04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

34. mál, varðskip landsins

Jóhann Jósefsson:

Jeg hafði kvatt mjer hljóðs áður en fundi var frestað, vegna þess að jeg vildi gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 4. þm. Reykv., þó jeg sje honum í ýmsum atriðum sammála, og það í þeim atriðum, sem skifta miklu máli að mínum dómi. T. d. er jeg á sama máli og hann um það, að nauðsynlegt sje, að vel vanir sjómenn sjeu hásetar á varðskipunum, enda er það fyrsta skilyrðið til þess, að hægt sje að nota unglinga á skipunum og að þeir venjist störfunum, að þeir hafi sjer til fyrirmyndar fullgilda menn, sem öðlast hafa þekkingu sjómanna. En þá finst mjer skjóta nokkuð skökku við, að hann geri sig ánægðan með laun þau, sem fullgildum hásetum eru ætluð eftir frv. eins og það er nú, og segir, að vel hafi farið á því, að launaákvæði laganna í fyrra hafi ekki komist í framkvæmd. Þetta þótti mjer undarlegt að heyra af vörum hv. 4. þm. Reykv., sem þykist bera svo mjög hag sjómannanna fyrir brjósti, því eftir lögunum í fyrra voru fullgildum hásetum ætluð mun hærri laun en frv. gerir ráð fyrir.

Þá mintist hann á til samanburðar laun varðskipstjóranna og skipstjóranna hjá Eimskipafjelagi Íslands og taldi þar ekki muna miklu eftir frv. eins og það er nú. Jeg hefi áður tekið fram, að frv. hefði tekið stakkaskiftum til hins betra í meðförum hv. Ed. að því er laun skipstjóranna snertir, en þó munar miklu, að þeir njóti enn sömu launa og Eimskipafjelagið greiðir sínum skipstjórum. Lágmarkslaun skipstjóranna hjá Eimskipafjelaginu eru 8000 þús. kr., að viðbættri dýrtíðaruppbót, sem nema þá til samans um 11 þús. kr. á ári. Þar við bætist ennfremur ágóðahluti, sem getur munað talsverðu, en er vitaskuld ekki ávalt hinn sami. Árið 1926 nam ágóðahluti skipstjórans á Gullfossi 1140 kr. og skipstjórans á Goðafossi eitthvað minna, svo að hjer verður þá að minsta kosti um 12 þús. kr. að ræða, sem þessir skipstjórar hafa í árslaun. Taki maður skipstjórann á Esju, verður útkoman síst betri, enda nálgast árslaun hans, þegar alt er talið með, um 12 þús. kr. En skipstjórum varðskipanna eru ætluð 5800 kr. árslaun, sem verður með dýrtíðaruppbót um 8000 kr. Mismunurinn því um 4 þús. kr. Verður því ekki annað sagt en að sá mismunur sje allverulegur og að varðskipstjórarnir sitji mjög með skarðan hlut samanborið við skipstjórana hjá Eimskipafjelaginu og á Esju.

Þá mintist sami hv. þm. á, að skipherrum varðskipanna hefði hlotnast einhver höpp. Það mun satt vera, að Óðinn hefir eitt sinn dregið enskan togara á flot og fengið einhverja þóknun fyrir það; en jeg veit ekki, hvað mikið. Annars held jeg, að ekki sje vanalegt að reikna með slíkum höppum, sem ef til vill koma einu sinni fyrir á mörgum árum. Þar að auki fylgir slíku starfi mikið erfiði og margskonar áhætta, svo að villandi getur verið að taka slíkt til greina, þegar verið er að ákveða hin föstu laun. Jeg er líka þess fullviss, að kæmi það fyrir skipstjórana hjá Eimskipafjelaginu að bjarga skipi, svo sem átti sjer stað með Óðin, þá muni þeir fá einhvern hluta björgunarlaunanna, eða það, sem þeim ber, án tillits til hinna föstu launa.

Jeg hefi þá sýnt fram á, að það er þvert á móti, að skipherrar varðskipanna hafi svipuð laun og skipstjórar þeir, sem sigla á vegum Eimskipafjelagsins, heldur eru þeim ætluð mun lægri laun eftir frv. Hinsvegar hefi jeg haldið fram, að þeir ættu að vera jafnir, en eftir frv. eru þeir settir skör lægra. Frv. gerir því hvorttveggja í senn, að rýra laun allra starfsmanna skipanna og stytta ráðningartímann, sem færður er niður í 6 ár, og þar að auki er ekki gert ráð fyrir neinum eftirlaunum. En hjá Eimskipafjelagi Íslands er öllum starfsmönnum, sem á vegum þess eru, ætluð eftirlaun. Með lögunum í fyrra var ákveðið, að sama regla skyldi gilda um starfsmenn varðskipanna og um aðra starfsmenn ríkisins; sem greiða iðgjald í lífeyrissjóð, en nú er þetta felt niður, og í staðinn fyrir það eru lagðar enn meiri skyldur á herðar þessum starfsmönnum. Eftir 7. gr. er þeim ætlað að kenna ungum mönnum, sem settir kunna að verða á skipin sem lærlingar. En slíkri kenslu fylgir aukið starf, og virðist það því ekki fara vel saman að binda starfsmönnum ríkisins fleiri skyldubagga á herðar, en lækka launin um leið.

Jeg tel það að vísu vel farið, að skipstjórarnir kenni þessum ungu mönnum, sem lærlingar eru á skipunum, en löggjöfin ætti þá að sjá fyrir því um leið, að þeir sitji ekki við svo þröngan kost, að ekki sje við unandi. En launakjör þessara manna eru samkvæmt frv. á engan hátt við unandi nje Alþingi sæmandi að ætla þeim við þau að búa.