04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

34. mál, varðskip landsins

Frsm. l. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg og hv. 2. þm. Eyf. höfum lagt til, að frv. þetta verði samþ., eins og nál. okkar ber með sjer. Þó höfum við gert eina brtt. við frv., en ekki getur hún talist stórvægileg. Að vísu hefðum við talið fleiri smábreytingar æskilegar, en við vildum ekki eiga á hættu að tefja málið með frekari brtt.

Jeg skal geta þess, að jeg hefi ávalt verið á þeirri skoðun, að þeir menn, sem hjer eiga hlut að máli, ættu að vera sæmilega launaðir. En eftir þau ákvæði um launakjör yfirmannanna, er sett hafa verið inn í frv. í hv. Ed., þar sem gert er ráð fyrir, að launin komist upp í 10 þús. kr. á ári, að meðtaldri dýrtíðaruppbót, get jeg fallist á, að launin sjeu viðunandi.

Brtt. okkar á þskj. 661 gengur í þá átt, að starfssamningur yfirmanna varðskipanna gildi, að því er þá snertir, ekki nema eitt ár í senn, í stað sex ára í frv. Teljum við þetta til bóta og í meira samræmi við meginreglur starfssamninga en ákvæði frv. Ennfremur felst það ákvæði í brtt. okkar, að hvor samningsaðili geti sagt upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara, og er sama um það ákvæði að segja og hið fyrra.

Jeg skal taka það fram, að þó að búast megi við því, að pólitík komist inn í umr. um þetta mál, þá mun jeg ekki taka þátt í öðrum umr. en þeim, sem snerta brtt. okkar á þskj. 661.