04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

34. mál, varðskip landsins

Jóhann Jósefsson:

Jeg tók eftir því, að hv. frsm. 1. minni hl. sagði eitthvað í þá átt, að sjer þættu launakjör skipverja komin í nokkurnveginn sæmilegt horf — sterkara kvað hann nú ekki að orði — með breytingum þeim, sem hv. Ed. gerði á frv. Get jeg ekki verið sömu skoðunar um það. Út af fyrir sig tel jeg ekki, að frv. um launakjör skipverja eigi rjett á sjer, því að jeg tel ekki rjett að breyta því, sem samþ. var í því efni í fyrra. Hitt er annað mál, að framkvæmd gildandi laga hefir farið svo úr hendi, að það er landshneyksli, að mínu áliti, en vera má, að einhverjum þyki hjer of sterkt að orði kveðið. En út í það atriði mun jeg ekki fara að sinni. En mjer virðist þessum mönnum ekki sæmilega launað með ákvæðum þeim, sem í frv. eru, enda þótt jeg hljóti að kannast við, að hv. Ed. hefir sýnt virðingarverða viðleitni í þá átt að lagfæra misrjetti það, er hæstv. landsstjórn vildi sýna skipshöfn og skipherrum á varðskipunum. Getur vel verið, að svo fari, að hæstv. Stjórn noti þingfylgi sitt til þess að halda áfram að níðast á þessum mönnum, en jeg tel það mjög ómaklegt og illa farið. Að minni hyggju liggur sómi Alþingis við, að bætt sje úr því misrjetti, sem þessum mönnum hefir verið sýnt.

Eins og áður hefir verið á minst, er frv. þetta svo flausturslega samið, að gleymst hefir að setja þar ákvæði um dýrtíðaruppbót þessara starfsmanna. Er þetta dálítið einkennilegt, þegar þess er gætt, að hæstv. dómsmrh., sem er sá skapandi — eða öllu heldur eyðileggjandi — kraftur í þessu máli, hefir haft embættismenn, einkum í sveitum, til samanburðar um launakjörin. Hefði hann því átt að muna eftir dýrtíðaruppbótinni. En það er eins og hæstv. ráðh. hafi ekkert sjest fyrir í málinu. Hann hefir anað af fótum fram í ákafanum við að þrýsta niður kaupi yfirmannanna, án þess að taka nokkurt tillit til laga eða rjettar. Í brjefi því, er skipherrarnir hafa sent Alþingi, er það sýnt með ljósum rökum, að laun þeirra samkv. stjfrv., og jafnvel eftir frv. eins og hv. Ed. sendi það frá sjer, eru algerlega ósambærileg við laun sambærilegra starfsmanna ríkisins og þess innlenda fjelags, sem í þessu sambandi er hægt að vitna til, Eimskipafjelags Íslands. Þess utan eru með frv. — og það atriði hefir ekki verið leiðrjett í hv. Ed. — bæði skipverjar og skipherrar, sem áður höfðu verið á Þór, rændir þeim rjetti, er þeim þar ákveðinn í fyrra, til þess að þjónustualdur þeirra þar væri tekinn til greina, er reiknuð væru laun þeirra. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði fyrir mennina, þar sem launum þeirra er ætlað að fara stighækkandi á vissu árabili. Þetta ákvæði í gildandi lögum sætti engri mótspyrnu á þingi í fyrra, með því að allir töldu það þá sanngjarnt og sjálfsagt. Þessu hefir hæstv. stjórn nú kipt burtu, eins og flestu öðru nýtilegu í hinum gildandi lögum. Vænti jeg, að hv. deild geti fallist á að leiðrjetta þetta við 3. umr.

Jeg hlýt að taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., að nauðsynlegt sje, að á skipunum sjeu a. m. k. meðal annara vanir menn. Þar verða að vera menn, sem bæði eru vanir sjómensku og því starfi, sem skipin hafa með höndum. En það stendur aldrei í vegi fyrir, að þeir ílendist á skipunum, að þeir megi ekki gera verkföll, heldur hitt, að þeim sje ekki sómasamlega launað. Jeg hitti nýlega að máli einn myndarlegasta hásetann, sem verið hefir á Óðni, og sagði hann mjer, að eftir að hæstv. landsstjórn gerði launabreytinguna í haust, hafi hann farið af skipinu, því að hann hafi ekki treyst sjer til að komast af með þeim launum, sem ákveðin voru. Svona getur verið um fleiri. Þótt ef til vill megi nota viðvaninga að einhverju leyti, þá er hitt nauðsynlegt, að nokkur hluti hásetanna sje vanur landhelgigæslu og björgun. — Hitt, sem hv. 2. þm. Reykv. aðallega fáraðist yfir, að skipverjarnir mættu ekki gera verkföll, er ekki svo mjög tilfinnanlegt fyrir þá, en hinsvegar væri það mjög hættulegt, ef verkföll kæmu fyrir á skipunum. Það kom einu sinni fyrir á Þór fyrir nokkrum árum, að útgerð hans var hótað, að einn háttsettur vjelamaður yrði tekinn af skipinu, ef kaup hans væri ekki hækkað. Skipið var þá við björgunarstarf, og endirinn varð sá, að útgerð skipsins varð að láta undan mjög harðdrægum kröfum, fremur en að missa nauðsynlegan mann af skipinu. Eins verður, þótt ríkið taki við skipunum, ef það er þolað, að hásetarnir sjeu háðir þeim, sem í landi gangast fyrir að stofna til verkfalla.

