04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

34. mál, varðskip landsins

Fram. 3. minni hl. (Hákon Kristófersson):

* Það hefir ekkert það komið fram í þessum umr., sem hefir gefið mjer sjerstakt tilefni til andsvara. Mun jeg því ekki lengja umr. mikið.

Hv. 4. þm. Reykv. mintist á varðskipalögin frá í fyrra og taldi það vel farið, að þau hefðu aldrei komið í framkvæmd. Slík ummæli sem þessi þykja mjer alveg óviðeigandi á löggjafarþingi þjóðarinnar, og jeg verð að átelja það, að einn þm. skuli hafa þau ummæli, að hann telji það vel farið, að gengið sje á snið við þau lög, sem löggjafarvaldið hefir samþykt. Þá gat þessi hv. þm. þess, þegar hann gerði samanburð á launakjörum hásetanna á varðskipunum og háseta á skipum Eimskipafjelagsins, að þeir síðarnefndu hefðu haft síðastliðið ár um 100 kr. í eftirvinnu á mánuði. Jeg er honum alveg sammála um, að þetta sje ekki svo lítið atriði. En mjer kom það dálítið undarlega fyrir, að hann skyldi leggja svona mikla áherslu á þetta atriði, þar sem hann er margbúinn að slá því föstu, að öll eftirvinna sje aðeins til þess að ofþreyta menn, og eigi því ekki að eiga sjer stað.

Hvað snertir vinnuna á þessum skipum, þá er jeg þess fullviss, að hún er mun erfiðari á milliferðaskipunum en varðskipunum. En jeg skal jafnframt játa, að það getur oft verið hættulegt að fara á smábát frá varðskipunum út í togarana, en þess ber þá jafnframt að gæta, að það er altaf einhver yfirmaður með í slíkum ferðum, og hættan vofir því jafnt yfir honum og hásetunum. Þá sagði hv. þm., að sjer virtist, að í frv. þessu væri sæmilega gengið frá launakjörum allra skipverja, nema þeirra, sem ættu mestu hættuna yfir höfði sjer, sem sje hásetanna. En það er nú svo í þessu tilfelli sem öðrum, og það er gangur lífsins, að því meiri ábyrgð, sem á manninum hvílir, því meiri kröfur gerir hann til kaups.

Út af þeim ummælum hv. þm., að engin lög væru til, sem giltu um þetta efni, vil jeg taka það skýrt fram, að til eru lög um það, og það í fullu gildi, enda þótt yfir þau hafi verið troðið.

Þar sem umr. um mál þetta hafa verið svona rólegar, ætla jeg að leiða hjá mjer öll árásarefni, og skal því ekki fara frekar inn á varðskipalögin frá síðasta þingi, og læt því umr. um málið frá minni hálfu lokið að þessu sinni, nema þá því aðeins, að eitthvert sjerstakt tilefni gefist.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)