 1/3 kostnaðar við endurbyggingu Holtavegarins, sem gerð var á árunum 1922–'24, að upphæð kr. 40811,61. Það hvatti okkur til að fara þessa á leit, að sjá það, sem komið er inn í fjárlagafrv. frá Árnesinga hálfu. Þetta er svo hliðstætt, að ef Árnessýsla á nokkurt tilkall til að fá uppgjöf á því, sem hún á vangreitt til endurbyggingar Flóavegarins, þá á Rangárvallasýsla sannarlega kröfu til að fá hluta af kostnaðinum við endurbyggingu Holtavegarins endurgreiddan. Ef nokkur er munur á aðstöðunni, þá eiga Rangæingar betra skilið fyrir það, að þeir hafa lagt að sjer að greiða þann kostnað, sem Árnesingar hafa ekki greitt af hendi ennþá. Það, sem Rangæingar eru búnir að borga, eru meira en 40 þús. kr., því að kostnaðurinn af endurbyggingu vegarins var alls meira en 120 þús. kr., og tillag Rangæinga nákvæmlega 1/3 hluti. En allur kostnaður af endurbyggingu Flóabrautarinnar var ekki mikið meiri en þessi 1/3 hluti Holtavegarins. — Það hvatti okkur ennfremur til að bera fram þessa brtt., að vegamálastjóri áleit þetta svo hliðstætt, að ef samþykkja ætti eftirgjöfina til Árnesinga, — sem jeg hefi ekki neitt á móti —, þá hlyti hið sama að ganga yfir Rangæinga. Og þess er að gæta, að þessir vegir, þó einkum Holtavegurinn, voru á sínum tíma afhentir sýslufjelögunum í mjög ljelegu standi. Því varð að endurbyggja þessa vegi miklu fyr en ella hefði orðið, ef þeir hefðu verið forsvaranlega afhentir.

Jeg skal ekki fullyrða, hvort það er af því, að Rangæingar hafi meiri löngun til að standa í skilum en Árnesingar, að þeir hafa gert það í þessu máli. Jeg býst heldur við, að það sje af því, að þeir hafa farið aðra leið. Þeir hafa sem sje stofnað hjá sjer sýsluvegasjóð, sem hefir gert þeim greiðslurnar hægari. Það hefir Árnessýsla ekki gert, og yfirleitt altof fáar sýslur. Þó að peningarnir hafist gegnum sýslusjóðslög, sem samþykt eru heima í sýslunni, þá eru það í raun og veru sömu útgjöld frá bændanna hálfu, hvort sem þeir fást á þann hátt eða einhvern annan. En jeg vil samt segja, að sýsluvegasjóðurinn hefir orðið til þess, að Rangæingar hafa nú fram að þessu reynt það, sem mögulegt er að láta sjer takast að standa í skilum. Og frá vegamálastjóra hálfu er þeim hrósað fyrir skilsemi.

Jeg ætla nú að vænta þess, að hv. þdm. verði það sanngjarnir, að þeir sjái, að krafa okkar þingmanna Rangæinga á fullan rjett til að verða tekin til greina, svo framarlega sem það atriði sitji kyrt í fjárlögunum, sem Árnesingum er að þessu leyti til góðs.

Jeg er ekki að fara nákvæmlega út í afstöðu Rangæinga að þessu sinni, en vænti þess fastlega, að hv. þdm. þyki sjálfsagt að samþ. till.