Jeg sje, að hv. 3. minni hl. ber ekki fram neinar brtt. við frv. Er það vitaskuld af því, að hann leggur til, að frv. sje felt og telur þessa löggjöf óþarfa og órjettmæta. Er jeg þar fyllilega sammála, að rjettast væri að fella þetta frv. algerlega. Til þess er stofnað með ofbeldi og rangsleitni, og það er til niðurrifs og lægingar fyrir landhelgistarfið. Það gerir landhelgigæsluna óvirðulegri og stofnar aga á skipunum í háska. Skal jeg færa nokkur rök fyrir þessum orðum mínum. Í fyrra var svo ákveðið, að skjaldarmerki Íslands skyldi vera á skipunum ásamt nafni þeirra. En nú á þar aðeins að standa: „Þór, Reykjavík“ og „Óðinn, Reykjavík“, eins og á hverri fiskidollu. Þetta virðist mjer ekki miða til annars en að gera landhelgigæsluna óvirðulegri. En til agaleysisins tel jeg stofnað með 5. gr. frv. Þar er tekið fram, að skipstjóri geti vikið skipverja frá, ef honum þykir ástæða til, þ. e. ef ástæða er til, en þó á að greiða honum kaup í næstu 3 mánuði. Þetta, að greiða mönnum kaup, þótt ástæða hafi verið til að víkja þeim frá starfi sínu, hlýtur að verða til að ala upp agaleysi. Ef skipverji vill fara einhverra orsaka vegna, þá má hann það að vísu, en fær ekkert kaup eftir brottför sína. En sje honum vikið frá, á hann kaup í 3 mánuði. Jeg segi ekki, að margir geri það, en það er ekki freistingarlaust fyrir þann, sem vill fara, að láta reka sig, fremur en að segja upp starfinu. Hásetarnir eru einnig skyldaðir til að segja upp með talsverðum fyrirvara, en oft er mönnum hentara að mega fara fyrirvaralaust. Og þá er beinlínis ýtt undir þá að láta reka sig.

Frv. er ekki til bóta að neinu leyti. Þar er gengið á rjett þeirra manna, sem á skipunum eru, og grafið undan aganum. Jeg get tekið undir það með hv. þm. Barð., að mjög nauðsynlegt er að hafa góða og skyldurækna menn á skipunum. Landsstjórnin segist og vilja hafa það svo, en það sjest ekki á framkvæmdunum hjá henni. Þegar athugað er, hvert feikna fje þessir menn hafa dregið í landhelgisjóð bæði í beinum sektum og í andvirði fyrir upptækan afla og veiðarfæri, þá virðist mjer nokkuð harkalega að farið hjá þingi og stjórn, að setja þessa löggjöf, sem til stórra muna íþyngir rjetti þessara manna.

Jeg vil mælast til þess við hv. allshn., að hún taki til athugunar til 3. umr. það, sem jeg hefi sagt um þjónustualdur skipverjanna. Það hafði alment samþykki í fyrra, og þykir mjer næsta ótrúlegt, að hringsnúningur hafi átt sjer stað í því efni hjá meiri hluta Alþingis. Það er þegar viðurkent, að þeir, sem unnu á Þór, meðan hann var eign Björgunarfjelagsins, hafi unnið að sama verkefni og þeir vinna nú á varðskipunum. Það er því á engan hátt rjettlátt að miða þjónustualdur þeirra við þann tíma, sem þeir rjeðust á varðskipin sem eign ríkissjóðs. Mun jeg svo ekki fjölyrða um mál þetta öllu frekar nú; til þess mun verða tækifæri síðar. En jeg legg áherslu á, að launakjör skipstjóranna sjeu borin saman við og miðuð við launakjör skipstjóranna á skipum Eimskipafjelagsins og öðrum skipum ríkissjóðs en þeim, er hjer ræðir um. Segi jeg þetta fyrir þá sök, að í frv. er ætlast til, að skipherrar varðskipanna hafi mun verri kjör en skipstjórar á áðurnefndum skipum. Þá ber og líka að taka tillit til þess, að stjórnin áskilur sjer rjett til þess að gera starfssamning við menn þessa aðeins til 6 ára í senn. Með öðrum orðum, hún vill geta trygt sjer þá, á meðan þeir eru á besta skeiði aldurs síns. En þetta er alveg gagnstætt allri venju, sem tíðkast annarsstaðar í þessum efnum, bæði hjer á landi og í öðrum löndum. Venjan er þvert á móti sú, að menn þessir fá að halda stöðu sinni til 60 ára aldurs, ef ekkert ber út af. En hjer á aðeins að ráða þá til 6 ára í senn. Það er því ennþá berara órjettlætið, sem í því felst að láta þessa skipstjóra hafa mun verri kjör en skipstjóra þá, sem sigla t. d. hjá Eimskipafjelaginu.