11.04.1928
Neðri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

34. mál, varðskip landsins

Jóhann Jósefsson:

Jeg hefi ásamt tveimur öðrum hv. þm. leyft mjer að flytja nokkrar brtt. við frv. á þskj. 724. Þær snerta ekki í sjálfu sjer grundvallaratriði frv., en fara fram á nauðsynlegar breytingar á launakjörum skipverja. Eins og hv. þdm. munu sjá, eru ekki gerðar breytingar. við laun annara starfsmanna en skipstjóra og stýrimanna. Okkur virðist laun þeirra eftir atvikum heldur lág, og einkum laun skipherranna. Það var alment viðurkent í fyrra, þegar afgreidd voru lögin um launakjör á varðskipunum, að laun stýrimanna væru með allra lægsta móti; og jeg geri ráð fyrir, ef tími hefði unnist til, að breytingar hefðu náð fram að ganga á þeim, ef fram hefðu komið.

Hjer er nú leitast við að bæta úr þessum ágöllum með brtt. okkar. En jeg skal geta þess, að að þeim samþyktum verður skipverjum varðskipanna ekki eins vel borgað eins og gerist á verslunarskipum Eimskipafjelagsins og ríkissjóðs. En þó tel jeg, að launakjörin myndu verða viðunandi. En það verða þau líka að vera fyrir æðri og lægri á þessum varðskipum. Því að það starf, sem varðskipin hafa með höndum, er svo vandasamt og svo nauðsynlegt fyrir þetta land, að Alþingi er skylt að sjá um, að kjör starfsmanna á þeim sjeu í alla staði sæmileg.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta. Jeg treysti rjettsýni hv. þdm. til að sjá svo um, að frv. verði afgreitt þannig frá þinginu, að launakjörunum verði komið í það horf, sem hjer er farið fram á.

Það verður ekki sjeð í frv. nákvæmlega, hvaða kaup eigi að gjalda fullgildum hásetum og kyndurum á þessum skipum, og hefir okkur tillögumönnum því komið saman um að leggja til, að fullgildir hásetar og kyndarar njóti sömu launakjara eins og gerist á strandferðaskipi ríkisins. Jeg legg áherslu á, að hjer er talað um fullgilda háseta, vegna þess, að jeg veit til þess, að hæstv. stjórn ætlast til, að á þessum skipum sjeu lærlingar, og um þeirra kjör vil jeg ekki gera tillögur. En eins og hv. 4. þm. Reykv. og fleiri hafa bent á, þá verður vitanlega ekki komist af án þess að hafa á varðskipunum nokkuð af sjóvönum mönnum og fullgildum hásetum. Og það virðist öll sanngirni mæla með því, að þeirra launakjör sjeu höfð svipuð og þeirra manna, sem starfa á strandferðaskipum ríkissjóðs. Ennfremur höfum við leyft okkur að leggja til, að greinin í núgildandi lögum um þjónustualdur fái að haldast framvegis. Jeg held það hljóti öllum að vera ljóst, að þegar laun breytast við lengri starfstíma, þá sje sanngjarnt að taka tillit til þess tíma, sem þessir menn hafa áður starfað á Þór við svo að segja nákvæmlega sömu verk, sem þeir nú starfa við á strandvarnarskipi ríkisins.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál; það hefir svo oft verið minst á launakjör á varðskipunum, og síðast við 2. umr. þessa máls. En þessar tillögur eru bornar fram í trausti þess, að þótt hv. þdm. greini á um fyrirkomulagið, þá sjeu þeir yfirleitt þeirrar skoðunar, að þeir menn, sem starfa að björgun við strendur landsins og að eftirliti við fiskveiðar, skuli fá sæmilega borgun ; en meira er hjer ekki farið fram á. Það er vitanlegt, að undir árvekni yfirmanna á varðskipunum, er það að mestu leyti — ef ekki að öllu leyti — komið, hvernig bæði landhelgigæsla og björgunarstarfsemi fer úr hendi. En hitt er líka vitanlegt, að jafnframt því, sem þeim er ætlað að hafa nokkuð af óvönum mönnum, þurfa þeir að hafa góða sjómenn með.

