08.03.1928
Efri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

34. mál, varðskip landsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hæstv. dómsmrh. talaði nú um nýtt atriði í þessu máli. Hann sagðist hafa orðið að láta brenna eitt eintak af Lögbirtingablaðinu, vegna þess, að búið hefði verið að prenta veitingarnar. Ef nú nokkuð væri óbrent af þessu blaði, þá væri það skýr sönnun þess, að fyrv. stjórn vildi halda lögin. (Dómsmrh. JJ: Á ábyrgð annarar stjórnar). Þetta var ekki annað en dráttur, og jeg geri ráð fyrir, að skipanirnar hefðu verið látnar gilda frá 1. júlí 1927, þó að jeg viti það ekki. En hvað fjármálaráðuneytið snerti, þá er víst, að skipanirnar áttu að miðast við 1. júlí 1927. Eins og menn muna, stóðu um þetta leyti fyrir dyrum almennar kosningar, og það gekk svo fyrir þeim ráðherrum, sem þá sátu að völdum — og jeg hygg að það geti farið svo fyrir fleiri ráðherrum —, að nokkrar frátafir urðu í sambandi við þær. Hinsvegar var það ákveðinn vilji fyrverandi stjórnar að láta þessi lög, sem og önnur landslög, koma til framkvæmda, og hæstv. dómsmrh. hefir sjálfur, nú rjett í þessu, leitt ákveðin rök að því, að svo hafi verið.

Það er alveg rangt, að jeg hafi kastað hv. 2. þm. Reykv. burt úr nokkurri stöðu. Hann var látinn halda þeirri stöðu, sem hann vildi heldur, eftir að hafa valið á milli þeirra. Eftir þá reynslu, sem hann hafði fengið við verslun, var líka þess að vænta, þó að svo færi, að landsverslun yrði lögð niður, að hann hefði betri möguleika á því sviði en með því að setjast að starfi í hagstofunni með aðstoðarmannslaunum. Um það var enginn ágreiningur okkar á milli, enda held jeg, að reynslan hafi síðar staðfest þetta.