Hv. 4. þm. Reykv. hefir flutt sex brtt. samtals á þskj. 722, og skal jeg ekki vera margorður um þær. Jeg get tekið undir margt af því, sem hann sagði, og skal kannast við, að hann hefir allra manna besta aðstöðu til þess að hafa talsverða sjerþekkingu á þessum málum.

Ein brtt. hv. þm. er nokkuð sama efnis og 2. brtt. okkar á þskj. 724; hún er um það, er skipstjóri sjer sig tilneyddan að segja skipsmanni upp stöðu sinni fyrir einhverjar sakir. Jeg sje á till. hv. þm., að okkur kemur saman um, að það sje ekki rjettmætt, að hinn brotlegi maður eigi kröfu á þriggja mánaða launum. Fara báðar brtt. í þá átt að nema það í burt. Hv. 4. þm. Reykv. bætir að vísu við, að ástæður verði að vera til samkvæmt gildandi sjólögum; það skal jeg fúslega kannast við, enda mun að sjálfsögðu ekki koma til mála, að brottvísun eigi sjer stað að öðrum kosti. Og þar sem hann segir „gildandi sjólög“, ræðir það vitanlega um það, að viðkomandi skipsmaður hafi gert sig brotlegan í einhverju gagnvart skylduverkum sínum. Jeg gæti því eins aðhylst þessa till. hv. þm. eins og till. okkar á þskj. 724.

6. brtt. hv. 4. þm. Reykv., um gjald í lífeyrissjóð og eftirlaunarjett þessara embættismanna, álít jeg til bóta og vil fyrir mitt leyti fylgja henni.

Þá á jeg eftir að minnast á fyrstu brtt. á þskj. 724, sem fer í þá átt að halda því ákvæði í gildandi lögum, að Skjaldarmerki landsins sje haft á skipunum. Það kann að álítast, að það skifti ekki miklu máli, en jeg verð að segja, að þar sem er að ræða um skip til eftirlits og löggæslu, þá sje ekki nema eðlilegt og rjett, að þau hafi Skjaldarmerki. Jeg hygg, að hver einasti maður, sem við löggæslu fæst, hafi skjaldarmerkið utan á sjer einhversstaðar.

Eftir því sem mál þetta hefir verið rætt áður, álít jeg óþarft að tala meira um það, og skal láta máli mínu vera lokið um þessar brtt.

Þá vil jeg minnast á brtt. á þskj. 723, frá hv. þm. N.-Ísf. og mjer, um það, að sama ákvæði og er í núgildandi lögum um laun skipherranna á varðskipunum fái að haldast. Það er vitanlegt, að þegar þeir skipherrar, sem nú stjórna Óðni og Þór, voru ráðnir, þá var svo um samið af hálfu stj., að þeir fengju að halda þeim launum, sem þeir höfðu áður hjá Björgunarfjelagi Vestmannaeyja, 12 þús. kr. Í því trausti rjeðust þessir menn í þjónustu ríkisins. Þess hefir orðið vart, að margir álíta launin of há; en jeg vil benda á, að þau eru ekki hærri en laun skipstjóranna á póstskipunum íslensku. Starfsmenn við landsstofnanir eru venjulega ekki látnir bíða tjón af breytingum á launakjörum, ef breytingin miðar til rýrnunar á launum, og er þá sú leið farin, að þeir, sem eru við starfið, þegar breytingin verður, fái meðan þeir eru við starfið að halda óbreyttum launakjörum. Er skemst á að minnast bankalögin frá í fyrra, og ennfremur það frv. um breyting á bankalögunum, sem þessi hv. deild afgreiddi í gær. Þar er, um leið og samþ. eru nýjar till. um launakjör bankastjóranna, ákveðið, að laun núverandi bankastjóra haldist eins og þau hafa verið. Jeg þarf ekki að nefna fleiri dæmi af þessu tægi; það er svo algengt, að menn eru ekki látnir koma undir ákvæði nýrra laga. Og hjer er því sjerstaklega til að dreifa, að skipherrarnir voru á sínum tíma af þáverandi stj. ráðnir með þessum kjörum. Mjer finst það því vera í samræmi við það, sem áður hefir verið gert, að láta þessa menn hafa áfram sömu laun og þeir hafa nú. Þeir hafa starfað undanfarin 8 ár að björgun og eftirliti, og jeg þori að fullyrða, að framkoma þeirra þann tíma hefir fyllilega sýnt það, að þeir eru alls góðs maklegir.